Virðulegi forseti. Frjáls og lýðræðisleg samfélög er ekki öllum að skapi. Nýlegar afhjúpanir sýna að ævintýralegum fjárhæðum er varið í að ýta undir sundrung og skautun á Vesturlöndum með því að hygla sem öfgafyllstu sjónarmiðum. Þau öfl sem vinni að því ömurlega markmiði að grafa undan lýðræði og frelsi og okkar samfélagsgerð beita ekki fyrir sig rökum eða sannfæringarkrafti. Tilgangurinn er einfaldlega að fólk finni til ótta, vonleysis, kvíða um hvað framtíðin ber í skauti sér og helst af öllu að fólk finni fyrir reiði.
Eflaust er þetta ekkert nýtt en sú breyting er orðin á samfélaginu að fólk eyðir meiri hluta vökutíma í beinni tengingu við einhvers konar mötun á efni sem ætlað er að halda fólki í sífelldri spennu. Og við þurfum sem samfélag að gæta að okkur.
Stjórnmálin taka breytingum eftir því sem viðfangsefni samfélagsins þróast og það er mikilvægt að stjórnmálin festist ekki í hjólförum gamalla deilumála meðan önnur miklu brýnni úrlausnarefni komast ekki á dagskrá.
Ég nefni þetta í samhengi við andlega líðan og geðheilsu, sem óyggjandi vísbendingar eru um að fari hrakandi, sérstaklega meðal ungs fólks, m.a. vegna þess að á örfáum árum hefur orðið grundvallarbreyting á því hvernig við, sítengdar manneskjur í velmegunarríkjum Vesturlanda upplifum raunveruleikann.
Einhver kynni að spyrja: Er pólitík að tala um þetta? Ja, ef mönnum er annt um frelsið þá er það pólitík að tala um þetta. Frjáls og lýðræðisleg samfélög eru ekki öllum að skapi og vopnið, sem helst er beitt gegn þessari samfélagsskipan, er að ala á sundrungu, tortryggni og óhamingju þannig að þetta er kannski bara mikilvægasta pólitík samtímans.
Við sem erum hér inni í þessum sal kölluðum eftir lýðræðislegu umboði til að bera ábyrgð á því hvernig samfélagið þróast. Þessi ábyrgð nær út fyrir það formlega vald sem fylgir því að sitja á þingi eða í ríkisstjórn. Það hvernig við tölum við hvert annað, tölum um hvert annað og hvernig við nálgumst verkefnin skiptir líka máli og er ekki bara spurning um áferð. Við berum öll ábyrgð á því að standa vörð um mannvænlegt, skilningsríkt og lýðræðislega sterkt samfélag á Íslandi. Verkefni okkar er að leysa úr viðfangsefnunum, en það er léleg pólitík að magna upp vandamálin til að ýta undir sundurlyndi sjálfum sér til framdráttar. Það er léleg pólitík.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur náð miklu fram. Það skiptir máli að við höfum í tíð núverandi ríkisstjórnar gert byltingu í umhverfi nýsköpunar. Fagleg fjárfesting í hugvitsdrifnum sprotafyrirtækjum er nú meðal þess mesta sem gerist í heiminum. Það skiptir máli að Ísland hefur tekið stökk fram á við í stafrænni væðingu stjórnsýslunnar og flogið upp samanburðarlista. Það skiptir máli að hafa lækkað skatta um 90 milljarða síðastliðinn áratug. Það skiptir máli að hafa komið böndum á of mikla fjölgun hælisleitenda, en um leið skapað hér samfélag og hagkerfi þar sem tugir þúsunda útlendinga leggja sitt af mörkum. Og Ísland gæti ekki án þeirra verið. Á Íslandi hefur orðið 15% íbúafjölgun frá árinu 2017. Það er ekkert land á Vesturlöndum sem er að vaxa eins og við og já, því fylgja vaxtaverkir.
Virðulegi forseti. Víða um álfuna glíma þjóðir við verðbólgu og vexti og því erum við engin undantekning. Ýmsar grannþjóðir okkar glíma reyndar líka við atvinnuleysi og lítinn eða engan hagvöxt. Þar höfum við allt aðra og mun betri sögu að segja. Þetta samhengi skiptir máli. Meginverkefni þeirra sem bera ábyrgð á hagstjórninni er að sjálfsögðu að vera samtaka og vinna örugglega að því að verðbólgan minnki og vextir lækki. Það er augljóslega stóra hagsmunamál heimila og fyrirtækja.
Virðulegi forseti. Forgangsröðun skiptir máli. Það þarf að einfalda, bæta og hagræða í rekstri ríkisstofnana. Það þarf að sameina stofnanir með það að markmiði að bjóða upp á betri þjónustu með lægri tilkostnaði. Það þarf ekki að reka 160 stofnanir í okkar fámenna landi. Það þarf að klára sölu á Íslandsbanka með almennu útboði. Það þarf að selja fasteignir og þróunarreiti í eigu ríkisins sem hafa enga menningarlega skírskotun og lækka skuldir. Það þarf að einfalda regluverk, stafvæða ferla og einfalda málsmeðferð. Allt eru þetta úrlausnarefni.
Þegar allt kemur til alls, virðulegur forseti, þá búum við í sterku og hlýju samfélagi. Úrlausnarefnin eru mörg og við höfum alla burði til að leysa þau. Ég vil trúa því að fólk kunni að meta vönduð og markviss viðbrögð við flóknum úrlausnarefnum. Við verðum að sýna það í verki að við stöndum undir þessari ábyrgð og að við tökum ábyrgðina raunverulega alvarlega.