Sigrar og ósigrar

Það var við hæfi að á meðan nýafstaðin kosningabarátta stóð sem hæst skyldi lagið „B.O.B.A. vera vinsælasta lagið á Íslandi. Í aðdraganda kosninganna féll nefnilega hver b.o.b.an á fætur annarri. Augljóst var að kosningabaráttunni var ætla að snúast um b.o.b.ur, mögulega af því að málefnastaðan var ekki nægilega sterk.

Rykið settist. Kjósendur sáu flestir að skotin höfðu geigað. Yfirvegaður og skynsamlegur málflutningur náði eyrum fólks. Svör og skýringar sem komu heim og saman. Frjálslynd framfarastefna sem átti mikinn hljómgrunn. Með þetta að vopni, og undir styrkri og öruggri forystu formanns síns jók Sjálfstæðisflokkurinn fylgi sitt jafnt og þétt í skoðanakönnunum, þvert á það sem hefði mátt ætla með hliðsjón af orrahríðinni.

Stjórnarandstöðuflokkarnir, sem reyndu að notfæra sér b.o.b.urnar sem féllu á Sjálfstæðisflokkinn, bættu samanlagt nánast engu við sig. Rúmu prósenti í það heila.

Píratar töpuðu fleiri atkvæðum en Sjálfstæðisflokkurinn. Viðreisn tapaði fleiri atkvæðum en Sjálfstæðisflokkurinn. Björt framtíð tapaði fleiri atkvæðum en Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta eru minni flokkar og þess vegna þarf mikið til að breytingar hjá þeim verði umfangsmeiri í einstaklingum talið en hjá langstærsta flokknum. En það gerðist nú samt, enda misstu tveir þeirra meira en þriðjung kjósenda sinna og sá þriðji þurrkaðist út.

Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkur landsins og á áfram 1. þingmann í öllum kjördæmum. Úrslitin eru tvímælalaust varnarsigur fyrir flokkinn. Flokkurinn missti innan við fjögur prósentustig samanborið við síðustu kosningar en þó fimm þingmenn. Það gerðist vegna þess að nýting atkvæða Sjálfstæðisflokksins var óvenjugóð í fyrra og raunar sú besta hjá nokkrum flokki bæði þá og núna. Að þessu sinni nýttust atkvæði flokksins hins vegar illa. Þess vegna fækkaði þingmönnum flokksins meira en búast hefði mátt við miðað við úrslitin.

Það er mjög mikill missir að þeim þingmönnum öllum. Og raunar mörgum fleirum sem hverfa nú af Alþingi.

Nýtt þing verður eldra en hið fyrra. Körlum fjölgaði. Og flestir eru líklega sammála um að nýr þingmannahópur er á heildina litið íhaldssamari en sá fyrri. Ekkert af þessu er að mínu mati til bóta eins og nú er háttað. Þingið mátti illa við þessu eins og það var skipað.

Ég er ekki viss um að þetta endurspegli einhverja sérstaka „kröfu kjósenda“. Kjósendur senda ekki sameiginleg skilaboð heldur sendir hver og einn sín eigin sérstöku skilaboð, sem eru öll jafngild. Sá sem kýs það sama og síðast á þannig að hafa jafnsterka rödd og sá sem skiptir um skoðun. Þess vegna er það ósiður að gera of mikið úr sveiflum og lýsa menn „ótvíræða sigurvegara“ á grundvelli fylgisaukningar sem var jafnvel miklu minni en fylgi annarra flokka. Sveiflur skipta vissulega máli en ekki öllu máli.

Að þessu sinni varð af einhverjum ástæðum vart við einhvers konar íhaldsbylgju. Hún var að hluta til á kostnað vinstrimanna en að hluta til á kostnað frjálslyndis. Hægri vængurinn hefur alltaf haft báða hópa innanborðs, íhaldssama og frjálslynda. Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann gæti þess að höfða áfram til beggja. Það er hans styrkur og frjálslynt fólk þarf að eiga sterkar raddir innan hans.

Ég vil þakka þeim hundruðum og þúsundum einstaklinga sem lögðu hönd á plóg í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Enginn annar flokkur býr að öðru eins baklandi um allt land og það eru forréttindi að fá að starfa með því fólki, sem hefur sameiginlega hugsjón, lætur sig varða um samfélag sitt og tekur þátt í að móta það og bæta.