Álagsstýring og almannaréttur

Allir kannast við að talað sé í hálfkæringi um Ísland sem „skerið“. Jafnvel „klakann“. Með því er gefið í skyn, oftast meira í gamni en alvöru, að við höfum dregið stutta stráið í happdrætti heimshlutanna.

Það er auðvitað öðru nær. Náttúruauðlindir Íslands eru ekkert minna en stórkostlegur lottóvinningur fyrir fámenna þjóð. Skynsamleg nýting þeirra hefur átt drjúgan þátt í að færa okkur lífskjör á heimsmælikvarða.

Nýtingin hefur þó ekki alltaf verið skynsamleg. Stundum hefur þurft að grípa í taumana til að tryggja að hún væri arðbær, ábyrg og sjálfbær. Kvótakerfið er skýrasta dæmið. Rammaáætlun sömuleiðis mikilvæg viðleitni til að tryggja vandaðar og yfirvegaðar ákvarðanir. Hvort tveggja metnaðarfull kerfi, nýstárleg á sínum tíma og byltu fyrri nálgun gagnvart tveimur af helstu auðlindum okkar, fiskinum og orkunni.

Ég tel að við stöndum nú á tímamótum hvað varðar náttúru landsins. Stóraukin umferð ferðamanna er grundvallarbreyting sem kallar á að við tökum fyrri nálgun til endurskoðunar. Auka þarf verulega stýringu í þágu náttúruverndar. Okkur ber skylda til að tryggja að landið hljóti ekki óbætanlegan skaða af núverandi álagi, að ekki sé minnst á aukið álag sem ýmis svæði gætu hæglega átt í vændum.

Í mörgum tilvikum dugir að bæta aðstöðu og leiðsögn. Mikið hefur áunnist í þeim efnum. Stjórnvöld verja árlega vel yfir milljarði króna til slíkrar uppbyggingar og munu gera það áfram. (Sú staðreynd vill gleymast þegar kallað er eftir komugjöldum til að fjármagna innviði.) Þrjár stoðir þeirrar uppbyggingar eru Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, Landsáætlun um uppbyggingu innviða, og nýjar reglur sem heimila að gjald sé í auknum mæli tekið af ferðamönnum fyrir þjónustu sem þeir njóta, meðal annars í þjóðgörðum.

Í öðrum tilvikum gæti hins vegar þurft að innleiða stýringar sem okkur þykja framandi; setja þrengri skorður við umferð, eftir svæðum eða tímabilum, jafnvel þannig að fjöldatakmarkanir verði innleiddar í einhverjum tilvikum. Ég tel að fjöldatakmarkanir eigi ekki að vera leiðarljós eða fyrirframgefið markmið en þær geta þó átt rétt á sér. Um þetta verða eigendur og eftir atvikum ábyrgðar- og umsjónaraðilar hvers svæðis að taka ákvarðanir.

Hornstrandir og Laugavegurinn eru tveir áfangastaðir sem slík umræða hefur beinst að nú nýverið, sá fyrri vegna umferðar skemmtiferðaskipa og sá síðari eftir að Einar Sveinbjörnsson lýsti sinni reynslu svo að eftir var tekið.

Þörfin fyrir svo róttækt inngrip kann að virðast langsótt þegar haft er í huga að gönguleiðin vinsæla um Cinque Terre á Ítalíu, sem er ekki nema 12 kílómetrar, tekur árlega við 2,5 milljónum ferðamanna og rætt hefur verið um að setja mörkin þar við eina og hálfa milljón. Um þennan samanburð held ég að megi segja þrennt: að okkar náttúra sé viðkvæmari, að við höfum ekki áhuga á að taka við eins mörgum, og að við getum tekið á móti heldur fleiri en við gerum í dag ef við bætum aðstöðu og innviði.

Almannarétturinn, sem um aldir hefur tryggt okkur umgengnisrétt um landið, getur ekki falið í sér rétt til að valda óásættanlegum náttúruspjöllum. Það gengur heldur ekki upp að túlka hann þannig að í krafti hans megi skilyrðislaust stunda hópferðir í atvinnuskyni um viðkvæm svæði.

Álagið er ekki eingöngu af völdum erlendra ferðamanna því að göngur og hjólreiðar um fjöll og firnindi verða sífellt vinsælli meðal okkar Íslendinga, sem er að sjálfsögðu jákvætt þótt það feli í sér ákveðna áhættu hvað varðar umgengni um náttúruna.

Það er eftirtektarvert að markviss stýring á álagi og umferð er almennt talin jákvæð af þeim sem fjalla um ferðamál í erlendum fjölmiðlum. Ég tel að Ísland hafi tækifæri til að skipa sér í fremstu röð hvað þetta varðar og að það muni styðja við og auka orðstír okkar sem ferðamannalands. Þannig tel ég að það geti farið saman að hámarka bæði arðsemi og sjálfbærni í nýtingu okkar á þessari dýrmætu auðlind.