Hugsum bæði til skemmri og lengri tíma

Áhrif covid-faraldursins leggjast nú á samfélag okkar með auknum þunga. Vonandi rætast þær spár sem benda til að hámarkinu verði náð um miðjan þennan mánuð. En jafnvel þótt þær geri það mun faraldurinn reyna mjög á þolgæði okkar frá degi til dags.

Um leið þurfum við að hafa augun á framtíðinni, reyna að sjá fyrir okkur hvernig verður umhorfs eftir að flóðbylgjan hefur fjarað út og hugleiða hvaða lærdóm megi draga af þessum atburðum.

Næstu vikur verða áskorun

Tæpur hálfur mánuður er frá því að hert samkomubann tók gildi. Það gerbreytti daglegu lífi í landinu, enda var það tilgangurinn.

Þetta reynir á okkur með ýmsum hætti. Félagslegur aðskilnaður er þungbær og nú gildir það ekki bara um þá sem eru veikir, smitaðir eða í sóttkví heldur alla landsmenn upp að einhverju marki. Þá eru sífellt fleiri í tvísýnni stöðu á vinnumarkaði eða hafa jafnvel misst störf sín. Ekki þarf að fjölyrða um álagið á þá sem standa í framlínunni, heilbrigðisstarfsfólk og fleiri.

Við erum ekki hálfnuð með þetta tímabil stífra takmarkana á samskiptum, sem í dag er ráðgert að vari til 4. maí. Við verðum því að halda vel utan um hvert annað og gefa af okkur eins og við getum. Þó að aukið framboð á afþreyingarefni sé lofsvert er líka ljóst að við munum ekki „streyma okkur í gegnum þetta“. Mestu skiptir að við hugum að samskiptum við fjölskyldu og vini eins og kostur er með þeim leiðum sem í boði eru.

„Það er til samfélag“

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands lét þau orð falla að faraldurinn hefði sýnt okkur fram á að það væri til fyrirbæri sem héti samfélag.

Með þessu vísaði Johnson til frægra orða Margrétar Thatcher sem sagði árið 1987 að það væri ekkert til sem héti samfélag, aðeins einstaklingar. Vel má vera að orð hennar hafi flogið hærra á sínum tíma en tilefni var til og að þau hafi jafnvel stundum verið slitin úr samhengi en það eru samt tíðindi að Boris Johnson skuli beinlínis andmæla þeim með þessum hætti nú.

En það er líka önnur hlið á málinu sem ég myndi vilja benda á. Á sama hátt og faraldurinn sýnir fram á að það er eitthvað til sem heitir samfélag þá sýnir hann líka fram á það að samfélag þrífst ekki án atvinnulífs.

Sterkt atvinnulíf, og sú verðmætasköpun sem þar fer fram, er forsenda velferðarkerfis. Og sterkt velferðarkerfi er ein af forsendum öflugs samfélags. Allt hangir þetta saman og það kemur berlega í ljós nú þegar atvinnulífið hefur snöggkólnað þannig að þess eru fá ef nokkur dæmi.

Vissulega blasir þetta þó misjafnlega skýrt við fólki, eins og söguleg og kannski afdrifarík óeining innan ASÍ síðustu daga ber með sér.

En það er einmitt í þágu endurreisnar atvinnulífsins – og þannig velferðarinnar og samfélagsins – sem ég skrifaði í gær undir samning við Íslandsstofu um alþjóðlegt markaðsátak af áður óþekktri stærðargráðu, sem verður ráðist í um leið og aðstæður á mörkuðum leyfa.

Langtímaáhrif

Sagnfræðingurinn Yuvel Noah Harari benti á það í athyglisverðri grein í Financial Times á dögunum að faraldurinn kynni að valda varanlegum breytingum á samfélagi okkar. Ástæðan er sú að í viðleitni okkar til að bregðast við faraldrinum er gripið hratt til mjög róttækra ráðstafana, sem við venjulegar aðstæður kæmu ekki til álita eða tæki a.m.k. mörg ár að þróa, ræða og samþykkja.

Hann hvetur til þess að ákvarðanir dagsins í dag miðist ekki eingöngu við bráðahættuna sem að okkur steðjar heldur líka langtímaáhrif sem þær kunna að hafa.

Mikilvægustu álitamálin eru að hans mati tvenns konar: Annars vegar hversu víðtækar eftirlitsheimildir við færum ríkisvaldinu til að hemja útbreiðslu faraldursins og hins vegar hvort við veljum alþjóðlega samvinnu eða lokum okkur af, hver þjóð út af fyrir sig. Þetta er verðug áminning.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að alþjóðasamvinna sé svarið fremur en einangrun. Þess vegna hafði ég í vikunni frumkvæði að fjarfundi norrænna viðskiptaráðherra til að ræða hvort og þá hvernig Norðurlöndin gætu haft samvinnu um endurreisnina að loknum faraldri. Viðtökurnar voru framar vonum.

Það er undir okkur komið að draga réttan lærdóm af þessum fáheyrðu atburðum. Það mætti hugsa sér verri lexíu en mikilvægi þess að efla samskipti bæði einstaklinga og þjóða.