Ein bestu ráð sem foreldrum hafa verið gefin eru frá Goethe. Hann sagði að foreldrar ættu helst að stefna að því að gefa börnum sínum tvennt: rætur og vængi.
Að vissu leyti eru þetta andstæður. Ræturnar halda þér heima, binda þig við sama stað og halda þér í viðjum hins þekkta, hins vanalega og hefðbundna, þess sem þér hefur verið kennt, gildin sem þér hafa verið innrætt og reglurnar sem þér hefur verið gert að virða. Þær bjóða ekki upp á svigrúm heldur festu. Vængirnir færa þig aftur á móti á nýja staði og gefa þér frelsi til að fara út fyrir hið þekkta, fara þínar eigin leiðir og jafnvel segja skilið við það sem þér hefur verið kennt og innrætt.
Það er ábyggilega í gullnu jafnvægi þessara tveggja þátta sem hver einstaklingur verður farsælastur.
Markmiðið er einföldun
Þó að við kunnum öll að meta fjölskylduformið kunnum við ekki endilega við að þjóðfélaginu sé líkt við fjölskyldu. Það kallar fram í hugann lítt eftirsóknarvert ástand þar sem einstaklingurinn er ófrjáls og ósjálfbjarga; ástand sem hefur verið vel lýst með þekktum hugtökum á borð við „stóra bróður“ og „nanny state“.
En það er ekkert slíkt sem ég hef í huga þegar ég leyfi mér að heimfæra orð Goethes um foreldra upp á samfélagið og segja að leikreglur samfélagsins hljóta að miða að gullnu jafnvægi þess að gefa okkur einstaklingunum bæði rætur og vængi. Setja okkur ramma án þess að íþyngja okkur um of.
Fyrsta hugsun hægrimanna er ekki hvaða nýju íþyngjandi reglum er hægt að bæta við til að bæta samfélagið heldur hvort unnt sé að auka einstaklings- og athafnafrelsi með því að einfalda hlutina.
Á varðbergi
Það þýðir auðvitað ekki að nýjar reglur eigi aldrei rétt á sér. Samfélagið tekur sífelldum og sífellt hraðari breytingum sem oft er nauðsynlegt að bregðast við og endurspegla í leikreglunum. En við eigum að vera mjög á varðbergi gagnvart því að of langt sé gengið í þeim efnum.
Það er líka viðbúið og eðlilegt að sumt regluverk sé langt og ítarlegt. Við stærum okkur þannig réttilega af besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims en viðmið okkar í þeim efnum er ekki að regluverkið sé svo fáar blaðsíður. Það er raunar býsna margar blaðsíður, en það virkar.
Það er því ekki algild regla að allar reglur séu því betri því einfaldari sem þær eru, en sem meginregla er hún skynsamlegt leiðarljós. Einföldun innan marka hins raunhæfa og skynsamlega. Í ráðuneyti mínu er unnið markvisst að því að rýna hvaða reglur megi einfalda. Þar er verkefnið að taka fyrir hverju einustu eftirlitsreglu sem undir ráðuneytið heyrir og athuga hvernig er hægt að einfalda hana í þágu atvinnulífsins. Þá höfum við fengið OECD í lið með okkur í ítarlega greiningu á regluverki mikilvægra geira á borð við ferðaþjónustu og byggingariðnaðinn með aukna skilvirkni og samkeppnishæfni að leiðarljósi.
Við verðum einnig að hafa alltaf á bak við eyrað hver eigi í raun að bera ábyrgðina þegar fyrirtæki brjóta reglur. Ég tel að í slíkum tilvikum sé of mikil tilhneiging til að kalla sífellt eftir auknu eftirliti hins opinbera. Í stað þess að það bíti þá sem brjóta má ekki gleymast að það eru alltaf þeir sem síst skyldi sem eru látnir greiða fyrir aukinn kostnað á opinberu eftirliti vegna þess að fáir brjóta reglur. Það er hvorki sanngjarnt né skynsamlegt.
Hversu víðtækt eftirlit?
Það er síðan sjálfstæð en líka mjög áhugaverð spurning hversu langt við erum tilbúin að ganga til að tryggja að reglum sé fylgt. Nýlega var birt skoðanakönnun sem sýndi að mikill meirihluti landsmanna vill fjölga eftirlitsmyndavélum. Mörgum þykja slíkar myndavélar minna á „stóra bróður“ en vissulega veita þær mörgum öryggistilfinningu, fækka mögulega glæpum og geta augljóslega gegnt lykilhlutverki við að upplýsa þá.
Með nútímatækni eru lítil takmörk fyrir því hversu víðtæku eftirliti er hægt að koma á. Í því felast að sjálfsögðu álitamál um grundvallargildi. Breytingarnar eru hraðar og það er tímabært að ræða af meiri alvöru hvaða skorður við séum tilbúin að setja frelsinu – þar með talið persónufrelsi og friðhelgi einkalífs – í þágu allsherjarreglu.
Kröfurnar um flóknari reglur og aukið eftirlit koma iðulega upp þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis einhvers staðar. Það er engin ástæða til að amast við því og ósköp eðlilegt að spurt sé hvort möguleiki sé á úrbótum. Þannig verða framfarir. Við eigum hins vegar öll að temja okkur að meta þessar kröfur með yfirveguðum hætti og skoða þær með gagnrýnum augum. Fyrsta spurningin á að vera hvort ávinningurinn sé örugglega meiri en tilkostnaðurinn. Ef við spyrjum aldrei þeirrar spurningar – sem of oft vill gleymast í hita leiksins – köllum við yfir okkur minni samkeppnishæfni, minni framleiðni og lakari lífskjör.