
Tjáningarfrelsið er ekki bara grundvöllur allra annarra mannréttinda heldur er það einnig nauðsynleg forsenda efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra framfara. Samfélag sem kæfir tjáningu er um leið að halda aftur af skapandi hugsun á öllum sviðum. Farsælustu samfélög veraldarsögunnar hafa haft skilning á þessu samhengi og standa því vörð um tjáningarfrelsið, jafnvel þegar því fylgja veruleg óþægindi.
Á allra síðustu árum hefur töluvert reynt á það hversu raunveruleg trú okkar á Vesturlöndum er þegar kemur að mikilvægi tjáningarfrelsis. Með bylgju frjálslyndis í tengslum við réttindi minnihlutahópa skoluðust inn hugmyndir um að málstaðurinn væri svo mikilvægur að þagga þyrfti niður í þeim sem ekki fylgdu straumnum. Og hjá sumum urðu eðlilegar væntingar um nærgætni og tillit í samskiptum smám saman að óumsemjanlegum kröfum um að tiplað væri á tánum í kringum móðgunargirni og viðkvæmni. Í kringum Covid komu svo upp dæmi á Vesturlöndum þar sem raunverulegum þöggunartilburðum var beitt til þess að trufla ekki þau skilaboð sem stjórnvöld töldu nauðsynlegt að allir fylktu sér á bak við. Það er mikilvægt að læra rétta lexíu af þessum óheppilegu hliðarskrefum síðustu ára.
Tjáningarfrelsið er nefnilega ekki alltaf þægilegt eða skemmtilegt. Það getur verið freistandi að vilja banna það sem manni finnst óþægilegt að heyra og velmeinandi fólki tekst stundum að sannfæra sjálft sig um að áróður og skoðanir annarra séu svo hættulegar að það sé einfaldara að loka á þær en að svara þeim. En þetta er háll stígur sem leiðir fljótt í öngstræti.
Tjáningarfrelsi eru mannréttindi og þar með eru þau fyrir manneskjur og það flækir raunveruleikann að samfélagsmiðlar eru krökkir af alls kyns efni sem gervigreind, algóriþmar og tölvubottar dæla út algjörlega án þess að skeyta um sannleika og oftast í þeim tilgangi að ala á sundrungu og hatri. Það er verulegt áhyggjuefni að eins og sakir standa er þessi mengun á upplýsingaumhverfi okkar nánast óviðráðanleg gagnvart lögum og rétti. En þetta er þó ekki kjarninn í þeirri umræðu um tjáningarfrelsi sem nú á sér stað. Sú umræða snýst ekki um tjáningarfrelsi, þar sem einungis fólk getur verið frjálst, ekki vélar.
Í gegnum aldirnar hafa öll mannleg samfélög glímt við það vandasama viðfangsefni að finna jafnvægi milli algjörlega frjálsrar tjáningar og þess að einstaklingar þurfi að taka ábyrgð á orðum sínum. Ekki þarf mikla sögulega þekkingu til að sjá að verstu samfélög mannkynssögunnar eiga sameiginlegt að hafa gengið einna lengst í því að bæla niður frjálsa hugsun og tjáningu. Hvort sem kúgunaröflin kalla sig kommúnista, fasista, nasista eða talibana – þá fylgja þau öll sömu forskrift þegar kemur að tjáningarfrelsinu; og hún er að gera glæpsamlega alla þá hugsun, tal og tjáningu sem velgir ríkjandi valdhöfum undir uggum.
Eigin hagsmunir stjórnvalda eru þó sjaldnast hin opinera ástæða ritskoðunar og heilaþvottar heldur er talað um „hatursorðræðu“, „öfga“ og „hryðjuverkaáróður“ eða einhverjum öðrum hugmyndafræðilega óvinsælum merkimiða klínt á andófsfólk. Nasistar segja að allir andstæðingar séu kommúnistar, kommúnistar segja að allir sem malda í móinn séu fasistar og ólýðræðisleg stjórnvöld um allan heim halda því fram að mótmælendur sem kalla eftir frelsi séu handbendi heimsvaldastefnu Vesturlanda. Pútín Rússlandsforseti er sérlega áhugasamur um að vara við hættunni af öfgafólki og hryðjuverkamönnum, og klínir þeim hugtökum á allt það hugrakka sómafólk sem þorir að standa gegn honum. Ef það dugir ekki hefur þetta fólk tilhneigingu til þess að detta útum glugga eða vera byrlað eitur.
Því miður er það pólitískur veruleiki á Vesturlöndum í dag að hugtakinu „tjáningarfrelsi“ er oftast veifað bæði af ysta hægri og ysta vinstri eftir eigin hentugleika en ekki hugsjón. Margir sömu hægrimenn og bentu réttilega á hættulega slaufunarmenningu síðustu ára virðast ekki kippa sér upp við að æðstu ráðamenn í Bandaríkjunum heimti að slökkt sé á grínistum sem strjúka forsetanum öfugt. Á ysta vinstrinu hefur verið hlakkað yfir örlögum þeirra sem orðið hefur fótaskortur á tungunni og hlotið fyrir það útskúfun eða starfsmissi.
Tjáningarfrelsið er undirstaða allra annarra mannréttinda og án þess eru raunverulegar framfarir óhugsandi. Samfélag sem kæfir tjáningu er ekki bara leiðinlegra, heldur líka óréttlátara og óhagkvæmara heldur en það sem tryggir borgurunum þessi mikilvægustu réttindi einstaklingsins. Þrátt fyrir öll þau óþægindi sem tjáningarfrelsið getur valdið þá blikna þeir ókostir í samanburði við ábatann. Frelsi til að tjá sig er nauðsynlegt til þess að skapa list, gera vísindalegar uppgötvanir, fara ótroðnar slóðir í viðskiptum, veita valdafólki aðhald og bjóða upp á valkosti við ríkjandi öfl. Allt sem breytir heiminum til hins betra krefst fyrst frjálsrar hugsunar og svo frjálsrar tjáningar.
Sannir talsmenn tjáningarfrelsis eru því fólk eins og skopmyndateiknarar franska skopritsins Charlie Hebdo, sem móðga alla jafnt – og reyndar Kolbrún Bergþórsdóttir hér á Íslandi, sem rís upp til varnar öllum sem reynt er að þagga niður í, hvort sem hún er sammála þeim eða ekki. Orð Voltaire’s um að hann væri tilbúinn til þess að deyja fyrir rétt andstæðinga sinna til að tjá skoðanir sem honum fannst sjálfum fyrirlitlegar, fela nefnilega í raun í sér þá einu afstöðu til tjáningarfrelsis sem er samkvæm sjálfri sér.