Það var með stolti sem ég kynnti í vikunni árangur Íslands í baráttunni gegn Covid-19 fyrir á annað hundrað hagaðilum í ferðaþjónustu víðsvegar um heiminn, á fundi Alþjóðaráðs ferðaþjónustunnar, WTTC. Það sem ég var stoltust af að geta sagt frá var sú staðreynd að á Íslandi hefði okkur tekist að kveða niður bylgjuna, a.m.k. að sinni, án þess að loka grunnskólum, án þess að loka veitingastöðum, án þess að banna fólki að njóta útivistar – með öðrum orðum: án þess að loka samfélaginu.
Reynsla okkar undanfarnar vikur og mánuði hlýtur að vekja þakklæti innra með hverju og einu okkar fyrir það opna samfélag sem við búum í. Hún ætti líka að vera okkur hvatning til að hugleiða á hverju þeir styrkleikar byggja og hvað ógnar þeim.
Sundrungarárátta er ógn
Ég tel að sundrung sé ein helsta ógn hins opna samfélags. Nánar tiltekið sú tilhneiging að leita sér sífellt að óvinum og gera ágreining við þá að sínu stærsta og jafnvel eina viðfangsefni.
Ég er auðvitað ekki að segja að við eigum að vera sammála um allt. En við eigum ekki að búa til sem mestan ágreining af sem minnstu tilefni.
Ef við greinum sum ágreiningsmál samtímans, hér á landi og erlendis, kemur í ljós að stríðandi fylkingar eru vissulega ósammála um áherslur en meira og minna sammála um grundvallaratriði.
Lykilsetning hjá báðum hópum er eitthvað á þessa leið: „Að sjálfsögðu er ég sammála því, en aðalatriðið er að…“
Nokkrar dæmigerðar rökræður
Tökum nokkur dæmi:
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að hámarka tækifæri allra, en aðalatriðið er að auka verðmætasköpun.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að auka verðmætasköpun, en aðalatriðið er að hámarka tækifæri allra.“
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að verja málfrelsið, en aðalatriðið er að nota ekki orð sem særa aðra.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að nota ekki orð sem særa aðra, en aðalatriðið er að verja málfrelsið.“
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að verja réttarríkið, en aðalatriðið er að uppræta kynbundið ofbeldi.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að uppræta kynbundið ofbeldi, en aðalatriðið er að verja réttarríkið.“
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að mótmæla mannréttindabrotum, en aðalatriðið er að mótmælin breytist ekki í skemmdarverk og glæpi.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að mótmælin megi ekki breytast í skemmdarverk og glæpi, en aðalatriðið er að mótmæla mannréttindabrotum.“
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að líf svartra skiptir máli, en aðalatriðið er að líf allra skiptir máli.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að líf allra skiptir máli, en aðalatriðið (út af sottlu) er að líf svartra skiptir máli.“
„Að sjálfsögðu er ég sammála því að veita hælisleitendum skjól, en aðalatriðið er að yfirlesta ekki velferðarkerfið.“ / „Að sjálfsögðu er ég sammála því að yfirlesta ekki velferðarkerfið, en aðalatriðið er að veita hælisleitendum skjól.“
Að búa til óvini
Ef við erum meira og minna sammála um grundvallaratriðin, hvers vegna er þá deilt eins harkalega um þessi mál og raun ber vitni? Ástæðurnar eru tvær.
Í fyrsta lagi er raunverulegur áherslumunur til staðar. Hann ætti þó að vera hægt að ræða án æsings og stóryrða þannig að vandinn liggur annars staðar.
Vandinn liggur í tortryggni um að hinn hópurinn meini það sem hann segir í fyrri hluta setningarinnar. Að orðin „að sjálfsögðu er ég sammála því að…“ séu yfirvarp, innantóm orð til að drepa málum á dreif. Viðkomandi sé í raun og veru alls ekkert sammála því sem hann segist vera sammála.
Það er heilbrigt og eðlilegt að reyna að afhjúpa slíka hræsni. Að pota með rökum og beinskeyttum spurningum í málflutning „andstæðinga“ sinna til að athuga hvort hann er í raun og veru einlægur eða bara yfirvarp og plat.
En það er engum hollt að burðast með þá skaðlegu sýn á lífið að allir sem hafa aðrar áherslur séu þar með að ráðast á manns eigin grundvallargildi; að þeir séu óvinir sem sé mikilvægt að skjóta í kaf með öllum tiltækum ráðum.
Misstór en lærdómsrík dæmi
Útgáfufyrirtæki Bjarkar Guðmundsdóttur og fleiri tilkynnti nýlega að heiti þessi yrði breytt úr „One Little Indian“ af því að það sé tekið úr vísu sem einkennist af rasisma. Lexían er að það býr ekki endilega illur hugur á bak við það sem aðrir kunna að skynja sem árás; við erum öll að reyna að fóta okkur og læra.
Í vikunni var vísað til harðstjórnar nasista með notkun á hugtakinu „Berufsverbot“ vegna vals á ritstjóra tímarits. Lexían er að stundum virðast engin takmörk fyrir stóryrðum af litlu tilefni.
Þriðja dæmið, öllu stærra í sniðum, er auðvitað ástandið í Bandaríkjunum undanfarna daga. Sundrungin í því ágæta vinalandi okkar hlýtur að valda okkur bæði áhyggjum og sorg.
Fyrirsögn þessarar greinar er tilbrigði við heiti frægrar bókar austurríska heimspekingsins Karls Poppers, „Opna samfélagið og óvinir þess“. – Ég tel að á Íslandi séu sárafáir raunverulegir óvinir hins opna samfélags. Ég tel að þeir séu miklu færri en ætla mætti af opinberri umræðu. Við skulum endilega skjóta þá í kaf en spyrjum áður en við skjótum og gætum þess að snúa ekki í æsingi og fljótfærni baki við þeim sem eru þrátt fyrir allt samherjar okkar. Sjálfur æsingurinn er kannski hættulegasti óvinurinn.