Metnaðarfullur sáttmáli um nýsköpun, sókn og framfarir

Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar, sem kynntur var á fimmtudag, hefur mælst vel fyrir. Í honum eru sett fram sérstaklega metnaðarfull markmið í velferðar-, mannréttinda- og loftslagsmálum og einnig boðuð kröftug sókn í uppbyggingu innviða um allt land og stórefling heilbrigðis- og menntakerfa.

Í sáttmálanum er að finna um það bil 100 aðgerðir og áherslur. Að sjálfsögðu fá ekki allir allt sem þeir vildu, enda um að ræða samstarf þriggja ólíkra flokka sem spanna hið pólitíska litróf frá vinstri til hægri. Ég tel þó að allir geti mjög vel við unað og tek undir með þeim sem hafa orða það þannig, að þeir séu mjög hlynntir langflestum þessara hundrað aðgerða og missi ekki svefn yfir neinni þeirra.

Fyrir kosningar var Sjálfstæðisfólk mest uggandi yfir miklum skattahækkunum sem mögulega yrðu á dagskrá ef vinstriflokkar kæmust til valda. Ein megináhersla Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni var að þessu þyrfti að afstýra. Það er því ánægjulegt hvernig til hefur tekist varðandi þau mál í stjórnarsáttmálanum. Lýst er yfir vilja til að lækka neðra þrep tekjuskatts. Það eru mikil og góð tíðindi þótt útfærsla og tímasetningar verði háðar kjarasamningum.

Þetta er þó ekki það sem hlotið hefur mesta athygli. Líklega er óhætt að segja að áherslur sáttmálans á nýsköpun hafi fengið best og sterkust viðbrögð, sem er mjög ánægjulegt og réttmætt. Ég tel að þrennt ráði mestu um viðbrögðin.

Í fyrsta lagi sá skilningur á sívaxandi mikilvægi nýsköpunar og hugvits sem birtist í þessum orðum stjórnarsáttmálans: „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.“

Í öðru lagi sú staðreynd að nýsköpun er ekki afmarkað viðfangsefni í stjórnarsáttmálanum heldur nefnd í samhengi við fjölda annarra málaflokka, sem endurspeglar vel hvernig nauðsynlegt er að nálgast þessi mál til að ná raunverulegum árangri. Talað er um mikilvægi nýsköpunar í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og rótgrónum atvinnugreinum á borð við landbúnað og sjávarútveg. Boðuð er heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland, sem mótuð verði á þverpólitískum grunni í samráði stjórnmálaflokka, atvinnulífs, vísindasamfélags og skólasamfélags, og nefnt að hún verði samþætt við framtíðarsýn í menntamálum frá leikskóla til háskóla.

Í þriðja lagi sá vaxandi stuðningur sem boðaður er við rannsóknir og þróun. Það skiptir væntanlega mestu að lýst er yfir vilja til að afnema þak sem verið hefur á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar, en flest ef ekki öll okkar kröftugustu þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki hafa kalla mjög sterkt eftir afnámi þess.

Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að halda áfram sem ráðherra nýsköpunarmála, ekki síst þegar lagt er af stað með eins gott veganesti og felst í þessum stjórnarsáttmála. Ég mun gera mitt besta til að láta framtíðarsýn hans verða að veruleika þannig að með réttu megi tala um þessa ríkisstjórn sem „nýsköpunarstjórnina hina síðari“. Framtíð íslensks samfélags veltur að verulegu leyti á hvernig til tekst í þessum efnum og það mun aftur ráðast af góðu samstarfi margra ráðuneyta, atvinnulífsins og vísinda- og fræðasamfélagsins.

Þótt stjórnarsáttmálinn sé sums staðar almennt orðaður, eins og oft vill verða, eru eins og áður segir í honum um það bil 100 beinharðar aðgerðir og verkefni sem ég hvet fólk til að kynna sér. Upptalning á þeim öllum, í stysta mögulega skeytastíl, yrði næstum þrisvar sinnum lengri texti en þessi blaðagrein mín. Það gefur ágæta hugmynd um að ríkisstjórnin ætlar að láta hendur standa fram úr ermum og stendur sameinuð um mjög mörg framfaramál.

Eins og sagði í yfirskrift á kynningu á sáttmálanum er hér um að ræða samstarf um sterkara samfélag. Við erum samfélag í sókn og ef við nálgumst verkefnið af ábyrgð er bjart framundan.