Einföldun regluverks – fyrsti áfangi

Stjórnvöld hafa alla jafna miklu meiri áhuga á því að setja nýjar reglur en að velta fyrir sér réttmæti þeirra reglna sem fyrir eru. Þetta veldur því að með tímanum verður regluverkið bólgið af óþarfa og þannig óþarflega hamlandi. Við sem trúum á mátt framtaksins vitum hversu skaðlegt þetta er.

Þung reglubyrði – vilji til að breyta

Samkvæmt gögnum OECD er reglubyrði atvinnustarfsemi á Íslandi með því mesta sem þekkist innan OECD-landanna, einkum í þjónustustarfsemi. Þetta er til þess fallið að auka kostnað, draga úr skilvirkni, hamla samkeppni, hækka vöruverð og skerða samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum löndum. Afleiðingin er lakari lífskjör.

Til að bæta úr þessu einsettu ríkisstjórnarflokkarnir sér í stjórnarsáttmála að gera átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Þetta hefur verið eitt af forgangsmálum okkar Kristjáns Þórs Júlíussonar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Fyrsti áfangi kynntur

Í vikunni var kynnt frumvarp um fyrsta áfanga af þremur í einföldun regluverks í þeim málaflokkum sem undir mig heyra. Í þessum áfanga eru lagðar til fjölmargar breytingar til einföldunar, meðal annars:

Iðnaðarleyfi verði lagt af, enda er það ekki lengur talið hafa neina þýðingu og felur því í sér óþarfa reglubyrði

Krafa um að opinbert leyfi þurfi til sölu notaðra bifreiða verði felld niður, þó að seljendur muni eftir sem áður bera tilteknar skyldur

Skráningarskylda verslana og verslunarreksturs skv. lögum um verslunaratvinnu verði afnumin, enda er um tvíverknað að ræða gagnvart fyrirtækjaskrá

Ákvæði um skyldur seljenda gagnvart viðskiptavinum skv. lögum um verslunaratvinnu verði felld niður, enda er fjallað um skyldur þeirra í öðrum lögum

Ákvæði um sölu notaðra muna skv. lögum um verslunaratvinnu verði felld brott

Sextán úrelt lög falli úr gildi í heild sinni

Næstu skref

Þetta er aðeins fyrsta skrefið. Í öðrum og þriðja áfanga ætlum við að draga enn frekar úr óþarfa reglubyrði. Þar horfum við ekki síst til tillagna stýrihóps ráðuneytisins um endurmat á eftirlitsreglum sem heyra undir málefnasvið þess.

Einnig munum við leggja til breytingar til að efla samkeppni á grundvelli hins umfangsmikla samkeppnismats sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og fleiri eru að vinna að í samstarfi við OECD, þar sem sérstök áhersla er lögð á ferðaþjónustu og byggingageirann.

Síðast en ekki síst munum við auka rafræna þjónustu hins opinbera til að einfalda fyrirtækjum samskipti við stjórnvöld.

Ekki „villta vestrið“

Gagnrýnendur einföldunar regluverks vara gjarnan við því að gengið verði of langt. Full ástæða er því til að árétta að hér er enginn á þeirri vegferð að skapa eða viðhalda skaðlegu „villta vesturs-ástandi“ á nokkru sviði.

Það er eftirtektarvert að á meðal þeirra sem vara við óhóflegri einföldun regluverks eru ekki bara áhyggjufullir stjórnmálamenn heldur líka stærri fyrirtæki. Ástæðan er auðvitað sú að ólíkt minni fyrirtækjum hafa þau burði til að uppfylla strangar kröfur. Frá þeirra sjónarhóli eru þær því ekki bara sá öryggisventill sem stjórnvöld höfðu í huga við setningu þeirra, heldur líka vörn gegn samkeppni frá smærri aðilum.

Það er vandasamt verkefni að meta hvaða kröfur eru nauðsynlegar og hverjar eru óhóflegar. Í þeirri viðleitni koma ólíkir hagsmunir úr fjölbreyttri flóru atvinnulífsins fram með misvísandi óskir.

Við stjórnmálamenn þurfum að vega þær óskir og meta, með hagsmuni almennings og neytenda að leiðarljósi.

Verk að vinna

Mín pólitíska sýn er að gera þurfi mjög ríkar kröfur til rökstuðnings fyrir íþyngjandi kröfum og reglum. Svo að nærtækt dæmi sé tekið hef ég þannig haft töluverðan fyrirvara á því hvort löggilda eigi störf leiðsögumanna í ferðaþjónustu. Þrátt fyrir það hef ég staðið að því að auka kröfur til ferðaskipuleggjenda um að þeir setji sér öryggisáætlanir, enda hefur að mínu mati verið töluvert misræmi í þeim öryggiskröfum sem við gerum almennt á ýmsum sviðum samfélagsins í samanburði við þá starfsemi að fara með fólk um jökla og önnur hættuleg svæði.

Það er því alveg skýrt að ég útiloka ekki að rök geti verið fyrir nýjum reglum. Meginverkefni okkar á hins vegar að vera að horfa á þær gagnrýnum augum og lágmarka þær eins og mögulegt er, til að stuðla að aukinni verðmætasköpun, meiri skilvirkni, meiri samkeppni, lægra verði og betri lífskjörum. Þar höfum við svo sannarlega verk að vinna.