Að rækta kærleikann

Fyrir sjö vikum skilaði heimiliskötturinn okkar, hún Ronja, sér ekki heim. Dagana á eftir litum við oftar út um gluggann, dreifðum miðum í nágrenninu, kölluðum á hana og skráðum okkur í Facebook hópa. Við vonuðumst til að sjá hana koma allt í einu til baka, með sitt dularfulla kattareðli, og láta eins og ekkert hefði í skorist. En fyrst liðu dagarnir og svo vikurnar án þess að kisa kæmi heim og smám saman fjarlægðist vonin um að við fengjum hana aftur.

Kisan okkar er mjó og mjúk, vanari því að fá þjónustu en að berjast fyrir lífi sínu. Veiðieðlið var til staðar, en fram að þessu má segja að hún hafi fyrst og fremst stundað sportveiðar, enda hafði hún ætíð aðgang að auðmeltri gæðafæðu, notalegum strokum og viljugum leikfélögum. Það var erfitt að hugsa til hennar einhvers staðar úti á eigin vegum, lokuð inni með enga fæðu, að mæta harðneskjulegu veðri og vindum, hættulegum bílum, óvinveittum dýrum og jafnvel illgjörnu mannfólki. Að hafa misst hana var sárt en það að vita ekkert um örlög hennar var erfiðara.

Svo gerðist það um klukkan hálf sex á fimmtudagsmorgun, sjö vikum eftir að Ronja týndist, að það var bankað á dyrnar.

Síðast þegar knúð var dyra hjá okkur svo snemma að morgni var það ráðuneytisstjórinn minn úr utanríkisráðuneytinu nóttina sem Rússar réðust inn í Úkraínu. Þau ömurlegu tíðindi, sem ég gerði ráð fyrir að vakna við þennan morgun, var vond áminning um hversu fólk getur verið gráðugt, grimmt og vont.

Nú var það hins vegar algjörlega ókunnug kona sem stóð við hurðina hjá okkur og færði okkur Ronju. Hún hafði fundist við Grindavíkurafleggjara Reykjanesbrautarinnar eftir miðnætti og var loks komin heim. Hún hefur örugglega ekki bara lifað á músum og fuglum þessar sjö vikur, heldur virðist sem fólk hafi gefið henni mat og líklega veitt henni skjól. Þegar kattavinir fréttu frá vegfarenda af hræddri lítilli kisu eftir miðnætti fór sjálfboðaliði frá Villköttum á stjá í myrkri, frosti og snjó, til þess að huga að þessum umkomulausa kisa sem enginn vissi hvar átti heima. Fyrstu tilraunir til að ná til hennar dugðu ekki, en annar sjálfboðaliði, frá Dýrfinnu, keyrði þá af stað frá Völlunum í Hafnarfirði um miðja nótt, náði að lokka kisu til sín með mat og koma henni fyrir í litlu búri, lesa örmerkið og keyra af stað til þess að skila henni heim.

Undrunin, gleðin og þakklætið hrísluðust um heimilið þennan morgun. Algjörlega óvænt heimsókn ókunnugar konu var dæmi um að þótt sú mynd sem við sjáum í fjölmiðlum af grimmilegri veröld þar sem eigingjarnir menn bítast um völd, frægð og ríkidæmi eru í aðalhlutverki, segir það ekki nema lítinn hluta sannleikans um heiminn okkar og mannfólkið.

Þegar bandarísk vinkona mín sá að kisan væri komin heim og spurði hvernig gat staðið á því sagði ég „Guð blessi sjálfboðaliða” og sagði henni söguna. Hún svaraði um hæl: „Only in Iceland.“  Ég er ekki viss um að það sé endilega rétt. Gott fólk er alls staðar. Það er hins vegar fallegt og verðmætt að íslenskt samfélag hafi orð á sér fyrir að sögur af svona hversdagslegum kraftaverkum passi inn í hugmyndina sem fólk hefur um landið okkar og samfélagsgerð. Að við hjálpumst að og reynum að passa upp á hvert annað. Það er sannarlega þess virði að standa vörð um kærleikann, hampa honum og fagna; en umfram allt að taka þátt í honum og leggja sitt af mörkum. 

Konurnar sem björguðu Ronju höfðu enga skyldu til þess. Enginn hefði álasað neinum fyrir því að sleppa því að fara út í kuldann og snjóinn þetta kvöld, hvað þá um blánóttina, til þess að gera tilraun til þess að hjálpa einum umkomulausum heimilisketti. Enginn var að leita að launum eða frægð fyrir að eyða mörgum klukkutímum í það verkefni að koma ókunnum ketti aftur í fangið á ókunnugum börnum (og fullorðnu fólki) sem söknuðu hennar sárt. Og þó grunar mig að gleðin sem ríkti heima hjá okkur þennan morgun hafi bara verið sjónarmun meiri en sú sem var í hjörtum þessa óeigingjarna fólks sem bjargaði Ronju. 

Það er hægt að rækta kærleikann og það er hægt að rækta mannvonskuna. Í þeim verkefnum sem ég sinni í þágu úkraínskra barna getur mannvonskan og sorgin verið yfirþyrmandi. En fegurð kærleikans í hinu stóra og smáa er mikilvægt að sjá. Lærdómurinn er að okkur mannfólkinu líður best sjálfum þegar við gleðjum aðra. Og leggjum af mörkum. Gerum gagn í samfélaginu.

Til allra sjálfboðaliða í samfélaginu segi ég takk. Til allra þeirra sem leggja sig fram um að hjálpa öðrum, hvort sem það er í björgunarsveitum, í neyðarskýlum fyrir bágstadda, eða úti í öllum veðrum að bjarga týndum gæludýrum frá harðnsekjulegum náttúruöflum – og allra hinna, segi ég takk. Takk fyrir að gera samfélagið okkar betra. Það er Ísland eins og það á að vera.