
Í nokkur ár hefur mér verið boðin þátttaka á ýmsum alþjóðlegum viðburðum sem leiða saman áhrifafólk í öryggis- og varnarmálum í heiminum. Fyrsta slíka upplifunin var ógleymanleg í ljósi þess að Öryggisráðstefnan í München var átti sér stað nokkrum dögum fyrir allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Zelenskí Úkraínuforseti ávarpaði fundinn og borgarstjórinn í Kænugarði, hnefaleikakappinn Vítalí Klitschko var áberandi á göngum hótelsins þar sem ráðstefnan var haldin. Hann gnæfði yfir flesta og leit út fyrir að vera eins konar eins manns varnarlið en var áhyggjufullur á svip því um þrjú hundruð þúsund rússneskir hermenn voru þá komnir að landamærum Úkraínu. Pútín lofaði að þeir hefðu ekkert misjafnt í hyggju og of margir sérfræðingar og stjórnmálamenn Evrópu voru tilbúnir til þess að trúa. Þá voru það hins vegar Bandaríkjamenn sem gengu lengst í því að vara Evrópumenn við því að gleypa agnið á Kremlarlínunni. Þeir gengu lengra en nokkur fordæmi eru fyrir í því að sýna heiminum leynileg njósnagögn og gengust við því að trúverðugleiki þeirra var skaddaður eftir Íraksstríðið. Samt var stemmningin í München almennt á þá leið að allsherjarinnrás væri ólíkleg. Flestir vildu trúa því að liðssöfnuður Pútíns væri eins og munnsöfnuður Medvedevs, fyrst og fremst yfirborðsskvaldur, ætlað til þess að hrista upp í hlutum, hræða og skapa samningsstöðu. Það var erfitt að reikna út sviðsmynd þar sem það gæti verið Pútín og Rússlandi til framdráttar að gera raunverulega innrás í nágrannaríki. En flestir gerðu þau mistök að halda að heimsmyd Rússlandsforseta byggðist á sömu forsendum og þeim sem veruleiki lýðræðislega kjörna leiðtoga Vesturlanda lýtur.
Fyrir utan að flestir virtust telja innrásina sjálfa ólíklega var nánast fullvissa um að ef Pútín léti verða af hótunum sínum þá ætti Úkraína engan möguleika til að verjast. Algjör samhljómur var meðal allra helstu sérfræðinga að Kænugarður myndi falla á örfáum dögum. Nánast enginn utan Úkraínu var í minnsta vafa um hvernig stríðið myndi þróast, nema einna helst fulltrúar Eystrasaltsríkjanna, en orð þeirra voru nánast afskrifuð sem hálfgerðir órar.
Í aðdraganda stíðsins grunaði mig að Bandaríkin hefðu því miður rétt fyrir sér. Íslenskir fjölmiðlar báðu mig um að spá í stöðuna, sem ég hef jafnan verið ófús til þess að gera. Þessi atburðarás var eins alvarleg og hugsast gat. Sú heimsmynd sem er grundvöllur fullveldis og sjálfstæðis Íslands var í uppnámi. Spekingaspjall eða spádómar mínir um atburðarásina voru hvorki gagnlegar eða tímabærar. Hins vegar vandaði ég mig við að minna á mikilvægi þess fyrir Ísland að landamæri og lögsaga ríkja væru virt, og þess vegna kæmið það okkur Íslendingum sannarlega við ef Rússar létu verða af hótunum sínum.
Ég var á þessum tíma nýlega tekin við embætti utanríkisráðherra og steig inn í veröld sem ég þurfti að læra á eins hratt og ég gat. Ég fann mjög til ábyrgðar minnar sem fulltrúi Íslands á tímum sem virtust vera að taka á sig örlagaríka mynd. Ég lagði því mig fram um að fylgjast með, hlusta á það sem sagt var, horfa á hvernig fólk bar sig – og segja sem minnst nema um það sem ég taldi mig hafa raunverulega þekkingu á. Ómeðvitað fylgdi ég leiðbeiningum Hávamála um að mæla þarft eða þegja. Undir niðri rifjuðust upp senur úr bók Stefans Zweig, Veröld sem var, sem lýsir hruni friðsællar heimsmyndar í upphafi tuttugustu aldarinnar og hraðri leið til grimmdar og eyðileggingar. Tækist leiðtogum samtímans að komast hjá því að slíkt gæti endurtekið sig, spurði ég sjálfa mig – og spyr enn.
Í síðustu viku tók ég þátt í sambærilegri öryggis- og varnarmálaráðstefnu í Varsjá þar sem ég sat meðal annars í pallborði með Ben Wallace, sem var varnarmálaráðherra Bretlands þegar stríðið hófst, og Rob Bauer aðmíráli, sem þá var yfirmaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins. Þar ræddi Wallace meðal annars um mikilvægi þess að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er – en láta ekki glepjast af óskhyggju. Það kann að hljóma nokkuð einfeldningslegt, en af þeirri reynslu sem ég hef öðlast á þessum vettvangi er ég smeyk um að einmitt í þessu liggi mikilvægasti boðskapur sem valda- og áhrifafólk heimsins þarf að heyra og temja sér. Það gildir vitaskuld líka um okkur á Íslandi.
Stóru línurnar í þeirri umræðu sem nú á sér stað í Evrópu eru býsna skýrar. Í fyrsta lagi er sá raunveruleiki að renna upp fyrir sífellt fleirum að Úkraína sé líklega einn mikilvægasti bandamaður Evrópu ef á reynir. Í öðru lagi er vaxandi skilningur á því vinaþjóðir Úkraínu brugðust í upphafi stríðsins. Miklar skorður á vopnasendingum í upphafi stríðsins, þegar flestir töldu Úkraínu ekki eiga séns, komu í veg fyrir að Úkraína næði að vinna aftur nánast allt hernumið land á fyrstu tveimur árum stríðsins. Í þriðja lagi þá hefur orðið eðlisbreyting í því hvernig rætt er um öryggi Evrópu. Fyrir örfáum misserum var það varla gert án þess að Bandaríkin væru miðdepill umræðunnar. Um þessar mundir eru Bandaríkin sjaldnar og sjaldnar nefnd í því samhengi.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands eru ómetanleg og við höfum tekið hvoru tveggja sem sjálfgefnum hlutum um langa hríð. Saga heimsins gefur þó ekki tilefni til værukærðar og þess vegna þurfum við að vera tilbúin til þess að meta af yfirvegun og raunsæi hvernig við getum best tryggt frelsið og fullveldið innan heimsmyndar sem er að gjörbreytast býsna hratt, vera verðugir bandamenn og vinna okkar heimavinnu.