Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 var kynnt í vikunni. Hún endurspeglar sterka stöðu. Staða ríkissjóðs hefur ekki verið traustari um árabil, landsframleiðsla hefur aldrei verið meiri og markmið um lækkun skulda eru á undan áætlun.
Allt þetta skapar sterkan grundvöll undir kröftuga sókn. Og sóknin birtist skýrt og greinilega í fjármálaáætluninni. Hún felur í sér skynsamlega ráðstöfun á svigrúminu sem sterk staða gefur okkur til að efla innviði Íslands, bæði efnislega og félagslega.
Sókn á flestum sviðum
Fjárfestingar í innviðum verða stórauknar strax á næsta ári og halda svo áfram að aukast þar til þær ná hámarki árið 2021. Alls munu innviðafjárfestingar nema 338 milljörðum á næstu fimm árum. (Og rétt tæplega 400 milljörðum ef yfirstandandi ár er meðtalið.)
Þar af munu 124 milljarðar eða rúmur þriðjungur fara í samgöngur og fjarskipti, enda öllum ljóst að brýnt er að hraða framkvæmdum í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum, þar sem risavaxið verkefni bíður okkar. Framlög til samgönguframkvæmda munu á næsta ári hækka sjöunda árið í röð. Sé horft á næstu þrjú ár nema þau 75 milljörðum, eða 25 milljörðum á ári. Ljóst er að þörfin er enn meiri og samgönguráðherra hefur réttilega opnað á þann möguleika að ganga lengra og þá með einhvers konar gjaldaleið.
Framlög til heilbrigðismála hækka um 19% á tímabilinu á föstu verðlagi. Mestu skiptir auðvitað að þjónustan eflist og þar getur fleira skipt máli en bara framlögin.
Útgjöld til málefna aldraðra og öryrkja, sem voru um 80 milljarðar árið 2012 á verðlagi yfirstandandi árs, verða árið 2023 orðin 160 milljarðar á sama verðlagi. Þetta er tvöföldun að raunvirði á áratug.
Umhverfismál fá einnig drjúgan skerf og framlög til þeirra hækka um ríflega þriðjung yfir tímabilið samanborið við árið 2017. Þar munar mikið um stórfellda uppbyggingu á ferðamannastöðum og stuðning við aukna landvörslu, auk áherslu á loftslagsmál. Löggæsla verður styrkt og áhersla meðal annars lögð á rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála, eflingu landamæravörslu og aukna löggæslu, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna.
Framlög á hvern nemanda á framhalds- og háskólastigi hækka. Fæðingarorlof verður lengt og hámarksfjárhæðir hækkaðar. Greiðsluþátttaka sjúklinga verður minnkuð. Framlög til þróunaraðstoðar verða aukin. Stuðningur við rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækja verður aukinn til að bæta starfsumhverfi framsækinna þekkingarfyrirtækja; það skiptir sköpum fyrir okkur sem samfélag.
Rétt er að leggja áherslu á að allt ofangreint kemur til viðbótar við aukningu á framlögum til samgönguframkvæmda, helstu velferðarmálaflokka og menntamála, sem þessi ríkisstjórn stóð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Fjárlög 2018 samanborið við 2017 fólu þannig í sér 8,7% raunaukningu til heilbrigðismála á milli ára, 6,3% aukningu til félags-, húsnæðis- og tryggingamála og 4,8% aukningu til mennta- og menningarmála.
Skattalækkanir: vatnaskil
Það er gleðilegt að samhliða sókn á fjölmörgum sviðum verða skattar lækkaðir svo um munar. Neðra þrep tekjuskatts einstaklinga lækkar um eitt prósentustig, sem þýðir í raun 1% launahækkun á öll laun sem tilheyra neðra skattþrepi. Tryggingagjald verður lækkað strax á næsta ári. Ýmsar fleiri skattkerfisbreytingar eru boðaðar en heildarniðurstaðan er myndarleg skattalækkun.
Raunar felur þetta í sér vatnaskil. Samkvæmt spá um skatttekjur ríkissjóðs gera þessar breytingar nefnilega að verkum að skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu munu lækka á næsta ári. Undanfarin átta ár hafa þær alltaf nema einu sinni hækkað, þrátt fyrir lækkun ýmissa skatta og gjalda, sem sýnir að þær lækkanir hafa undanfarin ár ekki náð að halda í við kerfislega innbyggðar hækkanir vegna meiri velmegunar og hærri launa. Skatttekjur hafa því hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu þrjú ár í röð, en með þessari fjármálaáætlun er snúið af þeirri braut, sem er gleðiefni.
Forsenda árangurs
Eins og hér hefur verið rakið munu ótal verkefni og málaflokkar njóta góðs af því á næstu árum hve okkur hefur tekist að skapa sterkan grundvöll fyrir kröftuga uppbyggingu. En öll sú viðleitni stendur og fellur með því að okkur takist að viðhalda góðri stöðu efnahagsmála, auka verðmætasköpun og koma í veg fyrir að óvenjulega mikil kaupmáttaraukning landsmanna á undanförnum misserum verði verðbólgu að bráð. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það brýnustu verkefnin.