Ný ríkisstjórn tók til starfa undir merkjum þess að styrkja Alþingi, auka samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu, slá nýjan tón og efla traust á stjórnmálunum. Þetta eru ekki eingöngu orð á blaði heldur einlægur ásetningur. Ég hef heyrt ýmsa úr stjórnarandstöðunni taka undir mikilvægi þessa, að vísu miseindregið. En þegar á reynir má sjá hversu mikil alvara er að baki. Sé pólitískur stundarávinningur í boði stenst stjórnarandstaðan ekki þá freistingu að stunda hallærislegan skotgrafahernað og neðanbeltishögg. Þetta eru vonbrigði.
Einstakur atburður
Fyrir atburði vikunnar voru meira en 60 ár liðin frá því að vantrauststillaga var borin upp á Alþingi á hendur einum tilteknum ráðherra. Engar sérstakar takmarkanir eru á því hvert tilefni vantrausts getur verið. Samt hafði þetta bara gerst einu sinni áður á lýðveldistímanum, fyrir næstum mannsaldri. Hér er því um mjög óvenjulegan og í raun einstakan atburð að ræða.
Hvers vegna hefur engin slík tillaga komið fram í meira en sex áratugi? Er það vegna þess að ráðherrar og embættisverk þeirra hafi verið óumdeild á þessum tíma? Er það vegna þess að stjórnarandstæðingar hafi upp til hópa verið liðleskjur og undirlægjur allan þennan tíma? Auðvitað ekki. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að þeir hafa tekið hlutverk sitt og ábyrgð alvarlega.
Ráðherra tók mark á Alþingi í góðri trú
Allir þingmenn vita að listi hæfnisnefndar yfir dómara Landsréttar, sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra breytti, hefði ekki farið óbreyttur í gegnum þingið. Hann hefði ekki verið samþykktur. Þingmenn, meðal annars liðsmenn núverandi stjórnarandstöðu, kröfðust þess beinlínis að ráðherra myndi breyta listanum.
Í þessu máli er grundvallaratriði að hafa í huga að það er óumdeilt að dómsmálaráðherra var í fullum rétti til að gera breytingar á dómaraefnum. Dómsmálaráðherra hefur sagt að hún hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni eins og hún taldi fullnægjandi. Og Alþingi fékk tillögu ráðherrans til meðferðar og féllst á hana. Eina álitamálið snýr að því, sem ávallt hlýtur að vera matskennt, hvort málið hafi verið fullrannsakað.
Það er sjálfsagt að læra af því þegar dómar skýra gildandi löggjöf, sem gerist reglulega eins og við vitum. En að fullyrða að mat Hæstaréttar á því, að ráðherra hafi getað sinnt rannsóknarskyldu sinni betur, sé tilefni til að leggja fram vantrauststillögu er fyrirsláttur í pólitískum leik sem gerir lítið til að auka virðingu Alþingis, nema síður sé.
Fyrst með, síðan á móti
Málatilbúnaður þingmanna Viðreisnar er kapítuli út af fyrir sig. Þau studdu sem kunnugt er tillögu ráðherrans um dómara en halda því núna fram að ráðherra hafi leynt þau upplýsingum sem gjörbreyti málinu.
En um hvað snýst málið? Jú, Hæstiréttur segir að ráðherra hafi ekki rannsakað málið nógu vel. Eru það nýjar upplýsingar fyrir Viðreisn að efasemdir hafi verið um þetta? Nei, ekki aldeilis. „Við höfðum uppi verulegar efasemdir í umfjöllun okkar um málið, að það hefði ekki verið nægilega vel rannsakað,“ sagði Þorsteinn Víglundsson sjálfur á Alþingi í umræðum um vantraustið núna í vikunni. Samt studdu þau tillögu ráðherrans á sínum tíma.
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á sínum tíma var ráðherra auk þess beinlínis spurð út í ráðgjöf sem hún hefði leitað eftir, eins og fram kom í máli forsætisráðherra á Alþingi í vikunni: „Það var spurt um þá ráðgjöf sem hæstvirtur ráðherra hefði sótt sér. Það gerði ég sjálf á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það kom fram hjá hæstvirtum ráðherra að hún vísaði til eigin mats eins og hún hefur gert síðan þannig að þetta eru ekki nýjar upplýsingar í málinu,“ sagði forsætisráðherra.
Það sem hefur gerst nýtt í þessu máli er að umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka það ekki til sérstakrar skoðunar en hann hefur hins vegar boðað frumkvæðisathugun á því mati hæfnisnefnda sem fer fram á hæfi umsækjenda um opinberar stöður. Ég fagna þeirri athugun. Það er svo hlutverk okkar stjórnmálamanna að fara yfir það hvort endurskoða þurfi reglurnar eða breyta verklagi. Vonandi eru sem flestir tilbúnir í þá vinnu.