
Frú forseti. Loksins hefjum við störf hér á Alþingi. Eftir brösulegan aðdraganda þingstarfa kom rok í Reykjavík, þingstörfum var frestað og um tvær og hálf vika er eftir af febrúar.
Frú forseti. Það var áhugavert fyrir mig eftir sjö ára setu í ríkisstjórn að heyra um svokallað nýtt verklag í ríkisstjórn Íslands. Það er auðvitað ekki nýtt verklag að gengið sé inn í ráðuneyti og ekki spurt: Hvernig hefur þetta alltaf verið gert? Ég held að hæstvirtur forsætisráðherra viti það alveg en mér er ljúft og skylt að upplýsa að svo er vitanlega ekki.
Það er heldur ekki nýtt verklag að hæstvirtur forsætisráðherra eigi fundi einslega með hverjum einasta ráðherra til að undirbúa þingstörfin.
En það væri vissulega nýjung ef rétt reynist að það sé full eining í meiri hlutanum um öll þau 107 mál sem birtast í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og eiga að skila sér til þingsins á næstu sjö vikum. Ég held reyndar að það verði ekki alveg þannig.
Ekkert af þessu er nýtt verklag en yfirlýsingar um stjórnskipulegar uppfinningar og snilldarbrögð endurspegla kannski helst reynsluleysið sem ný ríkisstjórn þarf að glíma við.
Frú forseti. Síðasta vor hittust leiðtogar flestra Evrópuríkja á ströndinni í Normandí til þess að minnast þess að áttatíu ár voru liðin frá því að gagnsókn bandamanna inn í Evrópu hófst 6. júní 1944. Við Íslendingar héldum upp á það ellefu dögum síðar að áttatíu ár voru liðin frá því að við urðum lýðveldi og ótengd erlendri krúnu. Og í byrjun janúar hittust flestir leiðtogar Evrópu í Póllandi til þess að minnast þess að áttatíu ár voru liðin frá því að sovéskir hermenn frelsuðu sjö þúsund sem enn héldu lífinu eftir dvölina í alræmdustu í útrýmingarbúðum nasista.
Áttatíu ár eru um það bil ein mannsævi fyrir þau sem njóta þess láns að lifa fulla ævi. Þetta er tíminn sem er liðinn frá því að lýðveldið Ísland fæddist og frá því að bandamenn réðust inn til að bjarga Evrópu undan nasistum. Og hann er ansi stuttur í sögulegu samhengi.
Frelsið tapast aldrei allt í einu, virðulegi forseti. Þess vegna þurfum við að vanda okkur í hverju skrefi.
Þegar Ísland varð fullvalda 1. desember 1918 vorum við samferða allmörgum ríkjum sem höfðu verið að berjast fyrir tilverurétti sínum sem þjóðríki og lýstu yfir sjálfstæði undir lok fyrri heimsstyrjaldar. Þar má nefna Finnland og Eystrasaltsríkin þrjú en líka Úkraínu, Belarús, Georgíu, Armeníu og Aserbaísjan. Sum þessara ríkja hlutu sjálfstæði til skamms tíma en voru soguð inn í Sovétríkin. Finnlandi og Íslandi hefur tekist að halda fullveldi sínu óslitið. Enginn vafi er um það hvor leiðin var betri fyrir íbúana.
Frelsið, fullveldið, ábyrgð á eigin málum, lýðræði, friðsamleg viðskipti við umheiminn og virðing fyrir réttarríki og persónulegum mannréttindum eru uppskrift sem virkar. Og forsenda alls þessa er friðurinn. Á síðustu áttatíu árum hefur sá friður verið verndaður með þeirri reglu að alþjóðlega viðurkenndum landamærum ríkja sé ekki raskað með vopnavaldi eða með hótunum um beitingu þess. Á þessum tíma hefur okkur Íslendingum tekist mjög vel að hlúa að okkar samfélagi, opna það fyrir alþjóðlegum straumum, stefnum og tækifærum.
En friðurinn sem við hvílum í er ekki okkar eigin. Við eigum hann að þakka alþjóðlegu samstarfi og sátt sem komst á á milli ríkja fyrir um áttatíu árum þegar menn höfðu horft upp á eyðileggingarmáttinn. Í langri sögu mannkyns er það þó ekki regla, heldur undantekning, að deilur ríkja séu leystar á grundvelli sameiginlegrar löggjafar og stofnana og það er á grundvelli þeirra leikreglna sem tilverugrundvöllur smárra ríkja eins og Íslands hvílir á.
Ég geri ekki sérstaklega ráð fyrir að utanríkismál verði mikið á dagskránni hér í kvöld. Ég þekki það ágætlega að oftast vilja flestir tala um eitthvað annað. En mál sem gerast utan Íslands geta haft mikil og afgerandi áhrif á það hvernig við höfum það heilt yfir hér innan lands. Og sú staða getur verið að myndast að framganga okkar og afstaða í utanríkismálum geti haft afgerandi áhrif, sem hugsanlega munu vara í áratugi eða lengur.
Við búum vel að reynslumiklum og öflugum utanríkisráðherra en það er þegar farið að reyna á mun fleiri og það mun aukast, mögulega hratt.
Ég saknaði þess í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra að alvarleikinn birtist þar og sterkari skoðun á því hver verkefnin fram undan eru.
Frú forseti. Á árinu 2026 mun svo annað risastórt lýðræðisríki halda upp á 250 ára sjálfstæði. Það er ríkið sem skrifaði með fyrstu orðum sjálfstæðisyfirlýsingar sinnar að allir menn séu skapaði jafnir.
Sú stjórnarskrá Bandaríkjanna sem skrifuð var í kjölfarið var uppfull af margvíslegum aðferðum til þess að tryggja að ólíkir þræðir ríkisvaldsins hefðu fullkomið sjálfstæði frá hver öðrum, hefðu getu til þess að veita hver öðrum aðhald og gætu gripið í taumana ef í óefni stefndi, því að þótt þeir sem stofnuðu Bandaríkin hafi ekki verið sammála um alla hluti, langt í frá, þá voru þeir sammála um eitt, þeir vildu ekki hafa kóng og vildu ekki vera kóngur.
Frelsið tapast sjaldan allt í einu, frú forseti.
Grundvöllur lífskjara okkar og lífsgæða er ekki sjálfgefinn. Að varðveita jarðveg frelsis og halda í skefjum þeim öflum sem vilja spilla honum, hvort sem það er í formi utanaðkomandi ógnar, freklegra stjórnvalda eða ægivalds ofstækis eða hagsmunaafla, er verkefni okkar allra; borgaranna, atvinnulífsins, fjölmiðla, háskólasamfélagsins o.s.frv.
Þar þurfa augu okkar að vera opin, því að það eru mun fleiri en stjórnvöld í örfáum einræðisríkjum sem vilja takmarka frelsi okkar. Hagsmuni stórra ríkja, stórra stofnana og stórra fyrirtækja er ekki alltaf vel hægt að samræma við frelsi, hamingju og borgaralegt sjálfstæði einstaklingsins.
Að lokum, frú forseti: Eins og sanngjarnt er þá mun ríkisstjórn þessi dæmast af verkum sínum. Hlutverk forsætisráðherra er öðru fremur að leiða þjóðina, marka spor og vera framsýn, ekki að vera í hlutverki verkefnastjórans. Ég vona að hæstvirtum forsætisráðherra og ríkisstjórninni gangi vel. Nú reynir á.