Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um nýliðna helgi var sannkölluð hátíð. Vel á annað þúsund landsfundarfulltrúa af öllu landinu komu þar saman til að skerpa á stefnunni með kröftugu málefnastarfi, styrkja vinaböndin og mynda ný. Samstaða og gleði einkenndi fundinn alla þrjá dagana sem hann stóð.
Formaður flokksins og ritari fengu endurnýjað umboð með glæsilegri kosningu. Sjálf er ég snortin yfir miklum stuðningi við framboð mitt til varaformanns, sem var meiri en ég hafði leyft mér að vona. Ég hlakka til að takast á við nýtt hlutverk og geng stolt og glöð til nýrra verka.
Fyrirspurn um „blóðugan niðurskurð“
Daginn eftir að landsfundi lauk sat ég fyrir svörum á Alþingi ásamt öðrum ráðherrum í óundirbúnum fyrirspurnum. Í pontu steig Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og beindi spurningu til mín sem nýkjörins varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Spurning hans var í stuttu máli þessi: Samkvæmt landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins skal stefnt að því að útgjöld hins opinbera lækki úr 45% af landsframleiðslu árið 2016 niður í 35% árið 2025. Til að ná því markmiði þarf að skera niður útgjöld um 260 milljarða króna. Hvernig í ósköpunum ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að ná fram þessum 260 milljarða niðurskurði, sem er einhver sá blóðugasti í manna minnum?!
Tökum eftir því að „niðurskurður“ var það eina sem kom til greina í huga þingmannsins.
Munurinn í hnotskurn
Nálgun Ágústs Ólafs í þessari fyrirspurn opinberaði í hnotskurn muninn á hægrimönnum og vinstrimönnum. Vinstrimönnum hættir til að vera svo uppteknir af því að skipta kökunni að þeir gleyma hve mikilvægt er að skapa meiri verðmæti til að stækka kökuna.
Reikningsdæmið er sáraeinfalt og ætti að blasa við öllum, líka Ágústi Ólafi. Til að lækka opinber útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu er annaðhvort hægt að lækka útgjöldin eða auka landsframleiðsluna og stækka kökuna.
Enda benti ég Ágústi Ólafi á að samkvæmt hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins væri það meginverkefnið að stækka kökuna.
LSR millifærslan
Lítum nánar á markmiðið í nýrri landsfundarályktun. Upphafspunktur hennar miðast við árið 2016. Þegar við rýnum opinber útgjöld það ár kemur strax í ljós einstök 105 milljarða tilfærsla frá ríkissjóði yfir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Millifærslan var einskiptisaðgerð. Hún var svo stór og óvenjuleg að sett er sérstök neðanmálsgrein um hana í töflum Hagstofunnar, til að tölurnar valdi nú örugglega ekki misskilningi.
Þegar við leiðréttum fyrir einskiptisfærslunni stendur eftir að opinber útgjöld voru ekki 45,1% af landsframleiðslu heldur 40,8%. Það er svipað hlutfall og árið áður (41,7%), sem undirstrikar að hærri talan var frávik vegna einskiptisfærslunnar.
Ef kakan stækkar en útgjöld standa í stað
Skoðum þessu næst hvað er raunhæft að gera ráð fyrir að kakan stækki mikið. Fyrstu tíu ár ævi minnar jókst landsframleiðsla á mann, á föstu verðlagi, um liðlega 4%.
Næstu tíu ár jókst hún um 44% og næstu tíu ár þar á eftir um 6,6%. Gróflega má því segja að hún hafi að meðaltali aukist um 18% á hverjum áratug ævi minnar. Áréttað skal að þetta er á mann, og á föstu verðlagi.
Þetta rímar ágætlega við algengan vöxt landsframleiðslu á mann á föstu verðlagi í þróuðum ríkjum. Hann er oft nálægt 2% á ári eða 22% á hverjum tíu árum.
Skoðum hvað gerist ef kakan okkar stækkar um 18% næstu tíu árum en útgjöld hins opinbera aukast bara sem nemur verðbólgu og fólksfjölgun, og standa þannig einfaldlega í stað á mann á föstu verðlagi. Svarið er að útgjöldin verða þá 34,5% af landsframleiðslu.
Metnaðarfullt en raunhæft markmið
Eftir stendur að kaupmáttaraukning – launahækkanir umfram verðbólgu – mun setja þrýsting á opinber útgjöld. En til að ná markmiðinu þarf aðhaldið og niðurskurðurinn eingöngu að vega á móti því.
Og raunar er til önnur leið að markinu: að greiða niður skuldir. Vaxtagjöld hins opinbera árið 2016 voru 96 milljarðar. Án þeirra hefðu opinber útgjöld verið 36,9% af landsframleiðslu.
Við erum því með tvær leiðir að markinu og ef við beitum þeim báðum ættum við að geta lækkað hlutfallið enn meira en niður fyrir 35%.
Vissulega er markmiðið metnaðarfullt og hreint ekki auðvelt að ná því, en það er til marks um ótrúlega þröngsýni að fullyrða að það kalli á „blóðugan niðurskurð“. Gætum frekar aðhalds, lækkum skuldir og þar með vaxtagjöld, og umfram allt: sköpum meiri verðmæti.