Ágætu ljósi var varpað á áskoranir og tækifæri ferðaþjónustunnar á fróðlegum fundi Ferðamálastofu og Íslenska ferðaklasans í vikunni, þar sem sjónum var einkum beint að tækniþróun og upplýsingabyltingunni. Allmörg íslensk fyrirtæki hafa þróað tæknilausnir sem gefa möguleika á að auka bæði skilvirkni og gæði á ýmsum sviðum. Kynning frá Origo á sérhönnuðu upplýsinga- og leiðsögukerfi í bílaleigubíla var til að mynda áhugavert enda ljóst að sérsniðnar lausnir á því sviði geta haft þýðingu fyrir hegðun, öryggi og upplifun stórs hluta ferðamanna.
Skilgreinum burðarþolið
Fjölmiðlar höfðu skiljanlega mestan áhuga á vangaveltum Dougs Lanskys um hvenær Ísland teldist vera uppselt og gæti ekki tekið við fleiri gestum. Rétt er að árétta að Lansky hélt því ekki fram á fundinum að sá dagur væri runninn upp. Hann hvetur okkur aftur á móti til að skilgreina flöskuhálsa og burðarþol landsins hvað varðar ferðamenn og ferðaþjónustu, út frá ýmsum mælikvörðum á borð við innviði, hámark æskilegs hlutfalls af landsframleiðslu, upplifun ferðamannanna sjálfra og fleira. Nákvæmlega þetta verkefni er einmitt hafið á vegum Stjórnstöðvar ferðamála, þannig að hvatning Lanskys rímar vel við áherslur og verkefni stjórnvalda.
Ófullkomin samlíking við skemmtigarð
Ég leyfi mér hér með að gera dálitla athugasemd við samanburð Lanskys á Reykjavík og Disneyworld, sem er gamalkunnugt og vinsælt stef sem skýtur reglulega upp kollinum. Með tilvísuninni vakna hughrif um ægilegan mannfjölda og þrengsli. En Lansky mælir þetta sem hlutfall ferðamanna (á tilteknum degi) á móti heimamönnum, og bendir á að þetta hlutfall sé hærra í Reykjavík en í Disneyworld (þar sem starfsmenn garðsins eru skilgreindir sem „heimamenn“). En hlutfallið eitt og sér segir nákvæmlega ekkert um mannmergðina eða þrengslin. Ef tíu manna gönguhópur á leið um hundrað hektara jörð þar sem einn maður býr myndum við ekki segja að sú jörð hafi breyst í skemmtigarð af því að hlutfallið sé tíu á móti einum. Hlutfall Lanskys er vissulega áhugavert og mikilvægt, einkum með hliðsjón af samfélagslegum þolmörkum okkar sjálfra. En það segir bara lítinn hluta sögunnar og horfa þarf á fleiri þætti til að meta „Disney-væðingu“. Mannmergðin í miðbæ Reykjavíkur kemst ekki nema á örfáum hátíðisdögum í námunda við klisjuna alræmdu um þéttsetinn skemmtigarð.
Tímastýring lykilatriði
Ég er sammála því mati Lanskys að fremur langsótt er að ferðamenn komi til landsins án þess að vilja heimsækja vinsælustu staðina hverju sinni, þó að með eflingu fluggátta á landsbyggðinni megi vissulega sækja ferðamenn sem mögulega heimsækja eingöngu þá landshluta. Hitt er annað mál að með betri stýringu á flæði gesta yfir tíma dags má auka afkastagetu vinsælla svæða án þess að spilla upplifun ferðamanna. Á þetta hefur að sjálfsögðu oft verið bent en það er skiljanlegt að við höfum verið treg til að innleiða aðgangsstýringu á svæðum sem við erum vön að geta valsað um að vild og lítum á það sem sjálfsagðan og jafnvel helgan rétt. Vægari nálgun gæti falist í að gefa upplýsingar í rauntíma um álag á helstu stöðum, þannig að ferðafólk geti af sjálfsdáðum skipulagt ferðir sínar út frá því. (GoogleMaps gefur raunar vísi að þessum upplýsingum nú þegar með súluriti sem sýnir dæmigert álag áfangastaða brotið niður á klukkustundir sólarhringsins.) Sú spurning er einnig eðlileg hvort í einhverjum tilvikum mætti beita tímastýringu gagnvart skipulögðum hópferðum en undanskilja einstaklinga sem ferðast á eigin vegum.
Milliliðirnir
Hlutfall þjónustu sem ferðaþjónustufyrirtækin selja sjálf beint til viðskiptavina sinna lækkar óðum. Nokkrir stórir milliliðir hafa tekið yfir að verulegu leyti. Að sumu leyti eykur það og auðveldar aðgang seljenda að stórum hópi kaupenda og dregur um leið úr þörf fyrir dýrar auglýsingar og markaðsstarf. Tæknibyltingin hefur að því leyti haft jákvæð áhrif. Góðar umsagnir á bókunarvef eru dýrmætari en milljónaauglýsingar. En Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, benti á það í erindi sínu á fundinum að þóknun milliliðanna væri í einhverjum tilvikum orðin það há að hún fæli í sér verulega áskorun fyrir greinina og gæti raunar ekki staðist til lengdar. Mögulega eru hér í uppsiglingu átök á markaði sem gætu haft töluverða þýðingu.
Það er einkum á markaði fyrir gistiþjónustu sem horft hefur verið til stjórnvalda vegna umfangs milliliða á borð við Airbnb. Og það með réttu, enda er það okkar hlutverk að skilgreina landamæri á milli deilihagkerfisins og atvinnustarfsemi, setja sanngjarnar leikreglur og fylgja þeim eftir. Það er hlutverk sem við tökum alvarlega.