Mig langar að byrja fyrstu grein mína á þessum vettvangi á að þakka fyrir að fá tækifæri til að segja fáein orð við ágæta lesendur Morgunblaðsins með reglulegu bili. Markmið mitt er að skrifin verði hæfileg blanda af almennum hugleiðingum um stjórnmál annars vegar og umfjöllun um viðfangsefni dagsins hins vegar. Reynslan verður að leiða í ljós hvort þetta gengur eftir. Eins og góðum stjórnmálamanni sæmir ætla ég ekki að lofa meiru en ég get staðið við og læt því duga að heita því að bera virðingu fyrir tíma og athygli lesenda.
Hugsjónir og lífsviðhorf eru leiðarljós hvers og eins okkar um það hvert við viljum stefna. Á grundvelli þeirra aðhyllumst við meginreglur, sem virka eins og áttaviti á þeim krossgötum sem verða á vegi okkar þar sem ekki er augljóst hvaða leið er farsælust til að ná settu marki. Meginreglurnar hjálpa okkur þannig að taka afstöðu til flókinna viðfangsefna.
Sá sem hefur frjálst samfélag að hugsjón og trú á einstaklingsframtakið að lífsviðhorfi hlýtur að aðhyllast þá meginreglu að frelsi og framtaki beri að setja sem allra fæstar skorður og aðeins ef brýna nauðsyn beri til. Fyrsta hugsun þessa einstaklings er ekki: „Hvaða boð eða bönn getum við innleitt?“ – heldur: „Getum við sleppt því?“
En þó að meginreglurnar vísi okkur alla jafna í rétta átt verðum við að hafa hugfast að fram undan gætu verið sker sem krækja þyrfti hjá. Sá sem þrjóskur eltir nálina á áttavitanum, sama hvað tautar og raular og án þess að gæta að umhverfi sínu, hefur gert meginregluna að kreddu. Hann kemst kannski hratt yfir um stund en siglir fyrr eða síðar í strand.
Kreddulausir unnendur frelsis samþykkja því fúslega að boð, bönn og önnur opinber afskipti geta vel samrýmst hugsjóninni um frjálst samfélag og virðingu fyrir athafnafrelsi. Það breytir því ekki að það er góð meginregla að gera strangar kröfur bæði til þeirra reglna sem þegar hafa verið settar sem og hugmynda um ný boð og bönn, sem enginn hörgull er á; hugleiða vel möguleg neikvæð áhrif þeirra og krefjast þess að sýnt sé fram á að þau séu nauðsynleg til að sneiða hjá skerjum.
Óheftur aðgangur að takmarkaðri fiskveiðiauðlind er skýrt dæmi um óviðunandi stöðu sem allir töpuðu á og hefðu haldið áfram að tapa á nema vegna þess að stjórnvöld stigu inn í og hertu leikreglurnar. Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu fólu í sér róttæka breytingu sem kallaði eðlilega á umræðu um grundvallaratriði á borð við atvinnufrelsi og jafnræði en fáir efast um það í dag að breytingin var bæði nauðsynleg og skynsamleg.
Ótakmarkaður aðgangur ferðamanna að náttúruperlum landsins kann í sumum tilvikum að spilla auðlindinni og valda því að allir tapi til lengri tíma litið, annars vegar með beinum náttúruspjöllum og hins vegar með skertri upplifun ferðamanna. Eðlilegt er að ábyrgðaraðilar landsvæða – einkaaðilar, sveitarfélög og hinir ýmsu fulltrúar ríkisins – séu vakandi fyrir þessum möguleika og velti fyrir sér mögulegum viðbrögðum. Miklu má áorka með innviðum, skipulagi, landvörslu og þess háttar aðgerðum. Í einhverjum tilvikum kann þó að vera nauðsynlegt að ganga lengra og takmarka aðgang með einhverjum hætti.
Það skiptir sköpum að hafa traustar upplýsingar og rannsóknir til að byggja slíkar ákvarðanir á, rétt eins og raunin hefur verið í sjávarútvegi. Þess vegna legg ég áherslu á að nýta hluta af því svigrúmi sem ég vænti að málefni ferðaþjónustunnar fái á fjárlögum til að efla rannsóknir í þágu greinarinnar og hef leyft mér að tala um „litlu Hafró“ í því sambandi. Hugmyndin er ekki að „stækka báknið“ heldur að uppfylla lágmarksþarfir atvinnuvegar sem hefur margfaldast að umfangi á örfáum árum, í því skyni að hámarka verðmætasköpun og stuðla að sjálfbærri nýtingu á einni af dýrmætustu auðlindum okkar.