Einstök tækifæri í orkumálum

Grænar orkulindir eru ein dýrmætasta náttúruauðlind okkar Íslendinga. Þær hafa fært okkur ómældan ávinning, sparað okkur stjarnfræðileg eldsneytiskaup til húshitunar, skapað dýrmæt störf og útflutningstekjur, hlíft andrúmslofti jarðar við gróðurhúsalofttegundum, skapað forsendur fyrir þróun hugvits og þekkingar á heimsmælikvarða og sett Ísland í fremstu röð þjóða heims hvað varðar sjálfbæra orkunotkun.

Forysta okkar er ekki sjálfgefin

Aðrar þjóðir eru nú á fleygiferð í átt til sjálfbærrar orkunýtingar. Endurnýjanlegir orkugjafar á borð við vind- og sólarorku eru sífellt að verða ódýrari. Áhugi á möguleikum græns vetnis og rafeldsneytis fer líka hratt vaxandi og víða er mikill þungi í þeirri þróun. Þetta er fagnaðarefni frá sjónarhóli loftslagsmála en minnir okkur líka á að sterk staða okkar í alþjóðlegum samanburði er ekki sjálfgefið náttúrulögmál.

Samfélagið virkar ekki án orku. En orkan virkar ekki án samfélagsins. Við höfum verk að vinna til að tryggja að við verðum áfram í fremstu röð. Að við getum nýtt tækifærin til að skapa bæði sjálfum okkur og umhverfinu dýrmætan ávinning.

Árangur kjörtímabilsins

Margt hefur áunnist í orkumálum á kjörtímabilinu. Hálfum milljarði var varið í að flýta jarðstrengjavæðingu til að auka afhendingaröryggi í kjölfar vonskuveðurs sem

afhjúpaði ýmsa veikleika. Samþykkt hefur verið að setja aukið fé í jöfnun dreifikostnaðar raforku um landið, þannig að hann verði að fullu jafnaður frá og með næsta hausti. Stórar ívilnanir frá opinberum gjöldum hafa, ásamt innviðauppbyggingu, greitt götu rafbílavæðingarinnar sem er á fleygiferð. Þriggja ára átak til að flýta þrífösun rafmagns á völdum dreifbýlissvæðum hélt áfram. Frumvarp um einföldun regluverks fyrir raflínuframkvæmdir er komið fram. Verið er að reka smiðshöggið á regluverk um vindorku sem væntanlega kemur fram á næstunni. Ákvörðun var tekin um að leggja nýjan gagnastreng sem bætir skilyrði fyrir uppbyggingu gagnavera. Leiðir hafa verið teiknaðar upp til að tryggja betur raforkuframboð inn á almennan markað. Þannig mætti áfram telja.

Rammaáætlun er auðvitað fíllinn í herberginu. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að það ferli þurfi að endurskoða og einfalda til að það geti þjónað tilgangi sínum.

Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti 2050

Af árangri í orkumálum á kjörtímabilinu ber þó hæst að langtímaorkustefna fyrir Ísland var samþykkt í þverpólitísku samstarfi. Það hefur aldrei áður verið gert.

Orkustefnan felur m.a. í sér tímamóta-framtíðarsýn um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 sem er risastórt hagsmunamál, bæði umhverfislega en ekki síður efnahagslega. Mér vitanlega er Svíþjóð eina landið sem hefur sett fram sambærilegt markmið. Þetta er því markmið á heimsmælikvarða og nú veltur það á okkur að fylgja því eftir. Við eigum raunhæfa möguleika á að verða algjörlega orkusjálfstæð, sem væri stórkostlegt bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti.

Hitaveituvæðingin var eins konar „tunglskot“ okkar Íslendinga á sínum tíma; gríðarlega metnaðarfullt verkefni sem tók nokkra áratugi að framkvæma. Framtíðarsýnin um að verða óháð jarðefnaeldsneyti er okkar næsta tunglskot í orkumálum.

Umræðan framundan

Orkustefnan verður fljótlega til umræðu á Alþingi. Við þá umræðu mun ég jafnframt leggja fram til kynningar aðgerðaáætlun mína sem markar fyrstu skrefin í að ná markmiðum orkustefnunnar. Við höfum unnið að áætluninni undanfarnar vikur og hún felur í sér tugi aðgerða sem allar hafa skýra og beina tengingu við texta orkustefnunnar.

Það verður meira kastljós á orkumálin næstu daga. Fyrir utan umræður á Alþingi um orkustefnu og aðgerðaáætlun hennar má nefna umræðu í þinginu á fimmtudag um stöðu stóriðju, fund Landsvirkjunar á miðvikudaginn um ný tækifæri í orkumálum og fund Samorku í byrjun næsta mánaðar um græna endurreisn.

Þó að nýting grænna orkuauðlinda Íslands feli í sér mörg erfið deiluefni er líka margt sem við getum sameinast um. Við höfum á kjörtímabilinu lagt mikla áherslu á að ná árangri á þeim sviðum – eins og ég fór yfir hér að framan – í stað þess að einblína á skotgrafirnar og sitja föst þar á meðan önnur framfaramál sitja á hakanum. Ég bind vonir við að umræðan næstu daga muni draga fram enn fleiri markmið og verkefni í orkumálum sem við getum sameinast um.