Stjórnmálamenn vinna fyrir og í umboði þjóðarinnar. Stjórnarslit og afleiðingar þeirra verður að skoða í því ljósi. Þótt stjórnarslit séu áfall fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna er tjónið vegna þeirra borið af fólki og fyrirtækjum í landinu.
Í reynd hefur óstöðugt stjórnarfar ríkt í landinu með hléum frá fjármálaáfallinu 2008. Óstöðugt stjórnarfar elur af sér óstöðugleika í viðskiptum, áætlanir raskast, fjárfestingar tefjast eða eru slegnar út af borðinu. Fyrir almenning í landinu er þetta oft ósýnilegur kostnaður. Fólk finnur hins vegar hratt á eigin skinni gengisbreytingar, verðbólgu og vexti. Til lengri tíma dregur úr fjárfestingu í ríkjum sem búa við óstöðugt stjórnarfar, aðgangur að lánsfjármagni skerðist með tilheyrandi áhrifum á hagvöxt og lífskjör í landinu.
Það verður þess vegna að sýna kjósendum tilhlýðilega virðingu þegar stjórnmálamenn taka þátt í ríkisstjórn. Þegar Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu, án samtals við þá sem sumir liðsmenn hennar töldu að hefðu brotið trúnað, og Viðreisn ályktaði í kjölfarið fram á nótt, höfðu formenn beggja þessara flokka vitað af málinu í nokkra daga án þess að hafa gert um það athugasemdir við forsætisráðherra. Í kjölfar þessa gerði Viðreisn ýmsar kröfur um margvíslegar rannsóknir á málinu sem erfitt var að festa hendur á. Umboðsmaður Alþingis hefur síðan komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið trúnað og ekki sé ástæða til að hefja frumkvæðisathugun á málinu.
Auðvitað setjum við ekki verðmiða á traust. Upplifun Bjartrar framtíðar um trúnaðarbrest er ekki léttvæg og ég hef enga þörf fyrir að gera lítið úr henni. Ég geri hins vegar kröfu um hvernig fólk vinnur úr slíkri upplifun þegar það á sæti í ríkisstjórn; hvort það er gert af yfirvegun eða í fáti. Það er sjálfsögð krafa, og raunar skylda sem hver og einn ætti að finna hjá sjálfum sér, að afdrifaríkar ákvarðanir sem þessar séu eingöngu teknar af fullri yfirvegun, eftir vandlega athugun og samtal við þá sem hlut eiga að máli. Það var ekki gert.
Ríkisstjórn Íslands er ekki áhugamannafélag og það er vanvirðing við fólkið í landinu að láta eins og hún sé það. Til lengri tíma grefur hegðun sem þessi ekki bara undan þeim flokkum sem hana stunda heldur öllu stjórnmálastarfi í landinu. Sjálf varð ég fyrir vonbrigðum með samráðherra mína í samstarfsflokkunum, þar sem ég þekkti þá ekki að öðru en vönduðum vinnubrögðum, sýn og rökfestu.
Það hefur verið gagnrýnt að stjórnmálamenn hugsi til skemmri tíma. Langtímastefnumótun skorti. Að vissu leyti má taka undir þessa gagnrýni. Ljóst er að sífelld stjórnarslit og stutt kjörtímabil gera ekki annað en að magna þennan fylgifisk lýðræðislegra kosninga. Ráðuneyti mitt hafði unnið að stórum verkefnum í ferðaþjónustu eins og langtímastefnumótun, þolmarkarannsóknum, breytingum á skipan ferðamála og eflingu markaðsstofa, svo dæmi séu tekin. Verkefni á borð við uppbyggingu þriggja fasa rafmagns, flutningskerfi raforku, úttekt á nýsköpunarumhverfinu og fleiri munu nú í besta falli tefjast. Af þeirri ástæðu sé ég eftir því að geta mögulega ekki fylgt þessum verkefnum eftir og tryggt framgang þeirra og annarra brýnna úrlausna, framfara og úrbóta til handa almenningi í landinu.
Við sjálfstæðismenn horfumst hins vegar óhikað í augu við þá stöðu sem nú er uppi og verkefnið framundan. Við göngum bjartsýn til kosninga, þar sem við fáum vonandi umboð til að vera áfram kjölfestan í íslenskum stjórnmálum og halda áfram með verkefnin, samfélaginu til heilla. Ég er klár í þá baráttu og það samtal.