Í ávarpi mínu á Iðnþingi í vikunni nefndi ég að heimsfaraldurinn hefur sett verðmætasköpun rækilega á dagskrá. Það er engin örugg formúla til um hárrétt viðbrögð til að lágmarka skaðann af faraldrinum, en leiðin til að bæta skaðann og rísa aftur upp er vel þekkt: verðmætasköpun og nýsköpun.
Að finna upp hjólið
Öll þekkjum við orðatiltækið: Það er óþarfi að finna upp hjólið.
Reyndar tókst sniðugum lögfræðingi í Ástralíu að fá einkarétt á hjólinu árið 2001 – eða því sem hann kallaði í einkaleyfisumsókn sinni: „hringlaga tæki til samgöngunota“. En þetta gerði hann bara í þeim tilgangi að sýna fram á að glænýtt sjálfvirkt einkaleyfakerfi stjórnvalda væri meingallað og auðvelt að svindla á því!
Ef við lítum fram hjá þessari skemmtilegu undantekningu eigum við alls ekki að finna upp hjólið. Við eigum ekki að strita við að leysa hluti sem er búið að leysa. Við eigum að nýta þær lausnir sem þegar hafa sannað sig.
En þetta þýðir ekki að við getum lagt árar í bát. Við þurfum stöðugt að leitast við að finna upp nýja hluti – nýjar lausnir – næsta hjól.
Sú viðleitni er lykillinn að verðmætasköpun.
Það vill svo til að við vitum hvað þarf til að skapa efnahagsleg verðmæti í frjálsu samfélagi. Hugvit, einkaframtak, réttarríki, frjáls viðskipti. Þetta eru þeir þættir sem verða að vera til staðar. Ef einhver þessara lykilþátta er ekki fyrir hendi er útilokað að hjól verðmætasköpunar og hjól atvinnulífsins geti snúist.
Við þekkjum hvað þarf til. Með öðrum orðum: Hjól atvinnulífsins eru hjól sem við þurfum ekki að finna upp.
Að hámarka afköstin
En þrátt fyrir það er ekki öllum spurningum svarað um það hvernig við látum þessi hjól snúast með sem mestum afköstum; með sem mestum ávinningi; með sem mestum árangri fyrir markmið okkar.
Þetta var reyndar líka raunin með hjólið þegar það var fyrst fundið upp. Mönnum datt ekki strax í hug að setja það undir vagna og nýta það í samgöngur. Til þess þurfti viðbótar-hugvit og vinnu. Það þurfti að smíða vagna. Og til að hægt væri að nota vagnana þurfti að leggja vegi.
Á nákvæmlega sama hátt er ekki endilega augljóst hvernig við virkjum best sköpunarkraft hugvits, einkaframtaks og frjálsra viðskipta til verðmætasköpunar.
Ein stærsta spurningin snýst um hlutverk ríkisvaldsins.
Hlutverk ríkisins
Við sem erum hægra megin í stjórnmálum höfum litið svo á að hlutverk ríkisvaldsins sé aðallega að leggja breiða og greiða vegi til að hjól verðmætasköpunar og atvinnulífs geti runnið greiðlega áfram, með sem minnstri mótstöðu. Þetta gerum við með því að tryggja athafnafrelsi, lágmarka skriffinnsku og skrifræði, og síðast en ekki síst með því að halda skattlagningu í hófi.
Við höfum þó líka viðurkennt að ríkið eigi að gera meira en bara að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. Ríkið eigi líka að glæða og örva gangverkið með beinum hætti og beinlínis ýta á eftir vagninum.
Þetta gerum við til dæmis með því að fjármagna menntakerfið, eina mikilvægustu grunnstoð hugvits, og með því að styðja við rannsóknir og þróun, bæði í gegnum háskóla, annað stuðningsumhverfi, samkeppnissjóði og með beinum endurgreiðslum á kostnaði fyrirtækja við rannsókna- og þróunarstarf.
Í einstaka tilvikum beitum við ívilnunum eða ríkisstyrkjum til ákveðinna atvinnugreina, ef alveg sérstök rök mæla með því.
Á sama tíma og ég tel að þessi stuðningur geti verið skynsamlegur, þá eigum við líka alltaf að hafa augun á þeirri staðreynd, að áhrifin af miklum umsvifum ríkisins geta verið fljót að breytast úr því að glæða yfir í það að kæfa.
Góð þróun?
Ég hef beitt mér fyrir því að ríkið styðji í auknum mæli við ýmsa starfsemi, ekki síst á sviði rannsókna og þróunar, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar. En ég hef líka beitt mér fyrir afnámi styrkja á þessu sviði og endurskoðun á stofnanaumhverfinu með það fyrir augum að laga það að nýjum kröfum.
Ég hef almennt efasemdir um mikinn ríkisstuðning við atvinnustarfsemi en við sjáum vaxandi þróun í þá átt sem setja má spurningarmerki við. Styrkjakerfi til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hefur nú þegar verið innleitt í útgáfu á tónlist og nú síðast í bókaútgáfu, og fjölmiðlar eru líka komnir á styrki. Mér finnst ég heyra of margar raddir úr atvinnulífinu um sífellt meiri ríkisstuðning, og ég hlýt að spyrja mig hvert þessi þróun muni leiða.
Það er full ástæða til að spyrja hvort við séum að stefna í þá átt að áhersla ríkisins verði í of miklum mæli á að ýta vagninum, fremur en að taka hindranir úr veginum.