Lífskjör hafa aldrei verið jafn góð eins og núna. Til dæmis er kaupmáttur launa mun hærri en hann var 2007. Og 2007 er svona hugtak um að þá hafði fólk það gott, en það hefur það enn betra núna. Kaupmáttur launa er sirka 19 prósent hærri en hann var 2007.“
Þannig mælti Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir fáeinum dögum, í tilefni af skýrslu um stöðu efnahagsmála sem hann vann fyrir forsætisráðherra.
Þetta er merkileg og ánægjuleg niðurstaða, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hún á að vera okkur öllum hvatning til að standa vörð um árangurinn og halda áfram að bæta skilyrði fyrir verðmætasköpun og lífskjarasókn.
Góðar fréttir úr tæknigeiranum
Grunnforsendan og frumuppsprettan fyrir þessum góða árangri er nú sem endranær sköpunarkraftur einstaklinganna. Einstaklinga sem nýta tækifærin í umhverfinu með hugviti sínu og dugnaði og búa sífellt til ný. Aðgerðir stjórnvalda eiga svo líka sinn þátt í árangrinum og ytri skilyrði sömuleiðis.
Við erum svo lánsöm að eiga athafnafólk og frumkvöðla á mörgum sviðum, sem gerir að verkum að atvinnulíf okkar er fjölbreyttara en ella.
Til marks um þetta er sú röð ánægjulegra tíðinda sem barst í vikunni úr tæknigeiranum. Suðurkóreskt tölvuleikjafyrirtæki keypti CCP fyrir hvorki meira né minna en 46 milljarða og mun áfram halda úti starfsemi á Íslandi samkvæmt tilkynningu. Bandarískt fyrirtæki keypti fimmtungshlut í ferðasalanum Guide To Iceland fyrir 2,2 milljarða og metur því heildarvirði félagsins á yfir 10 milljarða. Ferðatæknifyrirtækið TripCreator sótti sér tæpan milljarð í fjármögnun og tölvuleikjafyrirtækið 1939 Games rúmar 200 milljónir.
Ríkisstjórnin hefur sett skýra stefnu á áframhaldandi kröftugan stuðning við rannsóknir, þróun, nýsköpun og frumkvöðlastarf, meðal annars með því að auka endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði en einnig með því að hefja gerð nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Dæmin hér að framan eru enn ein sönnun þess að jarðvegurinn – einstaklingarnir – mun svo sannarlega sjá til þess að við uppskerum ef við hlúum rétt að honum.
Ryðjum hindrunum úr vegi
Stjórnvöld verða líka að huga vel að því að regluverk sé ekki óþarflega íþyngjandi og hamli ekki samkeppni, sem er forsenda þess að markaðslögmálin fái notið sín neytendum til hagsbóta. Við höfum því ákveðið, eins og tilkynnt var nýlega, að ganga til samstarfs við OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, um að framkvæma svokallað samkeppnismat á tveimur sviðum atvinnulífsins; ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Vonandi verður í framhaldinu hægt að taka fleiri svið til sams konar athugunar.
Tilgangurinn er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort það feli í sér samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi. En ekki verður látið þar við sitja heldur ætlum við líka að hefja skipulegt og markvisst mat á því hvort öll þau nýju lög og reglur sem við setjum standist þetta sama próf; hvort við séum með þeim að innleiða nýjar óþarfa samkeppnishindranir. Enda væri til lítils að reyta arfann með hægri og gróðursetja nýjan á sama tíma með vinstri.
Aðrar þjóðir hafa góða reynslu af þessari nálgun. Ástralar hafa frá því fyrir aldamót lagt sérstaka áherslu á að bæta regluverk til að efla samkeppni og er það talið hafa stuðlað að því að hagvöxtur þar í landi hefur gjarnan verið meiri en í öðrum OECD-ríkjum.
Það er ekki sjálfgefið, og satt best að segja hálfgert kraftaverk, að lítil þjóð á afskekktri eyju búi við einhver bestu lífskjör sem þekkjast á byggðu bóli. Við megum því hvergi draga af okkur í að virkja krafta einstaklingsframtaksins. Vissulega beina því í skýran farveg með skýrum og eðlilegum leikreglum svo að það valdi ekki flóðum. En gæta þess síðan að farvegurinn sé sem greiðastur, þannig að framtakið fái knúið hverfla verðmætasköpunar og lífskjara þessarar lánsömu þjóðar af sem mestum þrótti.