Hring­ferð fyrir kröftugt at­vinnu­líf

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er forsenda hagsældar og velferðar og þar munar ekki síst um lítil og meðalstór fyrirtæki í verslun, þjónustu, framleiðslu og nýsköpun af öllum toga. Slíkur rekstur er í raun lífæð atvinnulífsins og mikilvægt að slíkum fyrirtækjum vegni vel. Þess vegna leggur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sérstaka áherslu á að heimsækja lítil og meðalstór fyrirtæki í hringferð sinni um landið að þessu sinni.

Þingflokkurinn heimsækir tugi sveitarfélaga á næstu vikum, heldur opna fundi og heimsækir vinnustaði. Það styrkir okkur í okkar störfum að hitta fólkið í landinu og heyra þeirra sögur og sjónarmið. Kjördæmavikan, þegar hlé er gert á þingstörfum, hefur jafnan gefið þingmönnum tækifæri til að sinna eigin kjördæmum. Hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur breytt þessu en nú fara allir þingmenn flokksins saman um landið allt. Þannig heyra þingmennirnir þau sjónarmið sem brenna á fólki, á hverjum stað og í hverju kjördæmi. Þetta gefur okkur heildstæða sýn á hagsmuni fólksins í landinu, hvort sem er til sjávar eða sveita, landsbyggðar eða höfuðborgarsvæðis.

Hringferðin hefst í Reykjavík

Hringferðin hefst í höfuðborginni á fimmtudagskvöldið 6. febrúar á Kaffi Reykjavík með ávörpum formanns og oddvita flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Að því loknu gefst fólki tækifæri til að eiga milliliðalaust spjall við alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Sami háttur verður hafður á um landið allt á næstu vikum en strax á föstudaginn liggur leiðin vestur á firði, þaðan verður farið um allt Norðurland og yfir á Austfirði. Þetta er bara fyrsti leggur ferðar en markmiðið er sem fyrr að heimsækja sem flest byggðarlög landsins.

Við erum á réttri leið og hlökkum til ferðalagsins.

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins.