Bjart yfir nýsköpun

Stóra verkefni Íslands á næstu árum verður að skapa nægilega mikil verðmæti til að vega upp efnahagsáfallið sem við stöndum frammi fyrir. Vandinn blasir m.a. við okkur í spá um þriggja ára samfelldan hallarekstur hins opinbera, sem muni valda því að árið 2022 verði skuldir hins opinbera orðnar rúmlega tvisvar sinnum hærra hlutfall landsframleiðslu en áður var stefnt að, eða 64% í stað 29% samkvæmt endurskoðaðri fjármálaáætlun. Þetta er áskorun sem við skattleggjum okkur ekki út úr. Eina ráðið sem dugar er aukin verðmætasköpun.

Líklegustu uppsprettur þessarar verðmætasköpunar eru ferðaþjónusta og nýsköpun. Fréttir af mögulegu bóluefni auka bjartsýni um að ferðaþjónustan komist fyrr af stað en verstu sviðsmyndir voru farnar að gera ráð fyrir. Um leið berast reglulega jákvæðar fréttir af vettvangi nýsköpunar. Saman skapa þær fréttir mjög áhugaverða heildarmynd sem full ástæða er til að halda til haga.

17 milljarða fjárfestingar í íslenskri nýsköpun 2020

Ég lét nýlega taka saman tölur um umfang fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Í ljós kemur að það sem af er þessu ári hefur verið fjárfest í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum fyrir um 17 milljarða króna. Það er meira en allt árið 2019.

Umfang fjárfestinga frá erlendum aðilum er um 12 milljarðar eða 74% af heildarupphæðinni. Það sýnir tiltrú alþjóðlegra fjárfesta á íslensku hugviti, íslenskum frumkvöðlum og íslensku nýsköpunarumhverfi.

Fjárfestingarnar eru færri í ár en í fyrra, þó að heildarupphæðin sé hærri. Það er jákvætt í ákveðnum skilningi; það að færri fyrirtæki séu að sækja sér stærri fjárfestingar bendir almennt til þess að þau séu komin yfir fyrstu stigin í vaxtarferli sínu og nær því að taka næstu stóru skref. Þetta er þroskamerki fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi.

Nokkur dæmi

Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa sem sagt verið að ná góðum árangri að undanförnu þrátt fyrir breyttar aðstæður í heimsfaraldri. Hér eru nokkur dæmi:

Sidekick Health, sem gerir læknum kleift að beita stafrænni meðferð við lífsstílstengdum sjúkdómum, lauk nýlega fjármögnun upp á tæplega þrjá milljarða króna frá erlendum fjárfestum í kjölfar samninga við stór lyfjafyrirtæki á borð við Pfizer.

Controlant, sem býr til búnað og hugbúnað til að fylgjast með viðkvæmum vörum í flutningi, lauk nýlega fjármögnun upp á um tvo milljarða króna. Lausnin er m.a. notuð til að fylgjast með flutningi á Covid-skimunarbúnaði.

Dohop, sem smíðar hugbúnað fyrir flugfélög, hefur lokið stórri fjármögnun fyrir yfir milljarð króna frá erlendum sjóði og hyggst nýta fjármagnið til að byggja upp starfsemina og fjölga starfsmönnum á Íslandi.

CCP Games gaf nýlega út tölvuleik í Kína með góðum árangri.

Avo, sem smíðar hugbúnað fyrir gagnaöflun og gagnavernd, varð fyrsta íslenska fyrirtækið til að vera valið til þátttöku í Y Combinator, sem þykir besti viðskiptahraðall heims. Fyrirtæki sem hafa áður notið góðs af honum eru m.a. Airbnb, fjártæknirisinn Stripe, samfélagsmiðillinn Reddit og skýþjónustan Dropbox. Í kjölfarið sótti Avo sér fjármögnun upp á um 400 milljónir króna frá sérhæfðum fjárfestum í Kísildal.

Vísisjóðir í sókn

Á Íslandi eru starfræktir nokkrir vísisjóðir sem sérhæfa sig í að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Á bak við þá eru Brunnur Ventures, Crowberry Capital, Eyrir Ventures og Frumtak Ventures (sem rekur tvo sjóði), auk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Flestir þessir aðilar og raunar fleiri eru nú að vinna að fjármögnun nýrra sjóða. Því er útlit fyrir að nýtt skeið fjárfestinga í sprotafyrirtækjum sé að hefjast. Það eru góð tíðindi. Stofnun Kríu, hvatasjóðs vísifjárfestinga með opinberu fjármagni, mun styðja við þá þróun.

Velgengni erlendis

Allmörg íslensk nýsköpunarfyrirtæki fengu evrópska þróunarstyrki í fyrra. Styrkirnir námu alls um 1,5 milljörðum króna. Hér hafa íslensk fyrirtæki sótt í sig veðrið á undanförnum misserum og sýnt og sannað að verkefni þeirra standast kröfur sem gerðar eru til styrkveitinga á alþjóðlegum vettvangi. Þau sem fengu evrópska styrki í fyrra voru lyfjafyrirtækið EpiEnda, margmiðlunarfyrirtækið Oz, heilsufyrirtækið Saga Natura, lækningavörufyrirtækið Kerecis og matartæknifyirrtækið Curio.

Á þessu ári hafa a.m.k. þrír stórir evrópskir styrkir verið veittir til íslenskra verkefna: 2,5 milljarðar króna til rannsóknarverkefnisins Svefnbyltingin, um 400 milljónir til Orf líftækni og um 300 milljónir króna til Greenvolt vegna þróunar á rafhlöðum með nanótækni.

Það er aukin verðmætasköpun í farvatninu

Í allmörg ár hafa ræður um íslenska nýsköpun oftast vísað til þriggja fyrirtækja: Össurar, Marel og CCP. Öll eru þau glæsilegir fulltrúar íslenskrar nýsköpunar. Dæmin hér að framan – og raunar fleiri dæmi – benda til að þeim fulltrúum fari ört fjölgandi. Ég er sannfærð um að verið sé að byggja upp fyrirtæki sem stilla sér upp við hlið hinna þriggja hvað varðar árangur, umsvif og styrk.

Stjórnvöld hafa sett fram skýra sýn og tekið stórar ákvarðanir til að styrkja þetta umhverfi og af því er ég stolt, en stærstan heiður eiga auðvitað frumkvöðlarnir sjálfir fyrir þrautseigju sína og hugvit.

Réttilega er oft bent á að nýsköpun taki tíma. En við vorum ekki að byrja á henni í gær og erum nú þegar byrjuð að uppskera. Sautján milljarða fjárfesting það sem af er þessu ári er skýr vísbending um að það er bjart yfir nýsköpun á Íslandi og veruleg verðmætasköpun í farvatninu.