11. ágúst, 2016

Hver er Þórdís Kolbrún?

Hver er Þórdís Kolbrún?

Ég er 28 ára lögfræðingur og starfa sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Eftir síðustu alþingiskosningar hóf ég störf sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og starfaði með þingflokknum til loka árs 2015 eða þar til Ólöf Nordal varð innanríkisráðherra og réði mig sem aðstoðarmann í innanríkisráðuneytið. Ég hef jafnframt kennt stjórnskipunarrétt sem stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2013. 

Ástæða þess að ég býð mig fram er einföld: Ég hef áhuga á stjórnmálum, þau eru skemmtileg, krefjandi og gefandi. Ég trúi því að með einföldum og sanngjörnum leikreglum megi hvetja fólk áfram til góðra verka og verðmætasköpunar, öllum til heilla.

Ég er fædd og uppalin á Akranesi en ættuð af Vestfjörðum. Móðir mín, Fjóla Katrín Ásgeirsdóttir (sjúkraliði) er dóttir Ásgeirs Hannessonar frá Ármúla í Ísafjarðardjúpi og Þórdísar Katarínusardóttur frá Arnadal í Skutulsfirði. Faðir minn, Gylfi R. Guðmundsson (þjónustustjóri) er sonur Guðmundar Helga Ingólfssonar frá Hnífsdal og Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur frá Ísafirði, búsett í Reykhólasveit.

Ég á þrjá bræður, elstur er Hörður Gylfason búsettur á Hvammstanga, giftur Guðrúnu Helgu Marteinsdóttur frá Hvammstanga. Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason búsettur í Garðabæ í sambúð með Jóhönnu Ásgeirsdóttur frá Varmalandi í Borgarfirði. Yngstur er Gylfi Veigar Reykfjörð Gylfason búsettur á Akranesi, í sambandi með Heiði Heimisdóttur frá Akranesi.

Ég er í sambúð með Hjalta Sigvaldasyni Mogensen lögmanni og eigum við Marvin Gylfa, fæddan 2012. Foreldrar Hjalta eru Kristín I. Mogensen kennari frá Selfossi og Sigvaldi Þorsteinsson, sjómaður frá Reykhólum.

Ég gekk í Brekkubæjarskóla og ég æfði sund með ÍA í áratug. Menntaskólinn minn var Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi (2003-2007) en ég dvaldi í Vínarborg í Austurríki sem skiptinemi á mínu þriðja skólaári. Árið 2007 hóf ég nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík, útskrifaðist þaðan með BA próf í lögfræði árið 2010 og meistarapróf frá sama skóla árið 2012 en dvaldi eina önn í Salzburg í Austurríki í skiptinámi.

Önnur störf sem ég hef unnið af hendi eru m.a. hjá Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála (nú Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála) sem laganemi og síðar lögfræðingur. Önnur sumur í laganámi starfaði ég m.a. hjá Marel á lögfræðisviði og hjá Sýslumanninum á Akranesi. Á menntaskólaárunum starfaði ég m.a. sem flokksstjóri í unglingavinnunni á Akranesi og við ýmis þjónustustörf.

Félagsstörf

Áhuginn á að hafa áhrif á samfélagið í kringum mig hefur líklega alltaf verið mikill. Ég hef þess vegna haft gaman að og verið virk í ýmis konar félagsstörfum – einhvern veginn æxlaðist það bara þannig. 

Sjálfstæðisflokkurinn

        Umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins

        Kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2013

        Skipaði 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2013

        Varamaður í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2014 – 2016

 

        Kjörnefnd fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akranesi 2009 – 2010

        Varamaður í kjördæmisráði Norðvesturkjördæmis 2009 – 2010

        Stjórn SUS, sambands ungra sjálfstæðismanna, 2007 – 2009

        Skipaði 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi eftir þátttöku í prófkjöri flokksins fyrir alþingiskosningar 2009

        Stjórn Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, 2007 – 2010

        Formaður Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi 2008 – 2009

        Umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar 2008

        Skipaði 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2007

 

Annars konar félagsstörf

        Ég hef verið virk í félgsskap Deiglunnar og skrifar þar nokkrar greinar: http://www.deiglan.is/author/thordis/

        Ritstjóri Tímarits Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík 2009 – 2010

        Stjórn Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík 2009 – 2010

        Kosningastjórn Pawels Bartoszek til stjórnlagaþings 2010

–         Ýmis konar þátttaka í félagslífi á skólaárum