Bjartsýni í ólgusjó

Við Íslendingar samfögnuðum í vikunni Vigdísi Finnbogadóttur á 90 ára afmæli hennar. Áhrif Vigdísar á samfélag okkar eru ómæld. Kjör hennar til forseta vakti heimsathygli. Blað var brotið. Við embættistökuna var hún „umkringd góðum mönnum í kjólfötum“ eins og hún sagði sjálf síðar. Einstæð móðir á forsetastóli með einstaka hæfileika til að blása samlöndum sínum í brjóst bæði sjálfstraust og bjartsýni.

Stolt af viðbrögðum landsmanna

Sannarlega veitir okkur ekki af bjartsýni á þessum tímum, þegar spár um efnahagslegar afleiðingar Covid-faraldursins hafa dökknað verulega.

Það sem af er hefur okkur sem betur fer gengið vel að kveða niður heilbrigðisógnina. Mögulega erum við þar að sjá einn besta árangur heims en við getum að sjálfsögðu ekki barið okkur á brjóst því að enn getur brugðið til beggja vona.

Ég er stolt af því hvernig íslenskt samfélag hefur tekið á þessu risastóra verkefni. Landsmenn eiga hrós skilið fyrir að sýna þrautseigju og leggja sitt af mörkum til að fækka smitum. Þetta hefur tekið á.

Það er mikil óvissa um framhaldið, bæði um þróun faraldursins hér á landi og líka næstu skref stjórnvalda í öðrum löndum. Ákvarðanir þeirra, t.d. um samgönguhindranir, munu hafa mikla þýðingu fyrir okkur, ekki síst ferðaþjónustuna.

Gífurlegur samdráttur

Þrátt fyrir óvissu um framhaldið er hægt að slá því föstu að efnahagslegu áhrifin verða meiri en vonir stóðu til í fyrstu. Umtalsverður hluti atvinnulífsins hefur orðið fyrir gífurlegu tekjufalli. KPMG spáir því í nýrri skýrslu fyrir Ferðamálastofu að gjaldeyristekjur ferðaþjónustu geti dregist saman um allt að 330 milljarða á árinu, sem er mun meira en allar gjaldeyristekjur sjávarútvegsins í fyrra. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en efnahagslegar hamfarir.

Hugvitið þarf súrefni

Fyrstu efnahagslegu aðgerðir íslenskra stjórnvalda voru skynsamlegar. Strax var boðað að mögulega þyrfti að gera meira. Þau skref verða kynnt nú eftir helgi. Það mun þurfa að koma enn sterkar til móts við fyrirtækin og það mun þurfa að gera enn meira til að tryggja kröftuga viðspyrnu og nýja sókn þegar þessari hríð slotar.

Við Íslendingar erum ekki óvön því að taka út sársaukann af efnahagslegri aðlögun með verðbólgu. Það er umhugsunarvert að seðlabankastjóri telur ekki endilega líkur á að samdráttur gjaldeyristekna kalli að þessu sinni á lækkun gengis með tilheyrandi verðbólgu. Sú spurning er áleitin hvort þetta þýði að við munum í staðinn taka út sársaukann með langvarandi atvinnuleysi líkt og margar Evrópuþjóðir hafa mátt búa við.

Gegn slíkri þróun þarf að sporna með öllum leiðum. Liður í því er aukin áhersla á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Viðspyrnan er ekki síst undir því komin að gefa hugvitinu enn meira súrefni til að búa til nýjar lausnir, ný verðmæti og ný störf.

Sterk staða ríkissjóðs

Eitt af því sem gefur okkur tilefni til bjartsýni er sterk staða ríkissjóðs, þökk sé ábyrgri stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum. Nýjustu rauntölur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nettóskuldir hins opinbera (2018) sýna að á Íslandi eru þær um 30% af landsframleiðslu. Berum það saman við Þýskaland með 43%, Bretland 77%, Spán 83%, Frakkland 90% og Ítalíu með 120%.

Við ætlum og munum byggja upp ferðaþjónustu að nýju. Framtíð hennar er björt til lengri tíma. Við munum þurfa að ganga í gegnum erfiða tíma um sinn en við munum sækja fram af fullum krafti um leið og aðstæður leyfa.

Sterkt samfélag

Ég tel að faraldurinn muni skerpa á því hvernig við skilgreinum sterkt samfélag. Samfélag sem er með sterka innviði, sterkt velferðarkerfi og öflugt atvinnulíf er sterkt samfélag. Samfélag sem getur haldið sér gangandi á sama tíma og það tekst á við alvarlega ógn sem þessa er sterkt samfélag. Samfélag sem treystir á bestu upplýsingar og hræðist þær ekki heldur horfist í augu við þær er sterkt samfélag.

Við munum þurfa að taka sársaukafullar ákvarðanir og verða fyrir vonbrigðum. Við munum ekki gera allt rétt en við munum komast í gegnum þetta tímabil.

Mestu skiptir að við séum bjartsýn – að á sama tíma og við glímum við björgunarstarfið gætum við þess að hafa augun á framtíðinni og þeim fjölmörgu tækifærum sem hún felur í sér.