Bókstaflega svartir dagar

Það hljómar eins og atriði í hamfaramynd frá Hollywood en í vikunni var það íslenskur raunveruleiki: Mágkona mín, sem vinnur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga, þurfti í óveðrinu að finna til lyf handa sjúklingum í svartamyrkri með vasaljós á enninu. Bærinn rafmagnslaus og ekkert varaafl.

Eitt dæmi af ótalmörgum um hrikaleg áhrif óveðursins á það sem við köllum því stofnanalega nafni „flutnings- og dreifikerfi raforku“ en snýst auðvitað um líf fólksins í landinu.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, birti á Facebook hreint ótrúlegt yfirlit yfir lýsingar sveitunga sinna á ástandinu: Sjö stiga hiti inni á heimilum, margra daga rafmagnsleysi, símalaust, netlaust, hitaveitulaust, þúsundum lítra af mjólk hent, hross grafin úr snjó, fólk notandi bílana sína til að hlaða farsíma og hitandi sér tebolla með kertum.

Bætum bæði kerfið og viðbragðið

Ástandið var sannarlega skelfilegt víða um land. Í gær (föstudag) fórum við norður fjórir ráðherrar til að sjá það með eigin augum.

Mér eru efst í huga annars vegar allir þeir sem máttu, og mega jafnvel sumir enn, þola harðindi af ýmsu tagi vegna þessara atburða og hins vegar þakklæti til þeirra fjölmörgu viðbragðsaðila, björgunarsveita og annarra, sem hafa lagt nótt við dag til að liðsinna fólki og koma málum í lag, oft við hrikalegar aðstæður.

Nú ríður á að greina strax hvaða lykilþættir ollu því að ástandið varð svona slæmt og langvinnt og hvernig við komum í veg fyrir að það gerist aftur.

Sumt snýst um úrbætur á kerfinu. Það þarf t.d. að byggja yfir fleiri tengivirki. Mögulega var berskjaldað tengivirki í Hrútafirði í aðalhlutverki í vikunni. Halda þarf áfram að færa línur í jörð, sem stórátak hefur verið gert í á undanförnum árum í samræmi við skýra stefnu stjórnvalda .

Sumt snýst um betri viðbragðsbúnað. Varaafl þarf að vera fyrir hendi. Bæði inni á lykilstofnunum eins og sjúkrahúsum og eins stærri búnaður sem getur þjónað fleirum, jafnvel heilu byggðarlögunum. Varastöðin sem sett var upp á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum skipti algjörlega sköpum þar í vikunni.

Veikir hlekkir

Það væru yfirdrifin viðbrögð að dæma flutnings- og dreifikerfi raforku í einhvers konar ruslflokk á grundvelli þessara atburða. Truflanir á þessum skala eru nær óþekktar þó að horft sé áratugi aftur í tímann, þó að hrikaleg veður hafi oft gengið yfir landið. Það segir sitt um gæði kerfisins.

Landsnet hefur líka í níu ár af síðustu tíu náð markmiði sínu um 99,99% áreiðanleika gagnvart forgangsnotendum. Svipaða sögu er að segja af dreifiveitunum.

Eftir stendur hins vegar að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er lykilatriði. Við eigum að einhenda okkur í að útrýma þeim.

Mikið framkvæmt en samt of hægt

Undanfarin sex ár hefur Landsnet fjárfest í flutningskerfinu fyrir 13 milljarða. Þar af langmest síðustu þrjú ár. Til viðbótar því koma fjárfestingar hjá dreifiveitum. Það er því alls ekki hægt að segja að ekkert hafi verið að gert.

Sem dæmi má nefna að unnið er að jarðstreng sem fullyrt er við mig að hefði mögulega komið í veg fyrir rafmagnsleysið á Sauðárkróki. Framkvæmdin hefur tafist meira en Landsnet hefði kosið en verkefnið er þó komið af stað og í það hefur verið varið tæpum 300 milljónum króna.

Á hinn bóginn hefði Landsnet viljað og getað framkvæmt u.þ.b. tvöfalt meira á undanförnum árum ef ekki hefðu komið til óvæntar tafir á leyfisveitingum. Meðal annars hafa lykilverkefni til styrkingar flutningskerfinu, ekki síst á Norður- og Austurlandi, tafist óhóflega. Það er óviðunandi.

Einföldum ferlið í þágu lífsgæða

Ég legg áherslu á að við straumlínulögum leyfisveitingarferlið, ekki til að draga úr kröfum heldur til að útrýma óþarfa töfum. Ég hef þegar bent á mögulegar leiðir til þess í minnisblaði til ríkisstjórnar, nánar tiltekið í september síðastliðnum. Núverandi ferli er í einu orði sagt tætingslegt. Mun æskilegra væri að beina ólíkum öngum þess – til að mynda skipulagsþættinum, umhverfismati framkvæmda og framkvæmdaleyfi – í einn og sama farveginn strax í upphafi. Aðkoma almennings yrði óbreytt nema hvað hún yrði í tengslum við eina málsmeðferð í stað margra eins og nú er. Þetta er lykilatriði.

Ég leyfi mér að vona að við getum núna sameinast þvert á alla pólitík um að styrkja þessa nauðsynlegu innviði, sem eru algjör grundvöllur lífsgæða í landinu.