Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Árangur og áherslur við hálfnað kjörtímabil

Umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra, 11. september 2019.

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn.

Mér segir svo hugur að við séum öll dálítið svekkt í dag. Í gær töpuðum við fyrir Albaníu í fótbolta með markatölu sem ég vil síður nefna. Albanía er u.þ.b. bil átta sinnum fjölmennara land en Ísland. Hvernig má það vera að við séum í þeirri stöðu að vera svekkt yfir því að tapa fyrir átta sinnum fjölmennari þjóð? Vissulega eru 11 í hvoru liði en fjölmennari þjóðir ættu að öllu jöfnu að eiga fleiri góða leikmenn en við. Ástæðan er að sjálfsögðu ekki sú að við séum svona ofboðslega góð í fótbolta frá náttúrunnar hendi. Nei, ástæðan er sú að á Íslandi hlúum við að hæfileikum hvers og eins. Á Íslandi fær óvenjulega hátt hlutfall einstaklinga tækifæri, svigrúm, aðstöðu og stuðning til að þroska hæfileika sína til fulls. Ef hægt væri að reikna þetta hlutfall út er ég viss um að við værum með eitt það hæsta sem um getur. Og þetta skiptir einmitt meira máli en flestir aðrir mælikvarðar, að við náum því mesta út úr mannauði okkar með því að búa til jarðveg og umhverfi þar sem fólk hefur tækifæri.

Það er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálanna að sjá til þess að þjóðfélagið sé með þessum hætti. Hið opinbera ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á hamingju hvers og eins. En það skiptir máli að gefa sem flestum tækifæri, ekki eingöngu með útgjöldum sem kalla á hærri skatta heldur líka með því að þvælast sem minnst fyrir og veita þannig athafnasemi og framtaki sem greiðastan farveg. Við gerum þetta aðallega í þágu einstaklingsins sjálfs til að hámarka hamingju hans, lífskjör og lífsgæði, en við gerum þetta líka okkar allra vegna af því að þetta er eitt af því sem gerir þjóðfélagið gott og farsælt og auðugt í margvíslegustu merkingu þess orðs.

Góðir landsmenn.

Fjármálaráðherra kynnti fyrir nokkrum dögum fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Ein helstu tíðindin í frumvarpinu eru að tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður hraðar en áður stóð til að gera þannig að lækkunin kemur að fullu fram árið 2021. Hvað þýðir þetta fyrir almenning? Jú, ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um rúmlega 120.000 kr. á ári. Samtals mun ríkissjóður skila um 21 milljarði á ári til skattgreiðenda eða, réttara sagt, hætta að taka þessa fjárhæð af þeim. Þetta er u.þ.b. einn tíundi af öllum tekjuskatti einstaklinga og þess vegna er um að ræða stórkostlega skattalækkun öllum til hagsbóta. Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Það styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja að lækka þannig skatta á fyrirtæki um 8 milljarða kr.

Við erum ekki bara að lækka skatta heldur líka að stórauka fjárfestingar í innviðum, m.a. með stórsókn í vegamálum. Slíkar fjárfestingar eru bæði brýnar í sjálfu sér og koma auk þess vel til móts við þróunina í hagkerfinu. Fjárfestingar verða þannig um 50% meiri á næsta ári en þær voru í fjárlögum ársins 2017 á föstu verðlagi. Þetta er inngjöf sem munar verulega mikið um. Og það sem meira er, og sem betur fer, við höfum efni á þessu. Til viðbótar erum við að auka framlög til margra málaflokka, ekki síst heilbrigðis- og félagsmála. Lengra fæðingarorlof og hærri barnabætur, aðgerðir til að auðvelda íbúðakaup, bætt mönnun í hjúkrun, uppbygging hjúkrunarrýma og hvatar til að stuðla að atvinnuþátttöku aldraðra. Nefna mætti fleiri dæmi.

