Land hinna frjálsu, heimkynni hugdjarfra

Við landamæri Úkraínu og Póllands, mynd tekin 21. mars 2025

Undir lok átjándu aldar tóku þrettán nýlendur Breta í Norður Ameríku sig saman, mynduðu her og tóku ákvörðun um að berjast fyrir frelsi frá öflugasta herveldi heims. Aflsmunurinn var mikill „á pappírnum“ þegar nýlendubúar byrjuðu að velta fyrir sér hvort það væri þess virði að berjast fyrir sjálfstæði. Annars vegar þrautþjálfaðir og agaðir hermenn heimsveldis búnir fullkomnustu vopnum þess tíma. Hins vegar uppreisnarmenn úr ýmsum stéttum; bændur og handverksmenn með ýmis konar samtíning skotfæra og takmarkaða þjálfun.

Það var langt frá því að vera einhugur um að það væri góð hugmynd að skora hið ósigrandi breska heimsveldi á hólm. Og það voru góðar ástæður til þess að efast um að það væri þess virði. Nýlendubúar í Norður Ameríku höfðu það ekkert sérstaklega slæmt. Átök milli heimamanna og nýlenduherra voru fremur fátíð og ekki sérlega alvarleg í hinu stóra samhengi. Mest kvörtuðu nýlendurnar undan skattpíningu. Þegar fimm manns féllu fyrir hendi breskra hermanna í Boston 5. mars 1770 fékk atvikið nafngiftina „Boston slátrunin“ og varð fljótlega sameiningartákn fyrir alla sem sættu sig ekki við undirokun nýlenduherranna og voru reiðubúnir að leggja allt sitt undir til þess að tryggja betri og frjálsari framtíð fyrir samfélagið sitt.

Það voru ekki allir sammála um að það væri þess virði að skora hinn óárennilega her heimsveldisins á hólm. Pólitísk umræða tók nokkur ár í nýlendunum, heimsveldið lofaði umbótum þótt árekstrar yrðu tíðari. Mörgum þótti freistandi að gæta frekar að friði en berjast fyrir frelsi. Ein frægasta umræðan af því tagi átti sér stað í nýlendunni Virginíu þar sem fulltrúar deildu um hvort tímabært væri að setja á stofn her til að berjast fyrir frelsi og sjálfstæði. Þar flutti Patrick Henry ræðu sem hreif marga og hefur endurómað i gegnum aldirnar. „Menn geta talað um frið og aftur frið, en það er enginn friður,“ sagði hann og lauk orðum sínum svona: „Ég veit ekki hvað aðrir velja, en hvað sjálfan mig varðar þá er valið skýrt; frelsi eða dauði“ („Give me liberty or give me death“). Þessi hetjulega hugsun var ekki öllum að skapi þá og er enn í dag illskiljanleg okkur sem höfum aldrei þurft að horfast í augu við slíka valkosti og getum ekki ímyndað okkur að þurfa að fórna neinu sem skiptir máli fyrir nokkurn skapaðan hlut; ekki einu sinni peningum eða þægindum. En Bandaríkin hafa gegnum sögu sína haldið minningu þessarar hugmyndar á lofti, til dæmis með þeim óvenjulega hætti að skrifa á allar númeraplötur á bílum í New Hampshire ríki slagorðið: „Lifum frjáls eða deyjum“ („Live free or die“).

Undir árslok 2014 gekk þáverandi forseti Úkraínu á bak orða sinna og tilkynnti með nokkurra daga fyrirvara að hann ætlaði ekki að skrifa undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Í staðinn skyldi auka samstarf við Rússland. Íbúar Úkraínu vissu nákvæmlega hvað þýðingu þessi svik myndu hafa. Úkraínskt samfélag hefur í margar kynslóðir verið markað af rótgróinni spillingu sem tengist beint rússneskri undirokun. Samfélagið í Sovétríkjunum, og síðar í Rússlandi, er ekki bara þjakað af spillingu. Það er beinlínis byggt á spillingu. Mútur og klíkuskapur eru ekki undantekning heldur meginregla. Í stjórnsýslu, pólitík og atvinnulífi lifðu margir Úkraínumenn ágætu lífi í samkrulli við Rússa, en almenningur saup seyðið af spillingunni.

Raunverulegt frelsi

Þetta er ástæða hinna miklu svokölluðu „Maidan“ mótmæla í kringum áramótin 2013 og 2014 (sem sumir einfeldningar trúa að hafi verið skipulögð af bandarísku leyniþjónustunni). Þegar sérsveitir úkraínsku lögreglunnar fóru að beita valdi og drápu yfir 100 mótmælendur lét meirihluti Úkraínumanna ekki bjóða sér kúgunina. Á endanum hraktist spillti forsetinn úr embætti, samningar um meiri tengsl við Rússland voru blásnar af og nokkrum mánuðum seinna skipulögðu rússnesk stjórnvöld uppþot og óeirðir á Krímskaga og í austurhluta Úkraínu.

Allsherjarinnrás Rússa í febrúar 2022 verður að skoða í þessu samhengi. Það hófst í reynd 2014. Þetta er stríð sem Úkraínumenn eru staðráðnir í að láta ekki Rússa vinna. Síðan hafa kjósendur í Úkraínu undirstrikað með afgerandi hætti að þeir ætla sér að byggja upp samfélag sem byggist á virðingu fyrir raunverulegu frelsi og hagsmunum almennings.

Umræðan í fjölmiðlum og á vettvangi alþjóðastjórnmála er á þann veg að stríðið í Úkraínu komi Úkraínumönnum sjálfum minnst við. Það sé hlutverk annarra að semja um niðurstöðuna. Líklega hefðu margir hugsað svipað undir lok átjándu aldar og fundist best fara á því að Bretar og Frakkar settust niður til þess að kæla niður frelsisþrá nýlendubúa í Norður Ameríku. En það var ekki þeirra að ákveða. Sama er uppi á teningnum núna. Úkraínumenn berjast fyrir frelsi og fullveldi, að verða raunverulega frjáls til að lifa – og í dag er það Úkraína sem vill ávinna sér réttinn til þess að kallast land hinna frjálsu og heimkynni hugdjarfra.

Þess vegna er barátta Úkraínumanna barátta allra sem standa fyrir frelsi. Án frelsis er friðurinn orðin tóm.