Að finna fjölina sína

Skjótvirk leið til að öðlast auðmýkt er að hugleiða hvernig manni gengi að lifa af á eyðieyju. Gæti maður séð fyrir einföldustu grunnþörfum, útbúið viðunandi skjól og verkfæri til veiða og matargerðar? Hætt er við að mörgum nútímamanninum reyndist þetta erfitt. Vafalaust yrðu tilraunar margra okkar meira í ætt við Clouseau en Crusoe.

Af sama meiði er sú æfing að hugleiða hvernig manni gengi að lýsa nútímasamfélagi fyrir einstaklingi frá löngu liðnum tíma. Fæst okkar gætu svarað nema broti af þeim spurningum sem myndu vakna hjá viðkomandi um hvernig jafnvel hversdagslegustu fyrirbæri á borð við ísskápa, þvottavélar og útvarp virka eða hvernig þau eru búin til. Hvað þá að við gætum smíðað einhver þeirra til að sanna mál okkar. Viðmælandi okkar gæti vart annað en ályktað sem svo að lýsingar okkar væru marklaus skáldskapur.

Okkur hættir til að vanmeta undrin sem samfélag okkar býður upp á. Grínistinn Louis C.K. orðaði það vel þegar hann benti á vanþakklæti flugfarþega, sem kvarta yfir nokkurra mínútuna töf eða lélegu netsambandi án þess að leiða hugann að því að þeir sitja í stól í tíu kílómetra hæð, fljúgandi á ógnarhraða, og komast þannig á nokkrum klukkutímum það sem áður tók marga mánuði eða ár. Kraftaverkið fer framhjá þeim af því að þeir eru of uppteknir af því að ekki sé hægt að halla sætisbakinu nógu langt aftur.

Vangaveltur sem þessar, um tilurð umhverfis okkar, dýpka virðingu okkar fyrir þeim sem hafa þekkingu og kunnáttu til að hanna, smíða og viðhalda hlutunum í kringum okkur, það er að segja: hinni efnislegu hlið samfélagsins. Við ættum auðvitað ekki að þurfa sérstaka hugarleikfimi til að skerpa á virðingu okkar fyrir þeim, því mikilvægi þeirra blasir við, en oft þarf jú að minna okkur á hið augljósa.

Daginn eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, nánar tiltekið 12. janúar síðastliðinn, birtist ánægjuleg frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hún var þess efnis að mun fleiri sæktu nú í iðnnám en áður og umsóknum í Tækniskólann fjölgaði ár frá ári. Rætt var við Þór Pálsson, aðstoðarskólameistara Tækniskólans, sem nefndi meðal annars gamalkunnan þrýsting frá foreldrum og sagði: „Við fáum nemendur sem hafa klárað stúdentinn fyrir mömmu og segja: Nú er ég komin(n) til þess að læra það sem mig langað til að læra í upphafi.“

Þessi frásögn rímar við viðamikla rannsókn Félagsvísindastofnunar frá árinu 2002 um ungt fólk og framhaldsskólanám. Höfundar hennar sáu vísbendingar um að það væri töluvert algengt að nemendur hættu við að fara í verk- og iðnnám og færu í staðinn stúdentsleiðina vegna þrýstings frá foreldrum. Vissulega væru einnig dæmi um þrýsting í hina áttina en þau væru talsvert sjaldgæfari.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, vék að þessu með eftirminnilegum hætti í ávarpi sínu á Iðnþingi fyrir rúmum tveimur árum, þar sem hún gekkst við því með nokkurri eftirsjá að hafa sjálf beitt slíkum þrýstingi gagnvart 16 ára syni sínum og ráðið honum frá því að fara í Vélskólann, sagt hann of ungan, og skynsamlegra væri að taka stúdentsprófið fyrst. Tveimur árum síðar tók hann málin í eigin hendur og skráði sig í Vélskólann þar sem hann blómstraði og í kjölfarið voru þau mæðgin bæði himinlifandi með valið. „Hættum að líta á iðnnám sem síðri valkost,“ var hvatning Guðrúnar til foreldra.

Tilfinning mín er að pendúllinn sé að snúast í rétta átt hvað þetta varðar. Fyrrnefnt ávarp Guðrúnar, sem og nýleg blaðagrein Þórlindar Kjartanssonar um bókvitið og askana, sem vakti mikla og verðskuldaða athygli, fela í sér góð og áhrifamikil skilaboð sem styðja við þessa þróun.

Sömu straumar eiga aukinn hljómgrunn erlendis. Í nýlegri úttekt tímaritsins Economist á menntamálum hvetur David Autor, hagfræðiprófessor við MIT-háskóla, Bandaríkin og aðrar þróaðar þjóðir til að leggja aukna áherslu á starfsnám og tækninám til hliðar við hefðbundið bóknám, líkt og Þjóðverjar hafa lengi gert.

Eitt þýðingarmesta einkenni á íslensku samfélagi er að hér fær óvenjulega stórt hlutfall þjóðarinnar raunverulegt tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína til fulls. Ein af forsendunum fyrir því að viðhalda þessu dýrmæta samfélagseinkenni er að við reynum ekki að steypa alla í sama mótið heldur gefum hverjum og einum svigrúm og frelsi til að finna fjölina sína.