Næstu grænu skref

Undur veraldar í klassískri fornöld voru mannvirki, öll sjö með tölu. Aðeins eitt þeirra, píramídi Keops í Giza, stendur enn.

Ætli við Íslendingar skiljum eitthvað sambærilegt eftir okkur sem mun endast í þúsund ár og lengur? Já, ég tel að svo sé. Framlag okkar verður náttúran. Við munum leggja það af mörkum að standa vörð um helstu náttúruminjar þannig að tryggt sé að komandi kynslóðir fái notið þeirra.

Annað mögulegt framlag okkar til komandi kynslóða væri ef Ísland yrði fyrsta þróaða landið til að segja skilið við jarðefnaeldsneyti. Þetta stóra græna skref yrði að vísu ekki sýnilegt með sama hætti og mannvirki og náttúruperlur en áreiðanlega lengi í minnum haft sem sögulegur áfangi.

Við stöndum nokkuð vel að vígi hvað þetta varðar en eigum samt öfluga keppinauta. Noregur, Paragvæ og Kosta Ríka eru allt lönd sem framleiða nær alla sína raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum rétt eins og við. Portúgal og Danmörk hafa einnig náð þessu takmarki í skamman tíma, þegar veðurfar var tímabundið mjög hagstætt. Svíþjóð á lengra í land en stefnir engu að síður opinberlega að því að verða „eitt fyrsta velferðarríki heims“ til að hætta að nota jarðefnaeldsneyti. Það yrði slys ef við Íslendingar yrðum seinni til.

Það er ekki ýkja langt í að þetta verði raunhæft. Drægni rafbíla, ekki eingöngu þeirra dýrustu heldur einnig ódýrari gerða, eykst hröðum skrefum. Sú staða virðist bókstaflega handan við hornið að þeir gefi bensínbílum ekkert eftir í drægni. Spennandi framfarir eiga sér stað hvað skipin varðar og margt í deiglunni. Flugið á lengra í land (ef svo má segja!); flestir giska á 30 ár eða svo.

Þetta er spennandi framtíð og yrði heillaskref bæði fyrir samfélagið og umhverfið. En til að geta stigið skrefið þurfum við bæði orku og betri innviði til að koma henni til skila þangað sem hennar er þörf.

Óskynsamlegt er að horfa til orkunnar sem núverandi stórnotendur kaupa því að arðbær orkusala til þeirra, fyrir hærra verð en áður, skilar okkur miklum ávinningi. Landsvirkjun – sem er með álíka stóran efnahagsreikning og allur sjávarútvegurinn – hefur lækkað skuldir sínar um 100 milljarða á fáeinum árum á sama tíma og fyrirtækið hefur byggt nýjar virkjanir. Þessi fjárhagslegi styrkur byggist á viðskiptum við stóriðjuna. Því er að sjálfsögðu æskilegt að hún verði áfram burðarás í orkusölu landsins, nú þegar fyrirséð er að svigrúm sé að myndast til verulegra arðgreiðslna til ríkisins, jafnvel um 10-20 milljarða á ári. (Fyrir utan annan efnahagslegan ávinning.)

Niðurstaðan er því að þörf er á meiri orku og ekki síður meiri og betri innviðum til að flytja hana. Framkvæmdirnar sem þetta kallar á eru gjarnan umdeildar. Við skulum þó ekki ganga svo langt að segja að allar framkvæmdir mæti andstöðu. Nú standa til dæmis yfir tvær framkvæmdir við orkuöflun, stækkun Búrfellsvirkjunar og bygging Þeistareykjavirkjunar. Friður er um þær báðar. Næsta virkjun þar á undan, Búðarhálsvirkjun, var líka óumdeild. Þetta skyldum við hafa hugfast áður en við ætlum fólki þá óbilgirni að vera „á móti öllu“. Að sama skapi dettur engum í hug að „virkja allt“ og jafn óþarft að gera fólki upp slíkan ásetning.

Lykilatriði er að við berum virðingu fyrir sjónarmiðum hvert annars og þeim leikreglum sem við höfum komið okkur saman um, til að mynda um rammaáætlun.

Það skýtur skökku við að þótt við séum í fremstu röð í grænni orkuframleiðslu þarf trekk í trekk að grípa til þess ráðs á Vestfjörðum að framleiða rafmagn með olíu vegna rafmagnstruflana. Hvað sem öðru líður eru áreiðanlega flestir sammála um að þetta er óviðunandi staða. Allmargir smærri og meðalstórir virkjunarkostir eru á Vestfjörðum auk þess sem styrkja þarf flutningskerfið. Þarna eru græn skref sem þarf að stíga.