Að þekkja sjálfan sig

Moskva, Volgograd og Rostov-on-Don. Á þessum þremur borgum verða augu allra Íslendinga eftir nokkra mánuði, þegar karlalandsliðið í fótbolta tekur þátt í HM í Rússlandi.

Þátttakan á HM verður líklega mesta landkynning sem Ísland hefur fengið frá upphafi. Næstum helmingur mannkyns mun fylgjast með keppninni, en aðeins 32 lönd eiga þar lið.

Íslandsstofa vinnur nú þegar út frá því að markaðsstarf hennar erlendis muni að verulegu leyti taka mið af HM og er byrjuð að leggja drög að því, sem er skynsamlegt.

Af þessu tilefni er við hæfi að velta fyrir sér sjálfsmynd okkar Íslendinga. Að mínu mati eiga orð Jóns Sigurðssonar í fyrsta árgangi „Nýrra félagsrita“ vel við enn þann dag í dag. Jón segir þar:

„En því aðeins geta þjóðirnar til fulls þekkt sig sjálfar, að þær þekki einnig aðrar þjóðir, gefi nákvæman gaum að öllu lífi þeirra og framförum, og taki dæmi þeirra og reynslu sér til eftirdæmis og viðvörunar. En það er bágt fyrir þá, sem búa langt frá öðrum, eins og Íslendingar, að þekkja nákvæmlega til slíks, og verður þeim því hætt við, eins og meira eða minna bryddir á hjá öllum eyjabúum, að þeir gera annað hvort of mikið úr sjálfum sér eða of lítið, þykjast annað hvort vera sælastir manna eða vesælastir, og á hinn bóginn meta allt hið útlenda annað hvort of mikils eða of lítils.“

Þetta er ennþá dálítill ljóður á okkar ráði að mínu mati. Við förum öfganna á milli í áliti okkar á sjálfum okkur og það sama gildir um hið erlenda; álit okkar á því er ýmist í ökkla eða eyra. Vonandi öðlumst við þroska til að skynja hér fleiri blæbrigði en svart og hvítt.

Án nokkurs oflætis er óhætt að segja að það sé sláandi hvílíkur reginmunur er á sjálfstrausti þjóðarinnar í dag í samanburði við þann tíma sem Jón Sigurðsson steig inn í. Við upphaf nítjándu aldar var almenn deyfð yfir Íslendingum og svartsýni á möguleika og framtíð landsins, hvað þá að við gætum staðið á eigin fótum eða haft roð við öðrum þjóðum í alþjóðlegri samkeppni. Landsmenn höfðu, með orðum Jóns sjálfs: „…misst traustið á sjálfum sér […] og viljann til að hjálpa sér sjálfir; þeir hafa misst hinn alþjóðlega anda til allra framkvæmda, og orðið kotungar […]“ – eins og hann segir í formála að „Lítilli varningsbók“.

Í dag er þessu þveröfugt farið. Við erum sem betur fer full sjálfstrausts og atorku og teljum okkur eiga fullt erindi á alþjóðavettvangi á hverju því sviði sem við kærum okkur um að stíga inn á.

En hver erum „við“, það er að segja: við Íslendingar? Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér.

Við nútímafólkið teljum okkur almennt aðhyllast skynsemi, vísindi og áþreifanleg rök fremur en tilbúning og hindurvitni. En þegar betur er að gáð eru furðulega margar stoðir í samfélagi okkar einmitt tilbúningur okkar sjálfra. Verðgildi peninga er eitt af þessum tilbúnu fyrirbærum sem hvíla á tiltrú og trausti allra hlutaðeigandi fremur en hlutlægum, áþreifanlegum þáttum.

Þjóðríkið og hverjir tilheyra því er annað dæmi. Það er mannanna verk. Sú staðreynd liggur kannski síður í augum uppi fyrir þá sem byggja eyjur með náttúruleg landamæri, en við þurfum ekki að horfa lengra en til Spánar til að sjá að mörk þjóðríkja eru langt frá því að vera sjálfsögð eða óumdeild. Hið sama gildir um sjálft þjóðerni hvers einstaklings. Það er hvorki einfalt né sjálfgefið. Sumpart er það lögformlegt og sumpart er það hreinlega ákvörðun hvers og eins, en hvort tveggja er mannanna verk.

Í þeirri sterku bylgju réttmætrar gleði og stolti yfir þjóðerni okkar sem vænta má næsta sumar, þegar saman fara þátttaka á HM, þjóðhátíð og hundrað ára afmælisár fullveldis okkar, er full ástæða til að hugleiða þessa þætti vel.