Alvarleg staða

Hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum sem tóku gildi í vikunni voru vonbrigði fyrir alla. Fjölgun Covid-smita, bæði innanlands, á landamærunum og í löndunum í kringum okkur, þótti hins vegar gefa tilefni til að grípa hratt til afgerandi varna.

Vandasamt og jafnvel ómögulegt er að kveða upp stóra dóma um réttar eða rangar ákvarðanir í þessu ferli öllu, slík er óvissan um svo margt. Sumt verður líklega alltaf óljóst og aldrei hægt að fullyrða um, ekki einu sinni eftir á. Við munum til dæmis aldrei geta sagt með vissu hvað hefði gerst ef einhverjar aðrar ákvarðanir hefðu verið teknar.

Markmið okkar getur aðeins verið að taka ákvarðanir í ljósi bestu upplýsinga hverju sinni. Á sama tíma þurfum við að sætta okkur við að þær verða aldrei fullkomnar. Ég tek undir þau orð Bjarna Benediktssonar í Kastljósi í vikunni, að það er líkt því að við séum að skjóta úr boga á mark sem er langt í burtu, en smám saman færist markið nær þannig að líkurnar aukast á að við hittum á hárréttar ákvarðanir.

Snögg áhrif

Daginn eftir að aðgerðirnar tóku gildi áttu tæplega þrjú þúsund farþegar bókað flug til landsins. Aðeins þriðjungur þeirra kom. Tveir af hverjum þremur hættu við ferðina. Áhrifin á ferðaþjónustu voru því snögg og afgerandi. Óhætt virðist að slá því föstu að mjög fáir ferðamenn komi til landsins við núverandi aðstæður.

En hvers vegna skiptir þetta svo miklu máli?

Mikilvægi gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur eru lífsnauðsynlegar þjóð sem framleiðir sjálf aðeins lítinn hluta þess varnings sem hún lítur á sem sjálfsagðan og jafnvel nauðsynlegan í sínu daglega lífi. Einhvern tímann hefði ekki þurft að minna fiskveiðiþjóðina á þetta, en í dag er eins og þetta hafi sokkið neðar í þjóðarvitundina en áður. Með uppgangi annarra gjaldeyrisskapandi útflutningsgreina en sjávarútvegs hefur áherslan á gjaldeyristekjur í þjóðmálaumræðunni minnkað. Einu sinni voru aflabrögð og markaðsverð sjávarafurða á meðal helstu tíðinda í fjölmiðlum. Þetta er liðin tíð, en það er góð ástæða fyrir því að það var einu sinni þannig.

Hugsum okkur tvo einstaklinga. Annar er Íslendingur en hinn er erlendur ferðamaður. Hugsum okkur að þeir verji saman einum degi á Íslandi þar sem báðir eyða 100 þúsund krónum í nákvæmlega sömu hlutina. Það er staðreynd að útgjöld erlenda ferðamannsins vega þyngra fyrir hagkerfið en útgjöld Íslendingsins. (Þess vegna er áhugavert að sjá þau lögð að jöfnu í opinberri umræðu.) Ástæðan er sú að útgjöld erlenda ferðamannsins eru gjaldeyristekjur; nýir peningar sem hefðu annars ekki komið inn í hagkerfið.

Gjaldeyristekjurnar eru grundvöllur þess að við getum keypt vörur og þjónustu frá útlöndum. Vægi ferðaþjónustu í bættum lífsgæðum undanfarinna ára og sterkri stöðu þjóðarbúsins er umtalsvert. Með einhverjum skekkjumörkum stendur ferðaþjónustan undir um það bil einum þriðja af innkaupum okkar Íslendinga á vörum og þjónustu frá útlöndum. Við getum rétt ímyndað okkur áhrif þess ef þessi uppspretta dýrmætra gjaldeyristekna hverfur um lengri tíma.

Það sem gerist iðulega þegar gjaldeyristekjur minnka er að gengi krónunnar gefur eftir, sem þýðir að aðföng og vörur frá útlöndum hækka í verði og við þurfum að ráðstafa stærri hluta okkar tekna til að kaupa þær. Í sem einföldustu máli þýðir það lakari lífskjör.

Þess vegna segi ég hiklaust að ferðaþjónustan er ekki „þröngir hagsmunir“ heldur vegur hún þungt fyrir hagsmuni allra Íslendinga.

Næstu skref

Í minnisblaði sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina síðastliðinn þriðjudag er því sjónarmiði haldið til haga að æskilegt væri að vinna ítarlegri efnahagsgreiningu á sóttvarnaaðgerðum og leggja heildstætt mat á þjóðhagslegan kostnað og ávinning af misjafnlega ströngum sóttvörnum, annars vegar á landamærunum og hins vegar innanlands. Í því sambandi væri líka æskilegt, eftir því sem hægt er, að huga að samspilinu þarna á milli, þ.e.a.s. hve mikið hertar sóttvarnir á landamærunum draga úr líkum á að grípa þurfi til harðra aðgerða innanlands. Við munum aldrei fá fullkomin svör við þessu en við ættum þó að geta dýpkað greininguna.

Í minnisblaði mínu er líka vakin athygli á þeim hagsmunum sem felast í því að fyrir liggi hvenær aðgerðir á landamærunum verði endurmetnar og hvaða viðmið verði stuðst við til að meta hvort óhætt þyki að slaka á þeim eða ekki.

Föst tök á faraldrinum innanlands eru forgangsatriði

Ekkert af því sem hér er sagt má mistúlka á þann veg að ferðaþjónustan skipti meira máli en að hafa góð og örugg tök á faraldrinum hér innanlands. Hið síðarnefnda er auðvitað forgangsatriði. Það er miklu dýrara að loka allri starfsemi hér heima (fyrirtækjum, skólum, menningarstarfsemi o.s.frv.) en að loka ferðaþjónustunni, að ekki sé minnst á heilsufarsþáttinn.

En það hefur ekki verið sýnt fram á að valið til lengri tíma standi aðeins um þessa tvo kosti og enga aðra. Verkefni okkar er að halda áfram að meta kostina í stöðunni, „færa markið nær“ ef svo mætti segja til að við getum betur hitt í mark og verið eins viss og við getum verið um að hafa fundið jafnvægið sem hámarkar hag okkar, lífskjör og heilsu.