Núgildandi aðferð við álagningu veiðigjalds er að mörgu leyti gölluð. Álagning gjaldsins er í engum takti við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja þegar gjöldin eru lögð á, enda byggð á tveggja til þriggja ára gömlum upplýsingum. Þá hafa komið fram réttmætar ábendingar um að álagningin sé að hluta byggð á óáreiðanlegum gögnum. Afleiðingarnar birtast í flókinni og ófyrirsjáanlegri gjaldtöku sem er sérstaklega slæmt í ljósi þess að sjávarútvegur býr við umhverfi sem getur tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Það hefur enginn hag af því að búa einni af undirstöðuatvinnugreinum okkar Íslendinga skilyrði sem þessi.
Innantómir frasar
Frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um endurákvörðun veiðigjalds fyrir árið 2018 hefur það meginmarkmið að færa álagningu gjaldsins nær í tíma í stað þess að byggt verði á upplýsingum frá árinu 2015. Að miða þannig við nýrri upplýsingar sem fyrir liggja og endurspegla betur afkomu fyrirtækjanna. Sú breyting er fullkomlega eðlileg, enda hefur verið samhljómur meðal allra flokka um að núverandi fyrirkomulag sé óboðlegt. Formaður Viðreisnar tók til að mynda undir það sem sjávarútvegsráðherra í viðtali við RÚV síðastliðið sumar: Ég held að það sé eitthvað sem við hljótum að taka til endurskoðunar, reyna að hafa gögnin þannig að þau lýsi núverandi ástandi en ekki einhverju sem var fyrir einhverjum árum.
Við breytinguna kemur í ljós að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja hefur stórversnað á undanförnum árum. Þannig hefur EBITDA-afkoma þeirra fyrir árið 2017 lækkað um 20-37% frá fyrra ári samkvæmt úttekt Deloitte. Þá kemur fram í áliti veiðigjaldsnefndar að framlegð við veiðar hafi lækkað um 15-35%.
Þetta eru staðreyndir málsins. Innantómir frasar á Alþingi um grímulausa hagsmunagæslu eru einfaldlega rangir. Það væri óskandi að þingmenn sem hæst hafa í þessari umræðu myndu treysta sér í efnislega og málefnalega umræðu um staðreyndir og þær áskoranir sem blasa við í stað þessa að þyrla upp ryki. Í því samhengi má nefna að formaður Viðreisnar hafði, sem sjávarútvegsráðherra, forgöngu um að Deloitte færi í téða úttekt á rekstrarstöðu sjávarútvegsfyrirtækja og studdi breytingar, eins og ummælin hér að framan eru til vitnis um. Ótrúlegur málflutningur formanns og annarra þingmanna Samfylkingarinnar væri síðan efni í heila blaðagrein til viðbótar.
Heildarendurskoðun stendur yfir
Frumvarp atvinnuveganefndar felur í sér sértæka aðgerð til að lagfæra að hluta ágalla á álagningu gjaldsins og bregðast við þeirri staðreynd að rekstrarafkoma sjávarútvegsfyrirtækja hefur versnað verulega. Jafnframt tryggir frumvarpið að lagt verði á veiðigjald síðustu fjóra mánuði ársins en að óbreyttum lögum er sú heimild ekki fyrir hendi.
Fyrir liggur að heildarendurskoðun á lögum um veiðigjald stendur yfir og er ráðgert að ljúka henni á haustþingi. Ég bind vonir við að með þeirri endurskoðun náist meiri sátt um framtíðarfyrirkomulag gjaldtökunnar. Þannig verði tryggt að þjóðin fái hlut af arðsemi auðlindarinnar en á sama tíma að sjávarútveginum í heild verði gert kleift að vaxa og dafna. Greiðsla veiðigjalds taki þannig tillit til afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og að gjaldið verði einfalt, stöðugt og fyrirsjáanlegt. Þannig tryggjum við líka hagsmuni þjóðarinnar allrar til lengri tíma.