Eitt stærsta ímyndartækifæri Íslands á næstu árum er að taka afgerandi forystu í loftslagsmálum með orkuskiptum og verða þannig óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða. Það snýst þó ekki bara um ímynd heldur felur í sér ómældan ávinning fyrir umhverfið og getur skapað mikil efnahagsleg verðmæti, auk þess sem það varðar þjóðaröryggi að við séum ekki háð innfluttum orkugjöfum. Ljóst er að til að þetta verði að veruleika þarf aukna orkuframleiðslu.
Markmið okkar um forystuhlutverk
Yfirlýst markmið nýrrar og þverpólitískrar orkustefnu er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2050. Metnaður okkar ætti þó ekki aðeins að lúta að ártalinu, því að landslagið í þessum efnum breytist hratt. Metnaður okkar ætti að standa til þess að ná markinu á undan öðrum.
Við erum ekki ein um þetta markmið. Aðrar þjóðir myndu gjarnan vilja verða á undan okkur. Flest ef ekki öll lönd sem við viljum bera okkur saman við leggja nú sífellt meiri áherslu á vistvæn orkuskipti. En staðreyndin er að þessi lönd myndu gjarnan vilja standa í okkar sporum. Staða okkar er öfundsverð vegna þess hve langt við erum komin á veg, í krafti endurnýjanlegra auðlinda Íslands.
Sterk staða okkar í dag er ekki síst að að þakka risaátakinu sem fólst í hitaveituvæðingunni á sínum tíma. Hún var sannkallað grettistak, jafnvel tvö eða þrjú. Út frá tölunum virðist vera óhætt að fullyrða að þetta grettistak hafi kostað okkur töluvert meira, sem hlutfall af landsframleiðslu, en það kostaði Bandaríkjamenn að senda menn til tunglsins.
Nýjar lausnir sem falla að okkar styrk
Orkuskipti á hafi og í flugi eru einn stærsti þröskuldurinn á vegferð okkar til að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Á þeim vettvangi er þó mikil þróun og gerjun og ýmsar lausnir að koma fram sem þykja álitlegri nánast með hverjum deginum.
Áhugi á vetni sem álitlegum valkosti við jarðefnaeldsneyti fer nú mjög hratt vaxandi erlendis. Vetni má framleiða með ýmsu móti en vetnisframleiðsla með raforku kallar á mikla raforku og því eygja íslensk orkufyrirtæki verðmæt tækifæri á þessu sviði. Það eru tækifæri sem við eigum að reyna að grípa.
Vetnið er ýmist notað hreint eða sem rafeldsneyti blandað kolefni. Framleiðsla á báðum þessum orkugjöfum kemur vel til greina á Íslandi. Að sjálfsögðu er umhverfislegur ávinningur af síðari kostinum einkum háður því að um sé að ræða föngun og endurvinnslu á kolefni sem losnar í annarri framleiðslu.
Slík verkefni eru nú þegar í undirbúningi; til dæmis undirritaði ég í fyrra samning ráðuneytis míns við Þróunarfélag Grundartanga um rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að framleiðslu á kolefnishlutlausu vistvænu rafeldsneyti. Íslensk orkufyrirtæki eru líka að beina sjónum sínum að orkusölu til vetnisframleiðslu, eins og til að mynda kom fram á nýlegum opnum fundi á vegum Landsvirkjunar. Þá má nefna að Þjóðverjar hafa lýst yfir áhuga á samstarfi við okkur Íslendinga um vetnismál, sem við höfum tekið jákvætt í.
Leggjum „grænan dregil“
Fjárfesting, meðal annars og ekki síst erlend fjárfesting, er lykillinn að því að skapa ný verðmæti, ný störf víðsvegar um landið, nýjar tekjur og nýjar umhverfisvænar lausnir. Alþjóðleg samkeppni um slíkar fjárfestingar er hörð.
Ég lagði fyrir nokkrum vikum til í ríkisstjórn að stofnað yrði til samstarfs míns ráðuneytis og Íslandsstofu um að greiða enn frekar götu grænna fjárfestinga. Það var samþykkt og undirbúningur að samstarfinu er nú á lokastigi.
Markmiðið er að þjóna enn betur en áður þeim aðilum sem eru að skoða ný tækifæri til uppbyggingar. Ferli slíkra verkefna þarf að vera eins einfalt og kostur er, án þess að slegið sé á neinn hátt af kröfum um faglega meðferð. Eitt af því sem verður skoðað sérstaklega eru tækifæri okkar til að byggja upp alþjóðlega samkeppnishæfa græna iðngarða.
Oft er talað um að leggja „rauðan dregil“ fyrir góða gesti. Við viljum leggja „grænan dregil“ fyrir fjárfestingar sem falla að markmiðum okkar um sjálfbærni.
Aðgerðaáætlun orkustefnu liggur fyrir
Með aukinni áherslu á orkuskipti, innlenda eldsneytisframleiðslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku sláum við margar flugur í einu höggi: styrkjum ímynd Íslands, drögum úr loftslagsáhrifum, aukum orkuöryggi og þar með þjóðaröryggi, spörum gjaldeyri, aukum útflutning og sköpum dýrmæt störf og tekjur.
Aðgerðaáætlun orkustefnu, sem ég kynnti fyrr í þessari viku og lagði fram á Alþingi til umræðu, miðar meðal annars að þessu. Ég vona að með umræðu um hana skapist breið sátt um að nýta þessi tækifæri.