Átak í orkuskiptum, sem forsætisráðherra minntist hér á, stendur mér nærri. Þar erum við að taka stór skref til móts við framtíðina og tryggja að við verðum áfram í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að því að nýta vistvæna orku í stað jarðefnaeldsneytis. Það er jákvætt fyrir loftslagsmál heimsins. Það er jákvætt fyrir ímynd Íslands. Það er jákvætt fyrir loftgæði í nærumhverfi okkar. Það er jákvætt fyrir orkuöryggi þjóðarinnar. Það er jákvætt fyrir viðskiptajöfnuð landsins. Og það er jákvætt fyrir buddu hvers einstaklings.

En eins mikilvægt og það er að helstu samfélagslegu stuðningskerfi okkar séu sterk er sömuleiðis alveg ljóst að við getum ekki haldið áfram að stórauka framlögin til þeirra með núverandi hraða út í hið óendanlega. Við getum ekki verið eins og bílaframleiðandinn sem stækkar bara vélina og eykur eldsneytisnotkun til að fá fleiri hestöfl. Við þurfum að auka afköstin á snjallari og útsjónarsamari hátt, leita nýrra leiða, útrýma sóun og auka skilvirkni í þessum kerfum okkar. Þetta er ekki einfalt verkefni, og ekki alltaf vinsælt, en það er nauðsynlegt ef við ætlum að hafa ráð á því að veita framtíðarkynslóðum jafn góða og betri þjónustu en við gerum í dag. Fjárframlögin mega ekki vera helsti mælikvarði okkar á árangur eins og mér finnst við í þessum sal allt of mikið tala út frá, að það sé eingöngu mælt í því, ekki frekar en að sá bíll sé bestur sem eyðir mestu bensíni. Við verðum að horfa meira á hversu langt við komumst á lítranum.

Kæru landsmenn.

Ég vil að lokum víkja nokkrum orðum að trausti til Alþingis og stjórnmálanna. Það er auðvitað óviðunandi að Alþingi sé á meðal þeirra stofnana samfélagsins sem almenningur treystir síst. Við þingmenn verðum að líta í eigin barm hvað þetta varðar, við berum sjálf mesta ábyrgð, en ég vil líka skora á landsmenn að missa ekki móðinn gagnvart stjórnmálunum. Ef við sem almennir borgarar hættum að fylgjast með af því að okkur misbýður vitleysan, hættum að taka þátt, hættum að tjá okkur, hættum jafnvel að kjósa, skiljum við bara eftir pláss á sviðinu sem aðrir munu nýta sér. Og sú niðurstaða mun verða okkur enn þá síður að skapi. Stjórnmálin eiga vissulega ekki að vera of fyrirferðarmikil í daglegu lífi fólks en víðtæk þátttaka í hinum óvenjulega og kannski einstaka málfundi sem heitir Ísland, þar sem flestir eru að tala um sömu mál, flestir eru ágætlega upplýstir um það sem er til umræðu og flestir segja skoðun sína með einum eða öðrum hætti — hin víðtæka þátttaka í þessum stóra málfundi þjóðfélagsumræðunnar er að mínum dómi eitt dýrmætasta einkenni okkar þjóðfélags og gefur okkur miklu betri niðurstöðu en ella væri. Höldum í þetta góða einkenni og höfum áfram trú á getu okkar til að leiða fram góða niðurstöðu í sameiningu frekar en að gefast upp og láta þá sem hafa hæst og nota stærstu orðin eiga sviðið.

Ég er stolt af því að tilheyra ríkisstjórn sem er mynduð á breiðum grunni og gerir beinlínis þá kröfu til þeirra sem að henni standa að eiga gott samtal, pólitískar rökræður, horfa á hlutina með öðrum hætti, með nýjum hætti, komast að niðurstöðu og taka ákvarðanir.

Það hefur nú þegar skilað áþreifanlegum árangri sem landsmenn finna fyrir og mega enn vænta eins og sjá má af þeim áformum sem kynnt hafa verið og komandi þingvetur nýtist til að vinna að.