Ég er varla að segja neinar fréttir þegar ég byrja skrif mín í mínu reglulega plássi hér á Morgunblaðinu á að nefna að mikil umræða hefur átt sér stað um orkumál undanfarið. Umræðan sem hefur skapast endurspeglar áhuga almennings á orkumálum almennt. Sá áhugi er ánægjulegur og skiptir máli. Lesendur blaðsins kannast líklega við mína afstöðu þegar kemur að innleiðingu þriðju raforkutilskipunarinnar. Það er hins vegar mál sem hefur engin sérstök áhrif á íslenskan orkumarkað og að mínu mati óþarft að eyða mörgum mánuðum í umræðu um það. Ýmsir eru því augljóslega ósammála. Á mínum tíma sem ráðherra orkumála hef ég hins vegar lagt áherslu á önnur mikilvægari mál. Ég nefni hér nokkur.
Orkustefna
Fyrir ári hófst vinna við gerð heildstæðrar langtímaorkustefnu fyrir Ísland, með þátttöku allra þingflokka, og er ráðgert að sú stefnumótun líti dagsins ljós í byrjun næsta árs. Þetta verkefni er líklega það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir á sviði orkumála og auðlindanýtingar almennt. Orkumál eru þess eðlis að þau hafa fjölmarga snertifleti við grundvallarþætti samfélagsins. Það blasir við að orkumál eru nátengd byggðamálum, umhverfismálum, efnahagsmálum, nýsköpun, rannsóknum og almennri lífsgæðaþróun. Þannig hefur það verið undanfarna áratugi og mun áfram verða. Lykilatriði í langtímaorkustefnu verður þannig að ná fram jafnvægi milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Með orkustefnu gefst okkur einnig færi á að varða veginn þegar kemur að forræði Íslands yfir nýtingu og stjórnun orkuauðlinda landsins, sjálfsákvörðunarrétti varðandi mögulegar tengingar, virkri samkeppni í raforkusölu, eflingu neytendaverndar, auknu orkuöryggi, samspili orkumála og loftslagsmála, útflutningi á hugviti, orkurannsóknum og nýsköpun.
Jöfnun dreifikostnaðar
Undanfarin misseri hefur mér orðið tíðrætt um dreifikostnað raforku. Á síðasta Iðnþingi kom ég inn á það að einn stærsti gallinn við raforkumarkað okkar í dag er hinn mikli og sívaxandi munur á dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þetta er þýðingarmikið því að dreifikostnaðurinn er stærsti liðurinn á raforkureikningi hins almenna notanda. Hinn mikli munur á milli dreifbýlis og þéttbýlis er ekki ásættanlegur og gengur gegn viðurkenndum meginreglum okkar um þokkalega jafnt aðgengi að innviðum á borð við samgöngur, fjarskipti og fleira. Í þessu samhengi má rifja upp markmið raforkulaga, samanber 1. gr. þeirra. Þau snúa ekki bara að því að skapa forsendur fyrir samkeppni í viðskiptum með raforku, heldur ekki síður að „stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu“. Byggðasjónarmið eru því eitt af meginmarkmiðum raforkulaga. Staðan í dag er að mínu mati beinlínis í ósamræmi við markmið raforkulaga, sem og lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Þetta ójafnræði er einn alvarlegasti ágallinn á þeim raforkumarkaði sem við höfum sett hér upp. Tillögur um aðgerðir til að breyta þessu eru í vinnslu í ráðuneyti mínu.
Orkuöryggi
Raforkumarkaður á Íslandi skiptist í almennan markað og raforkusölu til stóriðju. Eins og mál hafa þróast hafa áhyggjur farið vaxandi af framboði á raforku fyrir almenna markaðinn og að í raforkulögum sé ekki kveðið á um hver eigi að tryggja orkuöryggi til almennra notenda. Til að bregðast við þessu er starfshópur á mínum vegum að greina hvernig hægt sé að tryggja orkuöryggi fyrir heimili og fyrirtæki. Fyrri áfanga þeirrar vinnu er lokið með greiningu frá Hagfræðistofnun en lokaskýrsla starfshópsins er væntanleg.
Vindorka
Vindorka er í dag orðin raunhæfur valkostur og hefur ýmsa eiginleika umfram vatnsorku og jarðvarma. Áhugi aðila er til staðar en áskoranir í vindorku felast í því að leyfisveitingarferill vegna vindorku er mun lengri hér en í nágrannalöndum okkar. Stærsti óvissuþátturinn er meðhöndlun vindorkukosta í Rammaáætlun. Að störfum er starfshópur sem falið var að fara yfir regluverk vindorku og koma fram með stefnumótun og breytingartillögur í átt til einföldunar og skýrleika.
Orkuskipti
Nýverið var kynnt átak í orkuskiptum í samgöngum með framlagi stjórnvalda upp á 450 m.kr., samhliða styrkingu Orkusjóðs. Í sömu viku var stofnaður samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir, þar sem undirstrikað er að sérstaða Íslands í loftslagsmálum er fólgin í að nær öll staðbundin orkuframleiðsla á landinu byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar höfum við sögu að segja og getum verið öðrum þjóðum hvatning.
Fleira má telja til sem unnið er að, eins og eigendastefna fyrir Landsvirkjun, færsla á eignarhaldi Landsnets til ríkisins, hröðun á þrífösun rafmagns og reglugerðarbreytingar til að efla samkeppni og neytendavernd á orkumarkaði.
Af þessari stuttu upptalningu má sjá að orkumál dagsins í dag snúast um margt fleira en þriðja orkupakkann. Orku okkar og tíma væri að mörgu leyti betur varið í að vinna með samstilltu átaki að framgangi þeirra brýnu verkefna sem bíða okkar á þessu sviði, landi og þjóð til heilla.