Nýsköpunarstefna kynnt

Getan til að skapa ný verðmæti er líklega mikilvægasta einkenni blómlegs og mannvænlegs samfélags. Þá á ég ekki eingöngu við efnahagsleg verðmæti, sem mælast í landsframleiðslu og kaupgetu, heldur einnig menningarleg og samfélagsleg verðmæti sem hafa úrslitaáhrif á hversu vel fólki líður.

Það var með stolti sem ég kynnti í vikunni nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, framtíðarsýn um hvernig við viljum að „Nýsköpunarlandið Ísland“ líti út árið 2030. Grunnstef stefnunnar er sú trú að framtíðarvelmegun þjóðarinnar byggist á því að búa til ný verðmæti. Þau munu ekki koma upp í hendurnar á okkur eða falla okkur sjálfkrafa í skaut.

Fulltrúar allra þingflokka komu að gerð stefnunnar sem og fulltrúar úr atvinnulífi og vísinda- og háskólasamfélaginu, auk ráðuneytis nýsköpunar. Formaður stýrihóps var Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrum yfirmaður vöruþróunar Google Assistant.

Fimm hornsteinar

Niðurstaðan er að við þurfum fimm hornsteina til að byggja upp Nýsköpunarlandið Ísland: hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauð. Hverjum og einum hornsteini er ítarlega lýst í stefnunni og þar eru sett fram næstum 100 stefnumið, áherslur og aðgerðir um þá.

Nýsköpunarstefna verður auðvitað aldrei afgreidd endanlega með einni skýrslu, afmörkuðum lista af hugmyndum, einni yfirhalningu á stofnanaumgjörð eða neinum þess háttar allsherjarlausnum. Sýn stjórnvalda verður því að snúast um nálgun og aðferð frekar en eingöngu um einstakar aðgerðir.

Tíu leiðarljós

Stefnan leggur okkur einnig til tíu svohljóðandi leiðarljós: 1) Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. 2) Nýsköpun er samofin menningu, samfélagi og efnahagslífi. 3) Þykjumst ekki vita það sem ekki er hægt að vita. 4) Ósigrar eru óhjákvæmilegir en uppgjöf er óásættanleg. 5) Engar lausnir eru endanlegar. 6) Nýsköpun er ekki línulegt ferli. 7) Nýsköpun er forsenda lífsgæða í fortíð, nútíð og framtíð. 8) Fjármagn á að renna til rannsókna og frumkvöðla fremur en í umsýslu og yfirbyggingu. 9) Áherslan þarf að vera á árangur fremur en útgjöld og fyrirhöfn. Og síðast en ekki síst: 10) Þegar við horfum út í heim þá horfir heimurinn til okkar.

Ekki lúxus heldur nauðsyn

Geta samfélagsins til að skapa verðmæti með nýsköpun er ekki lúxus eða viðbót við það sem kallast hefðbundinn atvinnurekstur. Það sem þykir hefðbundið í dag byggist að sjálfsögðu á nýsköpun og hugviti fyrri tíma. Öll framþróun, í öllum atvinnugreinum, byggist alltaf og alls staðar á einhvers konar nýsköpun. Málið snýst því ekki um iðnað eða nýsköpun, ferðaþjónustu eða nýsköpun, sjávarútveg eða nýsköpun, landbúnað eða nýsköpun – heldur nýsköpun í iðnaði, nýsköpun í ferðaþjónustu, nýsköpun í opinberri þjónustu og svo framvegis.

Sýn og aðgerðir

Það myndi brjóta í bága við sjálft eðli nýsköpunar að setja stefnu um hana fram sem einhvers konar tæmandi lista yfir það sem þurfi að gera í eitt skipti fyrir öll. Engu að síður eru beinar aðgerðir þó vitaskuld veigamikill þáttur í stefnumótuninni. Ég mun á næstunni kynna nokkrar þeirra aðgerða sem ég hef trú á að efli nýsköpunarumhverfi Íslands með afgerandi hætti. Þær verða kynntar á tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins í nóvember. Nýsköpunarstefna þarf að vera þess eðlis að ekki sé tjaldað til einnar nætur og ekki bara til eins kjörtímabils. Hér hefur að mínu mati verið vandað það vel til verka með víðtæku samráði að stefnan á að geta staðið sem leiðarljós langt út fyrir núverandi kjörtímabil og núverandi ríkisstjórn.

Það hefur verið ánægjulegt að finna góða samstöðu í stýrihópi um mótun stefnunnar. Ég kann öllum í hópnum mínar bestu þakkir fyrir sitt framlag og einnig verkefnastjórninni og öllum þeim frumkvöðlum, fyrirtækjum og öðrum hagaðilum í nýsköpunarumhverfinu sem lögðu okkur lið. Vonandi mun áfram eiga sér stað uppbyggileg samvinna um þær hugmyndir og aðgerðir sem kynntar verða á grundvelli þessarar vinnu á komandi mánuðum.

Grundvöllur góðra lífskjara og velsældar

Við höfum alla burði til að vera virkir og fullgildir þátttakendur í hröðum og síbreytilegum heimi nýsköpunar og tæknibreytinga. Það er áskorun sem við þurfum að takast á við til að tryggja framúrskarandi lífskjör og velsæld á Íslandi á komandi áratugum. Nýsköpunarstefnan sem kynnt var í vikunni gerir okkur að mínu mati betur í stakk búin til þess en nokkru sinni fyrr.