Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lést í liðinni viku. Hann var orkumálastjóri í tæpan aldarfjórðung eða frá 1973 til 1996 og tók eftir það áfram virkan þátt í þjóðmálaumræðu um orkumálefni.
Skýr og afgerandi sjónarmið hans um stóriðju voru áberandi í greinaskrifum hans. Ferill hans sem orkumálastjóri, verkfræðingur og prófessor var þó auðvitað miklu fjölbreyttari en sú mynd gefur til kynna. Í eftirmælum um Jakob á vef Orkustofnunar er t.d. minnt á að hann var einn þeirra sem leiddu stórfellt átak í hitaveituvæðingu þjóðarinnar á áttunda áratugnum, sem gerði olíuhitun að mestu óþarfa og hefur allar götur síðan sparað þjóðinni tugi milljarða í olíukaupum, fyrir utan umhverfislegan ávinning.
Þar segir einnig: „Segja má að Jakob Björnsson hafi með störfum sínum leitt starf á sviði orkumála á tímum umbrota, mikilla breytinga og framfara með velgengni og farsæld fyrir þjóðina.“ – Ég tek heilshugar undir þessi orð.
Margvíslegur ávinningur af stóriðju
Oft hefur verið deilt um arðsemi orkusölu til stóriðju. Áður en vikið er að henni er rétt að benda á að ávinningurinn liggur víðar.
Í fyrsta lagi uppbygging hagkvæmra stórvirkjana og öflugs flutningskerfis raforku um landið, sem þjóðin öll nýtur góðs af. Þetta hefði líklega verið vonlaust verkefni án stóriðju og í öllu falli margfalt dýrara. Forsenda þess að Alþjóðabankinn lánaði okkur fyrir Búrfellsvirkjun var að traustur kaupandi var að stórum hluta orkunnar, þ.e. álver ISAL í eigu svissneska félagsins Alusuisse. Í dag stendur stóriðjan undir meirihluta kostnaðar við flutningskerfi Landsnets. Segja má að við hin fljótum í ákveðnum skilningi með í kerfi sem væri miklu veikara og/eða dýrara án hennar.
Í öðru lagi koma erlend fyrirtæki með margvíslega nýja þekkingu og „kúltúr“ til landsins. Í tilfelli stóriðjunnar stendur öryggismenningin upp úr. Enginn vafi er á því að ISAL og síðan önnur stóriðja hefur stuðlað að bættri öryggismenningu í íslenskum iðnaði og atvinnulífi almennt.
Í þriðja lagi hefur þjónusta við stóriðju verið uppspretta nýsköpunar og nýrra fyrirtækja, sem sum hver hafa haslað sér völl erlendis. Nefna má tölvu- og tæknifyrirtæki, vélsmiðjur, verkfræðistofur og auðvitað alls kyns fyrirtæki í orkutengdri starfsemi.
Í fjórða lagi er það í þágu loftslagsmála að heimurinn nýti sem mest af endurnýjanlegum orkuauðlindum. Stóriðjustefnan hefur því verið jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála, ekki neikvætt eins og sumir halda fram.
Í fimmta lagi er stóriðja þrátt fyrir allt fremur stöðug. Gríðarleg fjárfesting liggur að baki sem ekki verður rifin upp með rótum svo glatt, öfugt við ýmsa aðra starfsemi. Og sveiflurnar geta jafnað út aðrar sveiflur í hagkerfinu. Það sýndi sig m.a. eftir bankahrunið, en ISAL var mögulega eina fyrirtækið sem réðst í tugmilljarða fjárfestingarverkefni beint í kjölfar þess.
Innlend útgjöld
Lítill vafi er á því að sjálf orkusalan hefur orðið arðbærari með hækkandi verði. Það er ekki óeðlilegt að verð hækki með tímanum; að afslættir séu einkum í boði í upphafi. Og það er ekki stefna okkar að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna til þess að fá störf í staðinn, sem hefur verið nálgunin í a.m.k. einhverjum tilvikum í Kanada svo dæmi sé tekið.
En við mat á beinum efnahagslegum ávinningi af stóriðju má heldur ekki einblína á orkusöluna eina og sér. Samkvæmt tölum frá Samáli hafa orkukaup álveranna þriggja verið í námunda við 40 milljarða á ári en heildarútgjöld þeirra – laun, opinber gjöld og vörur og þjónusta fyrir utan orkuna – stundum náð 90-100 milljörðum.
Tölur um ISAL segja svipaða sögu; orkan eitthvað nálægt 15 milljörðum og önnur útgjöld um eða yfir 10 milljörðum.
Auðvitað er augljóst að enginn getur látið sér detta það í hug að selja orkuna frekar um sæstreng án þess að taka allan þennan auka-ávinning með í reikninginn.
Jafnaugljóst er að það væri vitleysa að útiloka um alla framtíð að það reikningsdæmi geti einhvern tímann gengið upp og banna skoðun á því.
Viðkvæmir tímar
Eigendur ISAL hafa tilkynnt að til greina geti komið að hætta starfsemi vegna þess að ekki sjáist fram úr gríðarlegum taprekstri. Það væri alvarleg niðurstaða fyrir marga. Vert er að hafa í huga að þeir sem ekki hafa orkusamning fyrirtækisins fyrir framan sig geta aldrei lagt nema takmarkað mat á þessa stöðu. Og þeir sem þekkja hann mega ekki tjá sig um hann.
Ég hef áður vakið máls á því að skynsamlegt væri að auka gagnsæi um orkusamninga. Það er forsenda vitrænnar umræðu í stað misvel ígrundaðra ágiskana um samkeppnishæfni okkar, þar sem gerólík sjónarmið heyrast. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess með því að fá óháð erlent greiningarfyrirtæki til að kortleggja samkeppnisstöðu stóriðju með áherslu á orkuverð. Það verður fróðlegt að rýna í niðurstöður hennar í vor.