Fyrir frelsið, fyrir neytendur

Þú, lesandi góður, getur valið af hverjum þú kaupir rafmagn. Þú getur farið á netið hvenær sem er, gert verðsamanburð með einföldum hætti og skipt um orkusala á augabragði.

Samkeppnin í orkusölu er ekki fullkomin en hún er þó fyrir hendi. Fyrirtæki nýta sér hana í töluverðum mæli og geta þannig sparað umtalsverðar fjárhæðir. Einstaklingar gera minna af þessu, kannski af því að við erum svo heppin að rafmagnið hér er ódýrt. Seljendur fá þó mikilvægt aðhald með því að möguleikinn sé fyrir hendi.

Nauðsynleg forsenda fyrir samkeppni er að allir seljendur hafi jafnan aðgang að línunum sem flytja rafmagnið. Línurnar eru að miklu leyti í eigu stórra orkuframleiðenda og þess vegna er bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að setja reglur um jafnan aðgang að þeim.

Orkupakki í þágu neytenda

Við sjálfstæðismenn erum með réttu stoltir af því að hafa staðið fyrir frelsisvæðingu á mörgum sviðum atvinnulífsins, ekki síst undir lok síðustu aldar.

Merkilegt skref á þeirri vegferð var stigið hinn 26. nóvember 1999. Þá ákvað Ísland að taka þátt í að staðfesta í sameiginlegu EES-nefndinni að fyrsti orkupakkinn skyldi verða hluti af EES-samningnum. Stuðlað skyldi að frjálsri samkeppni í framleiðslu og sölu rafmagns.

Árið eftir aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara við þessa ákvörðun. Það var heillaskref fyrir neytendur, sem hafa í dag valfrelsi sem þeir höfðu ekki þá. Og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu að aðskilnaður sérleyfis- og samkeppnisrekstrar hefði leitt af sér þjóðhagslega hagkvæmara raforkukerfi.

Hárréttar röksemdir

Í umræðum á Alþingi um innleiðingu fyrsta orkupakkans 4. maí árið 2000 sagði Tómas Ingi Olrich, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

„Það er sem sagt kominn á virkur orkumarkaður í Evrópusambandinu. […] Það hefur verið heilmikið átak fyrir Evrópusambandið að koma á virkum samkeppnismarkaði á þessu sviði vegna þess að þarna voru ríkisfyrirtæki fyrir sem einkenndu þennan markað. En þetta hefur tekist og t.d. komist á mjög virkur gasmarkaður í Evrópu og raforkumarkaður líka.

Lykillinn að þessari markaðsvæðingu orkumálanna hefur verið að flutningakerfin standi samkeppnisaðilum opin. Það er minna atriði hverjir eru eigendur flutningakerfanna. Aðalatriði málsins er að virk samkeppni komist á þar eð öllum standi til boða að nýta flutningakerfin.“

Og áfram: „Hér hefur verið rætt um hversu mikla þýðingu þessi orkumarkaður hefði fyrir Ísland. Frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta til með að hafa, a.m.k. fyrst til að byrja með, frekar litla þýðingu fyrir íslenska markaðinn því að hann er einangraður. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hér geti orðið raunhæf samkeppni um framleiðslu og sölu á raforku. En hér hlýtur að gilda það sama og í Evrópu, að til þess að slík samkeppni komist á er afar mikilvægt að menn hafi jafnan aðgang að flutningakerfunum. Yfirleitt er í þessum reglum um samkeppni á orkumarkaði gengið mjög tryggilega frá því að fyrirtækin sem annast framleiðslu og sölu á orku geti ekki einokað flutningakerfin.

Ég get vel fallist á að hér er um mikilvægt mál að ræða. Ég er hins vegar ekki sammála því að þarna sé um hættulegt mál að ræða. Þetta er hluti af því samkeppnislandslagi sem verið er að leiða okkur inn í síðan við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs.“

Ekki frávik heldur framhald

Ótrúlegum ósannindum hefur verið haldið að fólki um að þriðji orkupakkinn feli í sér grundvallarbreytingar á skipan orkumála hér á landi. Það er einfaldlega ekki satt. Þriðji orkupakkinn breytir engu um eðli þeirrar frelsis- og markaðsvæðingar á framleiðslu og sölu rafmagns sem ákveðin var með fyrsta orkupakkanum fyrir tuttugu árum – og sem var í fullu samræmi við stefnumörkun og aðgerðir Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sem allar miðuðu að bættum hag neytenda.

Voru þeir sem þá stýrðu landinu að afsala forræði á auðlindinni til Evrópusambandsins? Nei, svo sannarlega ekki.

Engu að síður þýðir EES-samningurinn, og í öllu falli innleiðing fyrsta orkupakkans sem ákveðin var í EES-nefndinni 1999 og staðfest af Alþingi ári síðar, að eftirlit með tilteknum leikreglum í orkugeiranum er hjá stofnunum EES. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur t.d. stöðvað ívilnanir til orkufreks iðnaðar á grundvelli ríkisstyrkjabanns EES. Sama stofnun fer líka yfir orkusölusamninga til stóriðju til að sannreyna að þeir séu gerðir á markaðslegum forsendum. Þessi staða hefur verið uppi í a.m.k. tuttugu ár án þess að það hafi valdið uppnámi, enda engin ástæða til.

Í þriðja orkupakkanum felst ekkert afsal á forræði yfir auðlindinni. Ekkert raunverulegt valdaframsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt. Engar erlendar stofnanir öðlast valdheimildir hér á landi við innleiðinguna. Allir fræðimenn sem fjallað hafa um málið eru sammála um að innleiðingin standist stjórnarskrá.

Þetta eru staðreyndir málsins.

Fremur en að hverfa aftur til hafta og einokunar ættum við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti samkeppninnar enn betur en hingað til, í þágu neytenda, ásamt því að tryggja betur afhendingaröryggi og auka jafnræði varðandi dreifingarkostnað raforkunnar, eins og við höfum fullar heimildir til að gera.