Um harðfylgi, ólík sjónarhorn og blinda bletti

Þekkt teikning sýnir tvo menn horfa á tölu sem skrifuð hefur verið á jörðina á milli þeirra. Annar heldur því hástöfum fram að talan sé 6. Hinn gargar æfur að talan sé 9. Ef þeir aðeins „kúpluðu sig niður“ og sýndu dálitla yfirvegun myndu þeir komast að raun um að báðir hafa nokkuð til síns máls og hvorugur er genginn af göflunum.

Lexían er að ganga ekki út frá því að niðurstaðan sem virðist blasa við okkur, jafnvel kristaltær, ótvíræð og borðleggjandi, sé hin eina rétta fyrr en við höfum horft á hana frá eins mörgum ólíkum hliðum og okkur er unnt. Í þessu felst alls engin afstæðishyggja heldur einfaldlega aðgát og yfirvegun.

Allt mannkyn í Texas

Mörgum okkar finnst ábyggilega borðleggjandi að mannfólkið sé orðið býsna fyrirferðarmikið á jörðinni. En prófum að horfa á málið frá nýstárlegum sjónarhóli: Ef mannkynið allt byggi í einni borg, og sú borg væri álíka þéttbýl og New York (ekki Manhattan heldur öll New York-borg), þá væri sú borg á stærð við Texas. Allt mannkyn innan landamæra Texas og hvergi sála á ferli annars staðar á jörðinni. Samkvæmt þessu virðist mega ætla að það sé feikinóg pláss á jörðinni fyrir fleira fólk. Nýr sjónarhóll, ný ályktun.

Fögnum þó ekki of snemma heldur veltum málinu á fleiri kanta. Tökum með í reikninginn hversu mikið land þarf til að sinna þörfum þessa samanþjappaða mannkyns, sem okkur hefur tekist að smala til nýju risaborgarinnar okkar í Texas. Áætlað hefur verið að allt landrými á jörðinni myndi ekki duga, að öllu öðru óbreyttu, til að sinna neyslu þessarar borgar ef íbúar hennar notuðu jafn mikið af auðlindum og Bandaríkjamenn gera í dag. Nýr vinkill, ný niðurstaða.

Stuðlagil

Tilefni þessara hugleiðinga um nýstárleg sjónarhorn og óvæntar hliðar á málum eru magnaðar myndir Einars Páls Svavarssonar sem birtust fyrir nokkru í tímariti flugfélagsins WOW af einstakri náttúruperlu hér á Íslandi, sem næstum enginn hafði heyrt um. Hér er um að ræða magnaðar stuðlabergsmyndanir við Jökulsá á Dal, sem komu ekki í ljós fyrr en ánni var að mestu beint í annan farveg með Kárahnjúkavirkjun. Þegar beljandi jökulfljótið hvarf kom undan því þessi ægifagri staður, sem á sér fáar ef nokkrar hliðstæður, og er kallaður Stuðlagil.

Eftir á að hyggja skiptir tilvist þessarar náttúruperlu sannarlega máli þegar við vegum og metum jákvæð og neikvæð áhrif hinna miklu framkvæmda. (Á sama hátt og eyðing hennar hefði þótt gríðarlegur skaði, jafnvel með öllu óréttlætanlegur.) Gallinn er auðvitað sá að hér var um að ræða óþekkt og ófyrirsjáanleg áhrif, sem við gátum ekki haft til hliðsjónar þegar við mynduðum okkur skoðun. Þegar við erum krafin um að taka afstöðu er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sum sjónarhorn eru okkur hulin, hversu mikið sem við reynum að sjá allar hliðar.

Blindir blettir umræðunnar

En það er annað sem er ekki síður merkilegt við þessa nýfæddu náttúruperlu og það er sú staðreynd að mörgum mánuðum eftir að greinin um hana birtist í flugtímaritinu hafði hún enn ekki fengið neina teljandi athygli. Að vísu voru myndirnar nú nýverið birtar á „Baklandi ferðaþjónustunnar“, vinsælum Facebook-hópi áhugafólks um ferðamennsku á Íslandi. En engu að síður vita margfalt færri af þessari glænýju náttúruperlu heldur en ef hún hefði glatast, því þá væri hún á allra vitorði. Er það ekki sérkennilegt? – Það skiptir ekki höfuðmáli í þessu sambandi hvers konar skekkju í umræðunni er um að kenna. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir að það eru „blindir blettir“ í umræðunni, sem er hægt að sjá ef við leggjum það á okkur að líta til hliðar.

Það er mikilvægt að fylgja stefnu sinni, markmiðum og hugsjónum eftir af festu og harðfylgi, jafnvel hörku ef því er að skipta. En forsendan fyrir því að ná hámarksárangri er að sjá málin frá ólíkum hliðum og fá aðra til að gera slíkt hið sama.

Þeim sem vilja kynna sér frægustu skrifin um viðfangsefni þessarar greinar er bent á Bítlana, einkum sáttagjörðarsönginn „We Can Work It Out“.