Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Við upplifum það nú öll að vika er enn lengri tími í skæðum faraldri. Maður lætur segja sér það tvisvar að aðeins séu þrjár vikur frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi. Á ensku er þessu víða fleygt þessa dagana: „What a year this week has been.“ Eða: „Þessi vika var nú meira árið.“ Og staðan breytist hratt dag frá degi.
Hugur okkar er hjá þeim sem hafa veikst og aðstandendum þeirra; þeim sem hafa þurft að sæta einangrun eða sóttkví; þeim sem hafa orðið fyrir tekjumissi; þeim sem upplifa ótta; þeim sem búa við aðskilnað frá sínum nánustu; og þeim þjóðhetjum öllum sem leiða baráttuna gegn faraldrinum á vettvangi heilbrigðisþjónustu og almannavarna.
Óvissan framundan
Því miður er ljóst að komandi vikur og mánuðir fela í sér enn meiri áskorun. Því er nú spáð að hér á Íslandi geti faraldurinn mögulega náð hámarki um miðjan apríl en staðan breytist hratt og sífellt er verið að endurmeta spárnar. Mögulega tekur þetta lengri tíma.
Nýleg grein í tímaritinu MIT Technology Review lýsir nálgun sem teiknuð hefur verið upp af Imperial College London. Hún gengur út á að beita víðtækum lokunum og samskiptatakmörkunum sem yrðu settar á og teknar af á víxl, nokkrar vikur í senn, eftir því hvernig innlagnir á gjörgæslu þróast.
Hermilíkanið sem þarna var beitt benti til að með þessum hætti tæki meira en ár að ráða niðurlögum vandans í Bretlandi. Nú kann vel að vera að þetta spámódel sé ekki fullkomið og mögulega á það ekki heldur við á Íslandi. En dæmið sýnir að töluverð óvissa ríkir um framvinduna næstu vikur og mánuði. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því.
Markviss skref
Viðbrögð þjóða heims hafa verið ólík. Sums staðar var gert lítið úr vandanum þar til allt í einu var kúvent skyndilega. Ég tel að hér á landi hafi verið haldið vel á málum. Gagnvart ógn sem þessari er skiljanlegt að óþreyja geti gripið um sig í samfélaginu og kröfur vaknað um harkalegri aðgerðir en sérfræðingar telja skynsamlegar. Við höfum farið þá leið að treysta þeim sem mesta þekkingu hafa. Á þeim grundvelli voru stigin markviss skref sem hafa skilað árangri. Við skulum þó öll gera okkur grein fyrir að ekki verður glímt við áskorun af þessari stærðargráðu án þess að einhverjar ákvarðanir orki tvímælis.
Yfirveguð skilaboð
Orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu, kvað Einar Benediktsson. Því miður er líka til rökstuðningur á internetinu um næstum allt sem er hugsað á jörðu! Það virðist vera hægt að velja sér nánast hvaða kenningu sem er og finna einhvern sem fært hefur rök fyrir henni. Þetta felur auðvitað í sér töluverða áskorun fyrir vitræna umræðu, til viðbótar við þá áskorun sem felst í því að jafnvel fremstu sérfræðingar eru ekki alltaf á einu máli um hvernig tækla beri flókin viðfangsefni. Greitt aðgengi að öllum heimsins upplýsingum og sjónarmiðum skapar frjóan jarðveg fyrir lífleg skoðanaskipti og jafnvel deilur.
Það liggur fyrir að „við erum öll almannavarnir“. En ekki nóg með það: Við erum líka öll sérfræðingar!
Það er því mikil gæfa að þau sem hafa staðið í framlínu upplýsingagjafar til þjóðarinnar á þessum tímum hafa gert það með einstaklega faglegum, yfirveguðum og trúverðugum hætti. Þau hafa slegið þann tón sem svo erfitt getur verið að hitta á, þar sem alvarleika málsins er komið mjög skýrt til skila á þann hátt að það valdi sem minnstu óþarfa uppnámi.
Komið til móts við einstaklinga og fyrirtæki
Þó að líf og heilsa séu í algjörum forgangi þurfum við á sama tíma að huga að hinum gríðarlegu efnahagslegu afleiðingum þess að samfélagið allt, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, hefur stigið fast og snögglega á bremsuna og nánast stöðvast.
Ljóst er að stjórnvöld þurfa hér að grípa til afgerandi ráðstafana til að létta undir með einstaklingum og fyrirtækjum.
Til viðbótar við mikla röskun í atvinnulífinu almennt erum við sem þjóð auðvitað sérstaklega viðkvæm fyrir áföllum í ferðaþjónustu og samdrætti í milliríkjaverslun.
En við stöndum sem betur fer vel að vígi efnahagslega og höfum burði til að milda þetta áfall mjög verulega, líklega meira en flestar aðrar þjóðir.
Ef sagan kennir okkur eitthvað er það að við kunnum að takast á við áföll og krefjandi tíma.
Samstaðan í samfélaginu undanfarna daga er áþreifanleg og hún er okkur öllum hvatning til að gefa allt í verkefnið.