Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir þessar borgarstjórnarkosningar kynnt skynsamlega og metnaðarfulla stefnu í mörgum málum sem auka mun lífsgæði borgaranna og bæta daglegt líf, til að mynda í dagvistunar- og leikskólamálum. Fleiri valkostir, fjölbreyttari þjónusta. Ekki er vanþörf á því að nýleg þjónustukönnun í stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að hvergi eru íbúarnir óánægðari með þjónustu leikskóla og grunnskóla en í Reykjavík, sjálfri höfuðborg landsins.
Borgin hefur brugðist á fleiri sviðum. Hún fær falleinkunn á fimm af níu mælikvörðum fjármála í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins. Og hún er Íslandsmeistari í skattbyrði í flokki stærstu sveitarfélaga landsins, því að ekkert þeirra tekur til sín hærra hlutfall af tekjum íbúanna en Reykjavík gerir.
Þetta er afleitt og þessu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að breyta. Það má ekki alltaf vera fyrsta svar hins opinbera að seilast dýpra og dýpra ofan í vasa heimilanna í landinu, oft til að fjármagna óskilvirkt og þunglamalegt bákn. Stjórnvöld verða að líta í eigin barm, hagræða og forgangsraða.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur því boðað að hann ætli að lækka útsvar borgarbúa í þrepum á hverju ári þar til það verður komið undir 14%. Þetta eru góð og skynsamleg áform sem auka munu ráðstöfunartekjur einstaklinga og fjölskyldna í Reykjavík. Það er kominn tími til að breyta í borginni.