Höldum áfram að lækka skatta

Á árunum 2009 til 2013 voru innleiddar á Íslandi eitt hundrað og níu skattahækkanir, samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs. Á sama tímabili voru aðeins gerðar átján skattalækkanir. Þetta er nánast hrollvekjandi staðreynd.

Strax á fyrsta heila ári Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn eftir kjörtímabil látlausra skattahækkana af hálfu vinstrimanna voru aftur á móti gerðar tuttugu breytingar á skattkerfinu til lækkunar. Tveimur fleiri á því eina ári en næstu fimm ár á undan samanlagt.

Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram að lækka álögur á einstaklinga með myndarlegum hætti, fái hann til þess fylgi.

Lítum aðeins á skattbyrði millistéttarinnar. Hagstofan birti nýverið upplýsingar um meðallaun á Íslandi í fyrra. Þau reyndust hafa verið 667 þúsund krónur á mánuði. Hjón sem bæði hafa þessi laun greiða í dag af þeim tekjuskatt sem nemur samtals 4.643.592 krónum á ári.

Ef tekjuskattskerfið sem síðasta vinstristjórn skildi eftir sig árið 2013 – með milliþrep tekjuskatts upp á rúmlega 40% – væri ennþá við lýði, þá myndu sömu hjón borga 4.987.632 krónur í tekjuskatt af sömu launum. Munurinn er hvorki meiri né minni en 344 þúsund krónur. Það er dágóð summa, sem skattalækkanir okkar Sjálfstæðismanna hafa fært þessu fólki.

Fyrir talnaþyrsta má geta þess að í dæminu er skattkerfið frá 2013 látið bjóða upp á sömu krónutölu í persónuafslátt og gildir í dag, og tekjumörk ólíkra skattþrepa eru uppreiknuð með vísitölu neysluverðs frá 2013 fram á þennan dag. Þannig er tekjuskattskerfinu frá 2013 varpað inn í nútímann og það gert samanburðarhæft við núverandi kerfi.

Við ætlum að halda áfram á þessari braut. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka neðra þrep tekjuskatts úr tæpum 37% niður í 35%. Lítum aðeins á hvað það þýðir fyrir hjónin í dæminu hér að ofan, sem bæði hafa meðallaun.

Jú, eftir breytinguna munu þau greiða 4.333.032 krónur í tekjuskatt á ári. Það er 310 þúsund krónum minna en þau greiða í dag.

Það sem meira er: Með þessu verða skattgreiðslur þeirra 655 þúsund krónum lægri á ári heldur en ef skattkerfið sem vinstristjórnin skildi eftir sig hefði verið látið standa.

Það er ekkert smáræði sem hér er verið að færa millistéttinni. Heilar 655 þúsund krónur á ári í beinharða aukningu ráðstöfunartekna til hjóna með meðaltekjur.

Á sama tíma boðar Vinstrihreyfingin – grænt framboð skattahækkanir upp á 50-70 milljarða króna og Samfylkingin segist taka undir slíkar hugmyndir. Fyrirætlunin er skjalfest svart á hvítu í breytingartillögu Vinstri grænna við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar síðastliðið vor. Það er erfitt að sjá raunhæfar leiðir til að ná fram svo tröllaukinni viðbótarskattheimtu. Formaðurinn talar um að taka hluta hennar með arði frá bönkunum en það er bara gert einu sinni.

Hvernig sem þessi skattahækkunarherferð vinstrimanna verður útfærð er alveg morgunljóst að það verður ekkert svigrúm til þess að lækka skatta á millistéttina eins og Sjálfstæðisflokkurin hefur verið að gera og ætlar að halda áfram að gera.

Hvergi á Norðurlöndum er jöfnuður tekna og eigna meiri en á Íslandi. Fullyrðingar um að skattahækkanir séu nauðsynlegar til að laga stórkostlegan ójöfnuð eiga því ekki við rök að styðjast. Skattheimta á Íslandi er raunar nú þegar með því mesta sem þekkist í þróuðum ríkjum og umsvif hins opinbera eru mun hærra hlutfall af landsframleiðslu en að meðaltali innan OECD. Látum ekki leiða okkur í algjörar ógöngur í þessum efnum og höldum frekar áfram á þeirri vegferð að minnka álögur á fólk og fyrirtæki.