Fræg eru ummæli William F. Buckley yngri, eins af hugmyndafræðingum bandarískra íhaldsmanna, sem sagðist frekar vilja búa í samfélagi sem stjórnað væri af fyrstu tvö þúsund einstaklingunum í símaskránni en tvö þúsund starfsmönnum Harvard-háskóla.
Tortryggni í garð „sérfræðinga“ er orðin nokkuð áberandi, bæði hér á landi og erlendis. Ein veigamesta ástæðan er ábyggilega sú skoðun að þeir bregði gjarnan fyrir sig titlum og gráðum til að sýnast hlutlausir boðberar óvéfengjanlegs sannleika sem varla megi gagnrýna eða rökræða, en séu í reynd að þjóna umdeilanlegum persónulegum sjónarmiðum, sannfæringu, málstað og jafnvel hagsmunum. Það eru ábyggilega ófá dæmi um slíkt.
Neistar efans og gagnrýnin hugsun
Ýmis dæmi um skeikulleika sérfræðinga hafa líka veikt tiltrú á þeim, og því meira sem þeir voru sjálfir sannfærðari og yfirlýsingaglaðari. Ekki bætir heldur úr skák þegar hrekkjalómum tekst að fá samhengislausar tilvitnanir í „Mein Kampf“ í bland við alls kyns merkingarlaust raus samþykkt sem fullgildar og birtingarhæfar vísindagreinar í ritrýndum fræðiritum, eins og nýlega bárust fréttir um.
Allt þetta minnir okkur á gildi þess að efast. Og hollt er að muna að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar eða að þeim verði jafnvel kollvarpað.
Það er nauðsynlegt gagnvart blindri sérfræðingatrú að minna á gildi almennrar skynsemi og gagnrýninnar hugsunar hvers og eins okkar. Ekki síst í ljósi þess að við höfum betri aðgang að upplýsingum en nokkru sinni fyrr, sem gerir okkur kleift að rannsaka mál, skoða frumheimildir og leita uppi fleiri sjónarhorn og sjónarmið en þau sem er haldið að okkur.
Þverpólitísk tortryggni
Vantraust á því sem mætti kalla „viðtekin skoðun“ í vísindasamfélaginu er ekki bundið við hægrimenn eða vinstrimenn. Sumir efast um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum; ekki er ólíklegt að hægrimenn séu fjölmennir í þeim hópi. Aðrir efast um skaðleysi erfðabreyttra matvæla; vafalaust eru í þeim hópi margir vinstrimenn. Hvorugur hópurinn treystir því sem meirihluti vísindamanna heldur fram. Og báðir hóparnir geta fundið á internetinu óteljandi vísbendingar um að þeir hafi rétt fyrir sér.
Málefni sem stendur mér nærri er tortryggni sumra gagnvart bólusetningum; tortryggni sem getur stofnað börnum viðkomandi sem og annarra í hættu. Ég efast um að hún fari mjög eftir stjórnmálaskoðunum, en hún er sannarlega dæmi um vantraust á ráðleggingum sérfræðinga.
Bandarískar kannanir sýna að tortryggni í garð sérfræðinga er ekki bundin við íhaldsmenn eða frjálslynda (eins og þau hugtök eru notuð þar í landi) en áhugavert er að dregið hefur í sundur með hópunum. Um og upp úr 1970 sagðist rétt rúmlega helmingur bæði íhaldsmanna og frjálslyndra bera mikið traust til vísindasamfélagsins. Um miðjan tíunda áratuginn byrjaði traustið að minnka meðal íhaldsmanna og sú þróun hefur haldið áfram. Árið 2014 sagðist aðeins rúmlega þriðjungur íhaldsmanna bera mikið traust til vísindasamfélagsins en sem fyrr rúmlega helmingur frjálslyndra.
Athyglisvert er að kannanir sýna að stuðningsmenn Brexit treystu áliti annarra á því máli miklu síður en þeir sem studdu áframhaldandi veru Bretlands í ESB. Skipti þá engu hvers kyns sérfræðinga var um að ræða – forystufólk úr viðskiptalífi, menntamenn, hagfræðinga, fulltrúa frá seðlabankanum, hugveitum eða alþjóðastofnunum – um hvern einasta hóp gilti að meirihluti Brexit-sinna vantreysti honum þegar kom að þessu tiltekna málefni. Hið gagnstæða gilti um andstæðinga Brexit; þeir hneigðust frekar til að treysta en vantreysta hverjum einasta af þessum hópum.
Auðveld bráð lýðskrumara?
Þó að við berum virðingu fyrir almennri skynsemi megum við ekki ganga svo langt að vantreysta sérfræðingum eingöngu vegna þess að þeir eru sérfræðingar. Við eigum ekki að fallast á að orðið sé gert að skammaryrði. Almenn skynsemi getur brugðist, rétt eins og álit sérfræðinga. Höfum líka hugfast að þeir sem gera lítið úr sérfræðingum eru oft sjálfir að reka áróður í þágu eigin hagsmuna og málstaðar – og eru síðan öllum að óvörum tilbúnir að treysta sínum eigin útvöldu sérfræðingum.
Lykilatriði er að greina á milli þeirra sem sveipa sig sérfræðititli til að stunda einskonar trúboð þar sem ekkert er til umræðu, og hinna sem eru tilbúnir í rökræðu. Ef við aftur á móti setjum sérfræðingana hreinlega út af sakramentinu verðum við auðveld bráð lýðskrumara. En sú var einmitt einkunnin – lýðskrumari – sem sjálfur William F. Buckley yngri gaf á sínum tíma tilteknum forsetaframbjóðanda, sem náði takmörkuðum árangri í það skiptið en kom löngu síðar öllum á óvart.