Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom mörgum á óvart í vikunni þegar hann gagnrýndi dómhörku ungu kynslóðarinnar. Í því sambandi nefndi hann sérstaklega það sem kallast „woke“ á ensku, sem merkir að vera „vakandi“, stöðugt á varðbergi gagnvart óréttlæti í samfélaginu, einkum því sem beinist gegn minnihlutahópum.
Fordæmingarkúltúrinn
Slík árvekni hljómar auðvitað mjög vel en með í kaupunum fylgir gjarnan mikil óbilgirni og dómharka og í þokkabót krafa um að þeir sem eru gripnir fyrir ranga hegðun séu útskúfaðir og fái hvergi frið – nokkuð sem á ensku hefur verið nefnt „cancel culture“ og mætti þýða sem fordæmingarkúltúr eða útskúfunarárátta.
Óhætt er að segja að „vakning“ af þessu tagi sé meira áberandi á vinstri væng bandarískra stjórnmála en þeim hægri og því komu orð Obama nokkuð á óvart.
Að dæma aðra eins hart og mögulegt er
Obama sagði við unga fólkið:
„Þið ættuð sem fyrst að hrista af ykkur þessa hugmynd um tærleika, óskeikulleika, að þú sért alltaf pólitískt „woke“. Veröldin er ekki klippt og skorin. Það eru grá svæði og álitamál. Fólk sem gerir frábæra hluti hefur sína galla og fólkið sem þið eruð að berjast gegn kann að elska börnin sín og eiga ýmislegt sameiginlegt með ykkur. Eitt hættumerki sem ég sé meðal ungs fólks, sérstaklega í háskólum – og samfélagsmiðlarnir magna þetta upp – er að maður fær stundum á tilfinninguna að hugsunin sé: „Leiðin til að breyta samfélaginu er að dæma aðra eins hart og mögulegt er. Og það er nóg. Ef ég birti athugasemd á Twitter um hvernig þú gerðir eitthvað vitlaust eða notaðir rangt orð, þá get ég slakað á og klappað sjálfum mér á bakið. Sástu hvað ég var „woke“? Ég fletti ofan af þér. Best að horfa á sjónvarpið.“ – Þetta er ekki aktífismi. Þetta er ekki að stuðla að breytingum. Það er ólíklegt að það skili miklum árangri að kasta bara steinum. En það er mjög auðvelt.“
Sanngjörn gagnrýni?
Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem woke-kúltúrinn fær á sig gagnrýni úr nokkuð óvæntri átt því að nýlega viðraði tónlistarmaðurinn Nick Cave mjög áþekka skoðun og Obama gerði hér.
Ádrepa þeirra er umhugsunarverð en hún kallar auðvitað á ýmsar gagnrýnar spurningar, svo sem:Á fólk þá ekki að hafa neina bjargfasta sannfæringu, fyrst heimurinn er ekki svarthvítur heldur grár?Hefur ungt fólk ekki alltaf verið dómhart, óbilgjarnt, jafnvel allt að því hrokafullt í baráttu sinni fyrir betri heimi? Og er það ekki bara allt í lagi?Voru til dæmis hinir ungu frjálshyggjumenn níunda áratugarins ekki svarthvítir í hugsun? Sáu þeir mörg grá svæði? Hafa þeir í dag efni á því að kvarta – jafnvel af þeirri „ofurviðkvæmni“ sem þeir gagnrýna unga fólkið fyrir – yfir nákvæmlega jafn djúpri og heitri sannfæringu nýrrar kynslóðar, sem vill svo til að er að þessu sinni í þágu virðingar fyrir minnihlutahópum?Er sumt eldra fólk ekki alveg jafn dómhart og óbilgjarnt og sumt ungt fólk? Hvers vegna að einblína á unga fólkið? Sýnir það eitthvað meiri dómhörku á netinu en sumir hinna eldri sýna í innhringitímum útvarpsþátta?
Auðmýktin
Að mínu mati eru Obama og Cave fyrst og fremst að hvetja til ákveðinnar auðmýktar og virðingar; að við höfum ekki fyrirlitningu á öðrum sem okkar helsta leiðarljós.
Hluti af því er að við séum auðmjúk gagnvart viðhorfum fyrri tíma. Og gagnvart því hvernig framtíðin mun dæma okkur sjálf. Við getum bókað að sumt af því sem okkur þykir sjálfsagt í dag verður talið algjör fásinna í framtíðinni. Það gerir okkur ekki að vondum einstaklingum.
Tímamótaþættirnir „Svona fólk“ voru þörf áminning um hversu mikið samfélagið okkar hefur breyst á skömmum tíma. Þau sem börðu þær breytingar í gegn eiga mikinn heiður skilið. Ég er ekki sérfræðingur í réttindabaráttu þeirra en mér hefur sýnst að hún hafi að mestu leyti verið háð á jákvæðum nótum, með sjálfstraust, gleði og ást að leiðarljósi. Ég trúi að það hafi verið farsæl nálgun og að henni mætti mögulega beita víðar.
Góðar breytingar og vanmetið íhald
Ég trúi að þær breytingar sem ungt fólk berst fyrir séu oftar til góðs en ills. Ég fordæmi hins vegar ekki mótspyrnu íhaldssamari afla; hún er stundum réttmæt og jafnvel þegar hún er það ekki getur hún þjónað tilgangi.
Sú staðreynd að samfélagið fer að mörgu leyti batnandi sannar ekki að allar byltingartilraunir ungs fólks séu til góðs. Við sjáum bara breytingarnar sem lifðu af, ekki þær sem voru slegnar niður og hefðu orðið til ills ef enginn hefði veitt viðspyrnu.
Í liðinni viku var ég gestur á þúsund manna ráðstefnu í London með ungum einstaklingum sem þykja skara fram úr á sínu sviði. Þar varð ég vör við dálitla tilhneigingu til að afskrifa það sem þau eldri hafa fram að færa. Það viðhorf er skylt þeim tilhneigingum sem Obama var að spyrna við. Ég sagði á ráðstefnunni, og endurtek hér, að við eigum ekki að stilla þessu upp sem átökum kynslóða. Við verðum að hafa það samtal. Samtal sem einkennist af gagnkvæmri auðmýkt og virðingu.