Fyrir nokkrum dögum kynnti ríkisstjórnin vefinn Tekjusagan.is, sem er ítarlegasta og aðgengilegasta lífskjaragreining sem gerð hefur verið hér á landi og þó víðar væri leitað.
Ýmsu er haldið fram í umræðum um lífskjör tiltekinna hópa. Þá er of oft einblínt á afmarkaða þætti fremur en heildarmyndina. Ráðstöfunartekjur eru fremur flókið samspil skatta, tekna, lífeyrisgreiðslna og bóta. Tekjusagan.is gerir það auðveldara en nokkru sinni áður að skoða niðurstöðu þessa samspils eftir aldri, tekjum, búsetu og fleiri þáttum og gefur því skýrari og aðgengilegri heildarmynd en áður hefur legið fyrir. Byggt er á gögnum úr skattframtölum allra framteljenda allt frá árinu 1991.
Verkefnið
Nú skulum við nota þetta nýja tæki til að skoða hvernig viðkvæmum hópum samfélagsins hefur reitt af undanfarin ár í samanburði við aðra. Þá liggur beint við að skoða tekjulága meðal yngra fólks og eldra fólks og bera saman við annars vegar hátekjufólk á sama aldri og hins vegar samfélagið allt.
Framteljendum er skipt í tíu jafnstóra hópa eftir tekjum. Við skulum skoða hópa 2 og 9 , þ.e.a.s. hópana með næstlægstar og næsthæstar tekjur, til að taka út fyrir sviga jaðartilvik sem eru líkleg til að skekkja hópa 1 og 10. Af þeim aldurshópum sem boðið er upp á veljum við 25-34 ára og eldri en 66 ára. Árleg breyting ráðstöfunartekna er reiknuð fyrir þrjú sjálfgefin tímabil: 1991-2007, 2007-2012 og 2012-2017. Tölur eru á föstu verðlagi þannig að hækkun ráðstöfunartekna er umfram verðlag, sem er þýðingarmikið að hafa í huga.
Ungt fólk: jöfnuður eykst
Hjá unga fólkinu er staðan sú að tekjuhópur 2 hefur notið hlutfallslega meiri kjarabóta en tekjuhópur 9 á undanförnum árum, þ.e. frá 2012-2017. Ráðstöfunartekjur hóps 2 hækkuðu þannig að meðaltali um 3,72% á ári á þessum tíma en hóps 9 um 2,44%. Tekið skal fram að sama mynd kemur upp þegar við skoðum hópa 1 og 10 og þar nýtur hópur 1 reyndar ennþá meiri kjarabóta eða 4,37% á ári.
Öll þekkjum við frasann um að hinir ríku verði ríkari og hinir fátæku fátækari. Hann á svo sannarlega ekki við hér. Tekjulágir hafa ekki bara notið kjarabóta heldur meiri kjarabóta en tekjuháir. Bilið á milli hópanna er að minnka og jöfnuður að aukast.
Það er athyglisvert að þessu var öfugt farið á árunum 1991-2007. Þá dró í sundur með hópum 2 og 9 og líka hópum 1 og 10. Hinir ríku urðu ríkari og hinir fátæku urðu vissulega líka aðeins ríkari en ekki hlutfallslega ríkari.
Tekið skal fram að við erum að skoða fólk sem er í hjónabandi eða sambúð, á 1-2 börn, hefur engar fjármagnstekjur og er fasteignaeigendur. Ef við setjum nú hóp 2 út á leigumarkaðinn kemur í ljós að hagur hans vænkaðist ennþá meira eða um 5,89% á ári.
Hópur 2 kemur líka ágætlega út í samanburði við samfélagið í heild, með örlítið meiri hækkun ráðstöfunartekna á tímabilinu. (Samanburðarhópurinn er allir tekjuhópar á aldrinum 25-64 ára, sem er víðasta aldursbilið sem boðið er upp á.)
Eldra fólk: meiri hækkun
Meðal 66 ára og eldri naut tekjuhópur 9 meiri kjarabóta en hópur 2, eða 6,28% á móti 5,78% á tímabilinu (2012-2017). Sú staðreynd bliknar þó í samanburði við það hve báðar tölurnar eru háar. Svo háar að þær kalla á nánari samanburð eldra fólks við aðra.
Ráðstöfunartekjur 66 ára og eldri (hjón eða sambúðarfólk, fasteignaeigendur, án fjármagnstekna) hækkuðu um að meðaltali 6,14% á tímabilinu. Sama tala fyrir fólk á aldrinum 25-34 ára með 1-2 börn er 2,73%, hjá 35-49 ára (1-2 börn) er hún 2,92% og hjá 50-65 ára (engin börn) er hún 4,22%.
Niðurstaðan er afgerandi. Kjör eldra fólks hafa á undanförnum árum almennt batnað töluvert meira en annarra. Þau hafa líka batnað töluvert meira en þau gerðu á árunum 1991-2007 þegar árleg hækkun var að meðaltali 2,01% samanborið við 6,14% nú.
Margt fleira er að finna á Tekjusögunni. Til að mynda er sérlega áhugavert að skoða tölur um hreyfanleika fólks á milli tekjuhópa, sem er töluvert mikill í okkar opna og lítt stéttaskipta samfélagi. Það endurspeglar að Ísland er land tækifæranna þar sem tækifæri fólks til að bæta sinn hag eru meiri en víðast þekkist.
Vefurinn er frábært framtak og gefur góðan grundvöll undir umræður um lífskjarabreytingar landsmanna og hvernig okkur miðar við að ná markmiðum okkar.