Síðasta vor hittust leiðtogar flestra Evrópuríkja á ströndinni í Normandí. Það var til þess að minnast þess að áttatíu ár voru liðin frá því gagnsókn bandamanna inn í Evrópu hófst 6. júní 1944. Við Íslendingar héldum upp á það ellefu dögum síðar að þá voru einmitt liðin áttatíu ár frá því að við urðum lýðveldi og ótengd erlendri krúnu. Og nú í byrjun janúar hittust fjölmargir leiðtogar Evrópu í Póllandi til þess að minnast þess að áttatíu ár voru liðin frá því sovéskir hermenn frelsuðu sjö þúsund sem enn héldu lífinu eftir dvölin á alræmdustu í útrýmingarbúðum nasista. Það var 27. janúar.
Áttatíu ár er um það bil ein mannsævi fyrir þau sem njóta þess láns að lifa fulla ævi. Mig grunar á sá tími virðist töluvert lengri í augum mínum núna en mér mun finnast hann eftir tæpa hálfa öld. En hvort sem hann er langur eða stuttur er afstætt; en það er þó svo að áttatíu ár sem spanna heila ævi manneskju er stuttur sprettur í mannkynssögunni og örskot í jarðsögunni.
Á þessum tíma hefur okkur Íslendingum tekist að hlúa vel að okkar samfélagi, opna það fyrir alþjóðlegum straumum, stefnum og tækifærum – og við höfum valið að miða velsæld okkar aðeins við það besta sem gerist á jarðarkringlunni – og sættum okkur helst ekki við annað en að vera í verðlaunasæti. Við höfum getað leyft okkur að miða alþjóðlegar áherslur okkar fyrst og fremst út frá viðskiptahagsmunum. Það er til marks um að við höfum lifað tiltölulega góða og friðvænlega tíma í okkar heimshluta.
Í grein minni hér í Sunnudagsblaðinu fyrir akkúrat þremur árum skrifaði ég eftirfarandi: „Áherslur okkar í utanríkismálum, þar sem við höfum undanfarin ár getað einbeitt okkur að efnahagslegum hagsmunum, hvíla þó á þeirri grundvallarstoð að hið stóra og flókna regluverk alþjóðalaga sé virt. Þar skiptir auðvitað allra mestu máli að algjör og ófrávíkjanleg virðing sé borin fyrir alþjóðlega viðurkenndum landamærum. Brot á þessu grundvallaratriði, eins og átti sér stað með ólögmætri innlimun Krímskaga í Rússland, snertir ekki aðeins þau ríki sem hlut eiga að máli heldur allt alþjóðasamfélagið. Fyrir okkur á Íslandi er mikilvægt að hafa hugfast að virðing fyrir efnahagslegri lögsögu í hafi hvílir einnig á regluverki alþjóðalaga. Það er því ekki einungis af samúð, vináttu og skyldurækni sem Ísland stillir sér upp með þeim löndum sem hafa áhyggjur hernaðaruppbyggingu Rússa við landamæri Úkraínu. Það er blákalt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að standa vörð um alþjóðalög og órjúfanlega friðhelgi alþjóðlegra landamæra og lögsögu. Sú alvarlega staða er nú uppi í heimsmálum að þau snúast í sífellt meiri mæli um öryggis- og varnarmál en ekki reiptog um viðskiptareglur og innflutningstolla.“
Á þessum tíma var liðssafnaður Rússa við landamæri Úkraínu augljós en Rússlandsforseti hélt því fram á þessum tíma opinberlega að innrás stæði ekki til. Við þekkjum öll hvað gerðist í framhaldinu.
Ég rifja þetta upp vegna þess að öllum ætti að vera orðið ljóst að við okkur blasir nýr veruleiki. Ég hef skynjað það síðastliðin þrjú ár að takmarkaður áhugi hefur verið á því að ræða þessi mál eða máta okkar grundvallarhagsmuni við þessa stöðu af alvöru. Mér hefur margsinnis verið ráðlagt að tala minna um öryggis- og varnarmál, og í kjaftadálkum var gjarnan fremur lítið gert úr þeirri áherslu sem ég hef lagt á verkefnin með því að mæta á staðinn þar sem ætlast var til þátttöku Íslands.
Auðurinn sem friðsæld gefur er nefnilega augljós þegar við horfum á íslenskt samfélag. En friðurinn sem við hvílum í er ekki okkar eigin. Við eigum hann að þakka alþjóðlegu samstarfi og sátt sem komst á milli ríkja heims fyrir um áttatíu árum, þegar menn höfðu horft upp á eyðileggingarmátt Síðari heimsstyrjaldarinnar. Í langri sögu mannkynsins er það þó ekki regla, heldur undantekning, að deilur ríkja séu leystar á grundvelli sameiginlegrar löggjafar og stofnana. En það eru einmitt þær leikreglur sem eru tilverugrundvöllur smárra ríkja, eins og landsins okkar.
Áttatíu ár eru stuttur tími í lífi þjóðar, en lýðveldistíminn hefur verið fámennum ríkjum ákaflega meðdrægur. Nú gæti það breyst og við Íslendingar eigum mikið undir því hver verður þróun heimsmála í kringum okkur. Og hvar sem við getum eigum við að láta gott af okkur leiða og leggja metnað í að standa undir þeim heiðursessi að vera fullvalda þjóð meðal þjóða.
Ég leyfi mér að vona að við sem samfélag séum að átta okkur á því að grundvöllur lífskjara okkar og lífsgæða er ekki sjálfgefinn. Að varðveita jarðveg frelsis og halda í skefjum þeim öflum sem vilja spilla honum, hvort sem það er í formi utanaðkomandi ógnar, freklegra stjórnvalda eða ægivalds ofstækis eða hagsmunafla, er verkefni okkar allra. Og þar þurfa augu okkar að vera opin, ekki eingöngu gagnvart þekktum leikendum.