Kría – súrefni fyrir frumkvöðladrifna nýsköpun

Áræði, þor, hugrekki. Þetta voru forsendur þess að Ísland byggðist. Allt heimsins hugvit á sviði skipasmíði og siglingafræði hefði verið einskis virði ef enginn hefði þorað að leggja af stað.

Svipað gildir um frumkvöðladrifna nýsköpun í dag. Hún kallar á mikið áræði og enn meira úthald, oft í andstreymi og mótvindi. Sem betur fer höfum við séð marga ná til lands og skapa með því bæði störf og verðmæti.

Gangverk verðmætasköpunar

Áhætta gegnir stærra hlutverki í gangverki efnahagslegrar verðmætasköpunar en kannski margir gera sér grein fyrir. Færa má rök fyrir því að stærsti drifkraftur verðmætasköpunar á Vesturlöndum a.m.k. síðustu hundrað árin hafi verið auknir möguleikar einstaklinga til að taka áhættu – til að sýna áræði. Þetta gerðist með nýjum möguleikum til fjármögnunar og trygginga og auðvitað með hinu tiltölulega nýtilkomna fyrirbæri sem við köllum hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð. Allt þetta og fleira leysti úr læðingi óhemjusterka krafta framtaks, nýsköpunar og verðmætasköpunar sem eiga sér upptök hjá einstaklingum en gagnast öllu samfélaginu.

Nýjar leiðir skapa ný tækifæri

Nýjungar í fyrirkomulagi viðskipta, ekki síst fjármögnunar, hafa úrslitaáhrif um það hvaða möguleika hugvit og framtak hafa til að ryðja hina grýttu braut framfara, nýsköpunar og aukinnar hagsældar.

Svo að aftur sé vikið að siglingum er það ekki tilviljun að margt í skipulagi nútíma viðskipta á rætur sínar í áhættusömum langsiglingum fyrri tíma. Nýjar leiðir til að dreifa áhættu (fjármögnun, hlutakerfi, tryggingar o.fl.) sköpuðu ný og byltingarkennd tækifæri.

Á sama hátt var það skortur á fjármögnun sem hindraði lengi vel innreið nútímans í atvinnuháttum Íslendinga. Nýjar fjármögnunarleiðir, einkum með tilkomu Íslandsbanka, áttu stóran þátt í margvíslegri nútímavæðingu atvinnulífs Íslendinga í upphafi tuttugustu aldar.

Vísifjármögnun

Hundrað árum síðar er það enn og aftur fremur nýleg tegund fjármögnunar (með gamlar rætur þó) sem á hlut að máli í sögu flestra mikilvægustu, framsæknustu og mest brautryðjandi nýju fyrirtækja samtímans. Það er ekki tilviljun að þessi fjármögnun hefur mest rutt sér til rúms í Sílikondal í Kaliforníu, höfuðstöðvum nýsköpunar í heiminum.

Á ensku er þessi fjármögnunarleið kölluð „Venture Capital“ eða „VC“, borið fram „ví-sí“. Nærtækast er að kalla hana „vísifjármögnun“ á íslensku, enda má segja að fjárfestingarstefna slíkra sjóða endurspeglist í orðtakinu „mjór er mikils vísir“.

Í stuttu máli er um það að ræða að áhættuþolnir einkafjárfestar taka að sér að auka úthald nýsköpunarfyrirtækja sem eru komin úr hreiðrinu (og jafnvel orðin stór) en ekki orðin nógu vel fleyg til að eiga kost á hefðbundinni fjármögnun. Oft er þetta vegna þess að viðskiptahugmyndir þeirra byggjast fyrst og fremst á hugviti. Í samfélagi þar sem sífellt stærri hluti verðmæta byggist einmitt á hugviti er ljóst að þau samfélög sem hafa fjárhagslega innviði til að styðja við þess háttar starfsemi standa þeim framar sem hafa þá ekki.

Í heimi vísifjárfestinga er ætlast til þess að fjárfestar komi ekki bara með fjármagn að borðinu heldur líka viðskiptaþekkingu, reynslu og tengsl, sem eykur möguleika á árangri enn frekar. Í Bandaríkjunum hafa flest þeirra fyrirtækja sem hraðast vaxa notið stuðnings vísifjárfesta og á Íslandi eru nokkur dæmi um fyrirtæki sem hefur tekist að útvega sér vísifjármagn. Þeirra á meðal eru Meniga, CCP, Valka, Oculis, Kara Connect, Plain Vanilla og Sidekick Health.

Árangurinn af vísifjármögnun í Bandaríkjunum, einkum í Sílikondal, talar sínu máli. Fyrirtæki sem komist hafa á legg með þessum hætti hafa skapað verulegan hluta allra nýrra starfa þar í landi.

Mörg önnur lönd hafa freistað þess að skapa jarðveg fyrir svipaða þróun og þykir Ísrael hafa náð hvað bestum árangri. Á Íslandi hafa sem betur fer orðið til fáeinir sjóðir af þessu tagi á undanförnum árum en að óbreyttu er hætta á stöðnun á þeim vettvangi, einmitt þegar það blasir við að þörfin fyrir slíkt fjármagn fer vaxandi.

Nýsköpunarlandið Ísland

Fyrir nokkrum vikum kynnti ég nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem unnið hefur verið að undanfarið ár. Í þessari viku voru svo kynntar fyrstu aðgerðirnar sem styðja við stefnuna. Ein sú veigamesta er að greiða götu vísifjármögnunar með nýjum hvatasjóði sem kallast Kría.

Hlutverk Kríu verður að örva tilurð nýrra vísisjóða með því að hafa umtalsvert fé til umráða fyrir þátttöku í þeim – á þriðja milljarð króna á þremur árum samkvæmt fjármálaáætlun. Skýr skilyrði verða fyrir þátttöku enda er markmið stjórnvalda ekki síst að stuðla að því að umhverfi vísifjárfestinga á Íslandi þroskist í takt við það sem gerist og gengur í alþjóðlegu umhverfi.

Við ætlum ekki að draga markaðinn í einhverja tiltekna átt heldur láta markaðinn ráða og styðja við hann þar sem hann vill sjálfur vera. Einkafjármagnið tekur áfram mestu áhættuna en við ætlum að gera hana viðráðanlegri og freista þess að hjálpa til við að koma af stað jákvæðri keðjuverkun þar sem afrakstur vel heppnaðrar fjárfestingar nýtist til enn frekari uppbyggingar.

Þetta er afgerandi skref en við upphaf umróts fjórðu iðnbyltingarinnar eru slík skref nauðsynleg í þágu frumkvöðladrifinnar nýsköpunar, eins og ríkisstjórnin gaf strax í upphafi fyrirheit um í nýsköpunarmiðuðum stjórnarsáttmálanum.

Verðmætasköpun framtíðarinnar byggist á hugviti. Efnahagslegt sjálfstæði okkar og fullveldi veltur þess vegna að verulegu leyti á því að við tökum afgerandi stöðu með hugvitinu. Þannig búum við íslenskt samfélag undir áskoranir framtíðarinnar.