Höfundur vinsælustu YouTube-rásar veraldar, sem tímaritið Time útnefndi í fyrra einn af 100 áhrifamestu einstaklingum heims, birti fyrr í vikunni 18 mínútna langt myndband af nýlegri heimsókn sinni til Íslands. Daginn eftir höfðu yfir þrjár milljónir manna horft á myndbandið, þar sem farið er fögrum orðum um landið og það sem hér er í boði. Ef fram fer sem horfir munu áhorfendur hafa náð fimm milljónum þegar þú lest þessa grein.
Um sama leyti bárust þær fréttir að Reykjavík væri einn af tíu eftirsóttustu áfangastöðum heims samkvæmt mælingu vefsins Pinterest. Höfuðborgin okkar er þar á pari við áfangastaði á borð við Barcelona, Bora Bora, Kyoto og Santorini.
En skilar þessi áhugi sér í krónum og aurum? Fyrir skömmu birti Rannsóknarsetur verslunarinnar tölur um erlenda kortaveltu í júlí. Hún jókst umtalsvert á milli ára í nær öllum útgjaldaflokkum. Í gistingu nam aukningin 9,5%; í bílaleigum 7,6%; í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi 6,6%; í ýmissi þjónustu svo sem skipulögðum ferðum 4,8%; í veitingaþjónustu 4,1%.
Verslun dróst að vísu saman, einkum minjagripasala, en almennt var þetta hraustleg veltuaukning sem flest fyrirtæki teldu viðunandi, sérstaklega eftir tugprósenta aukningu í nokkur ár á undan. Og hún varð þrátt fyrir að verðlag á Íslandi í erlendum gjaldmiðlum hefði hækkað stórkostlega á þessu tímabili. Krónan styrktist um hvorki meira né minna en 15% gagnvart evru, 16% gagnvart dollar og 19% gagnvart pundi.
Á sama tímabili – júlí til júlí – fjölgaði erlendum ferðamönnum um 15% samkvæmt hefðbundinni talningu. Þar sem þetta er meiri aukning en í kortaveltu má slá því föstu að neysla á mann hafi minnkað, ekki mæld í gjaldmiðli ferðamannsins sjálfs en í krónum. Enda hefði það gengið kraftaverki næst hefði það ekki gerst eftir styrkingu krónunnar.
Seðlabankinn sagði fyrr í vikunni að það væri til marks um „möguleg vatnaskil“ í ferðaþjónustu að útgjöld hvers ferðamanns hefðu dregist eilítið saman. Kannski er það rétt. En það kemur ekki á óvart eftir 15-20% gengisstyrkingu, því ella væri verðteygnin nánast engin.
Frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar er mjög jákvætt að frá því í byrjun júlí hefur styrking krónunnar næstu 12 mánuði á undan gengið að verulegu leyti til baka, mest gagnvart evru.
Talsmenn ferðaþjónustunnar hafa oft og réttilega bent á að „hausafjöldinn“ sé ekki aðalatriði. Meiru skipti gistinætur og neyslumynstur. Í vikunni bárust þær fréttir að hausafjöldinn hefði verið ofmetinn, samkvæmt aðferðafræði sem beitt hefur verið um árabil. Hér hlýtur hið sama að gilda, að hausarnir séu ekki aðalatriði. Að sjálfsögðu er þó mikilvægt að tölur séu sem réttastar og að saman segi þær rétta sögu. Ég mun fara fram á að áfram verði lögð áhersla á aukna nákvæmni og áreiðanleika gagna.
Góðu fréttirnar eru þær að ef ofmatið hefur verið að aukast smám saman – sem vísbendingar eru um vegna fjölgunar bæði sjálftengifarþega og erlends vinnuafls, sem hvort tveggja hefur talist til erlendra ferðamanna – þá þýðir það að meðaldvalartími hvers ferðamanns hefur ekki verið að styttast eins mikið og tölurnar hafa bent til, og meðaleyðsla hvers ferðamanns hefur ekki verið að minnka eins mikið. Hvort tveggja er þá í betra horfi en við héldum: meðaldvalartíminn er lengri en talið var og meðaleyðslan meiri en talið var.
Fíllinn í herberginu hvað varðar skekkjur í mati á umfangi ferðaþjónustunnar er sú staðreynd að gistináttatölur ná ekki utan um Airbnb nema að takmörkuðu leyti. Sterkar vísbendingar eru um að gistinóttum á Airbnb hafi fjölgað gríðarlega á undanförnum misserum. Að undanskilja þær veldur því að öllum líkindum umtalsverðu vanmati á meðaldvalarlengd ferðamanna. Tölum um styttri dvalartíma ferðamanna, sem taka ekki Airbnb með í reikninginn, ber því að taka með miklum fyrirvara.
Fyrr í sumar fól ég ferðamálaráði að gera tillögur um aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar, meðal annars hvernig bregðast megi við áskorunum sem felast í gengisþróun krónunnar, sem gera má ráð fyrir að komi harðast niður á landsbyggðinni. Í ferðamálaráði sitja fulltúrar Samtaka ferðaþjónustunnar, ásamt fleirum sem þekkja vel til greinarinnar. Ég hlakka til að sjá tillögur ráðsins og mun beita mér af alefli fyrir öllum aðgerðum sem ég tel raunhæfar og skynsamlegar.