Í ræðu minni á Iðnþingi fyrir tveimur árum velti ég upp þeirri spurningu hvort við lifðum mögulega svipaða tíma og Stefan Zweig lýsir svo vel í bók sinni „Veröld sem var“, þar sem hann fjallar um Evrópu um aldamótin 1900 og bjartsýnina sem þá ríkti um frið og óstöðvandi framfarir.
Gullöld öryggisins
Þetta var „gullöld“ öryggisins, segir Zweig. „Menn trúðu á framfarirnar meira en sjálfa biblíuna, og furðuverk vísinda og tækni virtust dag hvern vitna um þennan fagnaðarboðskap.“ „Á götunum brunnu rafljós alla nóttina í staðinn fyrir gömlu týrurnar.“ „Nú var hægt að talast við í síma milli fjarlægra staða eða þjóta í vélknúnum vögnum … og maðurinn hóf sig til flugs.“
„Ár frá ári voru þegnunum veitt aukin réttindi.“ „Jafnvel sjálft höfuðvandamálið, fátækt alþýðunnar, virtist ekki lengur óleysanlegt.“ „Sannfæringin um samfelldar, viðstöðulausar framfarir“ var allsráðandi. „Enginn gerði ráð fyrir stríði né byltingu. Ofbeldi og öfgar virtust óhugsandi á þessari öld skynseminnar.“
Ég nefndi í ræðunni að þessi lýsing félli vel að samtíma okkar. Við tryðum því ábyggilega flest að stríð, kúgun og kreppur væru tímabundnar truflanir í stóru myndinni, hinni samfelldu framfarasögu mannkynsins. Við tryðum því að framtíðin yrði betri en dagurinn í dag. Að hvert ár, og hver kynslóð, myndi færa okkur aukinn skilning á mannréttindum, aukið jafnrétti og bætt lífskjör.
En ég bætti við að sú spurning vaknaði við lesturinn hvort að um okkar samtíma yrði kannski skrifuð önnur bók um ofurbjartsýni í aðdraganda ófremdarástands, önnur „Veröld sem var“: „Er kannski eitthvað við sjóndeildarhringinn sem ógnar grundvelli okkar og góðri stöðu? Ekki endilega stríð heldur allt eins einhver umhverfisógn á borð við breytt loftslag, eða efnahagsáföll af einhverjum toga, eða að tækniframfarir verði okkur ekki til heilla heldur umturni samfélagi okkar til verri vegar.“
Það sem áður var óhugsandi
Segja má að þessar vangaveltur hafi ræst að einhverju leyti. Við stöndum óvænt frammi fyrir einhverju mesta efnahagsáfalli sögu okkar, sem meðal annars felur í sér að langstærsta útflutningsgrein okkar hefur ekki aðeins orðið fyrir höggi heldur beinlínis stöðvast. Það sem var áður óhugsandi – víðtækar lokanir verslana og þjónustu, hanskar og spritt hvert sem litið er, engin handabönd og engin faðmlög, tilkynningar í kallkerfum matvöruverslana um að „virða tveggja metra regluna“ sem eru eins og klipptar út úr ógnvænlegri framtíðarsýn sjónvarpsþáttanna The Handmaid‘s Tale – allt þetta varð næstum því sjálfsagt á undraskömmum tíma. Nýr og framandi veruleiki helltist yfir okkur.
Ekki er hægt að fullyrða um langtímaáhrifin enn þá en heimurinn er þó að einhverju leyti breyttur.
Sóknarhugur
Sem betur fer hafa þessar hamfarir ekki dregið það versta fram í okkur heldur miklu fremur það besta. Mér finnst við hafa hlýtt ráðum Kristjáns frá Djúpalæk í ljóði sem vinkona mín Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir deildi nýverið í minningu móður sinnar, en það fjallar um það hvernig unnt er að mæta áföllum og mótlæti. Það hefst svona:
Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Mér finnst almenningur og stjórnvöld vera samstíga í hugarfari sóknar. Staðan felur í sér tækifæri sem ber að nýta. Kröftugar sóknaraðgerðir hafa þegar verið ákveðnar í þágu nýsköpunar og ferðaþjónustu, svo að ég nefni tvö af þeim málefnasviðum sem undir mig heyra.
Dæmi um tækifæri
Ein breyting sem margir telja að verði varanleg er að fyrirtæki leyfi starfsfólki sínu í auknum mæli að vinna utan skrifstofunnar. Google og Facebook hafa þegar gefið út að starfsfólk megi vinna heiman frá sér út þetta ár. Twitter gekk enn lengra og setti engin tímamörk á hið nýja fyrirkomulag, sem virðist því vera orðið varanlegt.
Ég tel augljóst að hér sé að skapast áhugavert tækifæri fyrir Ísland. Að búa á Íslandi er að mínu mati lottóvinningur, og fyrir sérfræðinga í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum getum við boðið upp á mikil lífsgæði. Frábært heilbrigðiskerfi, ótrúlega náttúru, virkt menningarlíf, gott, aðgengilegt og gjaldfrjálst skólakerfi, frið og jöfnuð. Á sama tíma hefur íslenskt samfélag almennt, og nýsköpunarumhverfið sérstaklega, mjög gott af því að fleiri erlendir sérfræðingar með sína reynslu, tengingar og þekkingu komi og starfi héðan. Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll. Vinna sem hefur það að markmiði er hafin.