Traust viðbrögð við vágesti

Ekki er nema rúm vika frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist á Íslandi föstudaginn 28. febrúar. Viðbrögð almennings og yfirvalda hafa einkennst af yfirvegun og skynsemi. Engum blöðum er um það að fletta að við eigum mikið verk fyrir höndum til að lágmarka skaðann, sem er ekki allur kominn fram.

Viðbrögð almannavarna og heilbrigðisyfirvalda

Í heila viku frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi barst ekkert smit á milli manna hér innanlands. Með öðrum orðum: Allir sem greindust fyrstu vikuna höfðu fengið veiruna erlendis. (Raunar allir á sömu tveimur stöðunum.) Þetta breyttist viku síðar, sl. föstudag, sem lá vissulega fyrir að væri aðeins tímaspursmál. Það er til marks um traust viðbrögð almannavarna og heilbrigðisyfirvalda að það skyldi takast að koma veg fyrir þetta eins lengi og raun bar vitni. Það hlífði heilbrigðisþjónustunni við miklu álagi.

Viðbrögð almennings

Það er hluti af sjálfsmynd Íslendinga að við séum frekar agalaus þjóð og berum ekki nema hóflega virðingu fyrir boðum og bönnum. Við höfum hins vegar sýnt á okkur allt aðra hlið gagnvart þessari vá; líklega sömu hlið og við sýnum gjarnan gagnvart náttúruvá, en í þeim efnum erum við jú eldri en tvævetur. Við höfum tekið málið alvarlega. Almenningur hefur meðtekið leiðbeiningar almannavarna og heilbrigðissérfræðinga, farið eftir þeim og í mörgum tilvikum gengið lengra.

Segja má að í þessu máli hafi þjóðin ekki fylgt sínu eigin frægasta mottói – „þetta reddast“ – að minnsta kosti ekki í neikvæðasta skilningi þess, heldur haft vaðið fyrir neðan sig og lagt töluvert á sig til að hefta útbreiðslu vandans. Þetta hefur samt gerst án óþarfa geðshræringar. Við höfum almennt haldið ró okkar og sýnt ábyrgð.

Viðbrögð stjórnmálanna

Mjög þýðingarmikið var að forystufólk ríkisstjórnarinnar steig hratt inn í og náði samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um að eyða óvissu um launagreiðslur til fólks í sóttkví. Sú óvissa hefði hæglega getað spillt verulega mikið fyrir viðleitni okkar til að koma böndum á vandann.

Ótti er kjörlendi ákveðins hóps stjórnmálamanna. Það er því þakkarvert að lítið hefur borið á því hér að reynt hafi verið að þyrla upp ryki um málið í pólitísku skyni. Úr röðum stjórnarandstöðunnar hefur meira borið á stuðningi við aðgerðir yfirvalda og áherslu á að hlíta ráðum þeirra sem best þekkja til.

Viðbrögð Jürgen Klopp

Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, á sér marga aðdáendur og þeim fækkaði ekki með svari hans við spurningu um kórónuveiruna á dögunum. Klopp sagði: „Mér líkar ekki þegar skoðun knattspyrnustjóra er talin skipta máli um háalvarlegt mál eins og þetta. Ég bara skil það ekki. Það skiptir engu hvað frægu fólki finnst, fólki eins og mér sem hefur enga þekkingu á málinu. Spyrjið sérfræðingana sem þekkja til, ekki knattspyrnustjóra. Til hvers að spyrja mig? Ég er bara með derhúfu og illa snyrt skegg. Mitt álit skiptir engu. Þeir sem hafa vit á málinu segja til um hvort óhætt sé að spila fótbolta, ekki ég.“

Um svipað leyti lýsti valdamesti stjórnmálamaður heims því yfir að hann hefði „hugboð“ um að helstu sérfræðingar væru að gera of mikið úr hættunni.

Viðbrögð vegna ferðaþjónustu

Strax næsta virka dag eftir að fyrsta smitið greindist, þ.e. mánudaginn 2. mars, funduðum við í Stjórnstöð ferðamála um áhrif málsins á íslenska ferðaþjónustu, sem var í viðkvæmri stöðu fyrir og möguleg viðbrögð. Fundinn sátu ráðherrar, embættismenn og forystufólk úr ferðaþjónustu og af sveitarstjórnarstiginu.

Á fundinum var ákveðið að hefja þegar í stað undirbúning að alþjóðlegu markaðsátaki í þágu ferðaþjónustunnar.

Það var samdóma álit að gagnslaust væri að hleypa slíku átaki af stokkunum við núverandi óvissuástand. Hins vegar væri nauðsynlegt að eiga það tilbúið í handraðanum svo að við gætum sett það í loftið þegar óvissunni létti og markaðurinn yrði aftur móttækilegur.

Þetta fyrsta skref var því stigið hratt. Til viðbótar hefur verið ákveðið að ráðast í markaðsátak til að hvetja Íslendinga til ferðalaga innanlands. Fleiri mótvægisaðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar hafa verið reifaðar og eru til umfjöllunar.

Einnig má minna á að fimm ára aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu á grundvelli nýrrar sameiginlegrar stefnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar er nú þegar í vinnslu með víðtækri aðkomu hagsmunaaðila.

Innspýting í efnahagslífið

Fyrr sama dag og fyrsta smitið var staðfest á Íslandi var haldinn blaðamannafundur sem féll í skuggann.

Þar voru kynntar tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar um u.þ.b. 1.000 milljarða úrbætur á innviðum í kjölfar fárviðris og snjóflóða. Framkvæmdir varðandi rafmagn, hitaveitur, fjarskipti, samgöngur, ofanflóðavarnir og fráveitur munu samkvæmt þeim nema um 90 milljörðum á ári fram til 2030 (fyrir utan virkjanaframkvæmdir). Sumt var þegar á dagskrá, sumu er flýtt og sumt er nýtt.

Endurskoðun innviðaframkvæmda er auðvitað mikilvægt framlag gagnvart þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við bætast sérstakar aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar eins og fyrr segir. Það er því ekki hægt að halda því fram að staðið hafi á viðbrögðum, þó að verkefninu sé ekki lokið.